Ég hef í þó nokkurn tíma deilt myndböndum af hinum og þessum æfingum sem ég hef verið að gera á samfélagsmiðlum. Þessi myndbönd hafa vakið forvitni margra og þá aðallega fyrir fjölbreytileika. Margoft hef ég verið spurð hvers vegna í ósköpunum ég sé að gera margt af því sem ég er að gera. Eðlilega gerir fólk ráð fyrir að ef þú æfir fyrir spjótkast þá ætti stærstur hluti æfinganna að vera að kasta spjóti. Það er hins vegar ansi langt frá sannleikanum.

Eins og lítið bílslys

Ástæða þess að spjótkastið sjálft er svona lítill hluti af æfingunum er vegna þess hversu gríðarlegt álag það er á líkamann að kasta spjóti. Til þess að útskýra þetta fyrir fólki sem aldrei hefur prófað að kasta nota ég oft þá myndlíkingu að kastið sjálft sé ekki ósvipað því að lenda í árekstri. Spjótkast snýst um að auka hraðann jafnt og þétt í atrennunni og þegar við erum komin á hámarkshraða þá setjum við vinstri fótinn niður (rétthentir kastarar) og stoppum í einu skrefi. Þetta kallast blokkin. Í blokkinni viljum við færa hreyfiorkuna sem við byggðum upp í atrennuhlaupinu yfir í spjótið til þess að það fljúgi sem allra lengst. Þessi orka þarf að fara í gegnum allan líkamann á okkur fyrst áður en hún kemst yfir í spjótið. Þegar vinstri fóturinn kemur í jörðina í blokkinni ferðast orkan upp í gegnum hann, í gegnum ökkla, hné, mjöðm, mjóbak, brjóstkassa, öxl, olnboga og loks yfir í spjótið sjálft.

Nú er ég ekki viss um að þú lesandi góður gerir þér í hugarlund stærðina á þeim kröftum sem eru að færast í gegnum líkamann á okkur í kastinu. Miðað er við að höggið sem kvenkyns kastari sem kastar um 60-65 m (eins og ég) fái upp í bakið í blokkinni sé um eitt og hálft tonn. Já þú last rétt, tonn! Karlkyns kastari sem kastar um 80-85 m (heimsklassi) fær um tveggja tonna högg upp í bakið í blokkinni. Nú held ég að myndlíkingin mín með áreksturinn hljómi trúanlegri.

YouTube myndband, Íslandsmetið í spjóti

Hvernig undirbýr maður sig fyrir þetta?

Það er ekki nema von að þú spyrjir hvernig í ósköpunum maður fari að því undirbúa líkamann undir þessi átök. Þar komum við einmitt að því hvers vegna spjótkastarar þurfa mikla fjölbreytni í æfingum. Við þurfum að geta hlaupið hratt til þess að byggja hraðann upp í atrennunni. Það krefst gríðarlegs styrks að halda vinstri fætinum beinum í blokkinni og standa á móti kröftunum sem koma inn í líkamann. Hver einasti líkamspartur sem orkan ferðast í gegnum þarf að vera nægilega sterkur til að geta tekið á móti henni. Á sama tíma og orkan ferðast í gegnum líkamann myndum við boga með honum til þess geta þeytt spjótinu áfram, þetta krefst liðleika í baki, öxl og olnboga. Allt þetta þarf að gerast eins hratt og mögulegt er og þess vegna þurfum við sprengikraft. Síðast en ekki síst þá þurfa allar hreyfingar að gerast í réttri röð til þess að fá sem mest af orkunni inn í spjótið sem gerir spjótkast að þeirri flóknu tæknigrein sem það er.

Þessar áskoranir má í grófum dráttum segja að ég hafi leyst á eftirfarandi hátt:

  • Grunnþol – Þrekæfingar og hlaup á haustin til þess að þola langar æfingar.
  • Hlaupahraði – Sprettir og hlaup með spjót.
  • Styrkur – Lyftingar og æfingar með eigin þyngd.
  • Kaststyrkur – Medecin bolta köst og köst með litlum, þungum boltum.
  • Liðleiki – Teygjur, fimleika æfingar og sérstakar spjótkast styrktaræfingar.
  • Sprengikraftur – Hopp og ýmsar æfingar í teygjum.
  • Tækni – Hinar ýmsu tækniæfingar og köst með litlum boltum og spjóti.
Iceland’s Asdis Hjalmsdottir at the World Athletics Championships in Daegu, South Korea, Thursday, Sept. 1, 2011. (AP Photo/Kevin Frayer)

Ég vona að ég hafi náð að gefa þér smá innsýn í hvers vegna ég æfi eins og ég geri. Seinna mun ég skrifa fleiri pistla þar sem ég fer nánar í einstaka hluta æfinganna. Ef þér þykir þetta áhugavert og þú vilt sjá hvað ég er að gera nákvæmlega á æfingum þá getur þú fylgst með mér á Instagram (@asdishjalms). Á hverjum föstudegi set ég inn samantekt af æfingavikunni minni auk þess sem ég set yfirleitt eitthvað inn í “story” á hverjum degi fá því sem ég var að gera þann daginn.

Ásdís Hjálms Annerud 
IG: @asdishjalms

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :