Æfingadagbók: Ingibjörg Kristín #4

Í febrúar fór ég í æfingabúðir með landsliðinu í sundi til Tenerife. Það var mjög gott bæði andlega og líkamlega. 

Andlega, að komast aðeins í sól og æfa undir berum himni allan daginn og þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim daglegu verkefnum eins og vinnu, elda mat, setja í þvottavél eða taka bensín. 

Líkamlega, að geta æft undir meira álagi en vanalega með besta sundfólki Íslands og hafa tíma fyrir endurheimt.

Æfingaskipulag

Dagarnir skiptust þannig að við syntum 4 æfingar í röð (2 á dag) og svo ein frí. Við fórum í yoga á hverjum degi með Vöku (@wakemovesleep) og ég lærði helling af nýjum teygjum og æfingum hjá henni sem ég mun nýta mér framvegis í mínum upphitunaræfingum og á hvíldardögum.

Daginn eftir að við komum syntum við 2x yfir daginn og lyftum. Við byrjuðum daginn á yoga í sólinni. Það var frábær byrjun á deginum, sólin hitaði okkur vel svo vöðvarnir voru tilbúnari en venjulega. Eftir yoga fórum við að synda.

Morgunæfing – sund 

Æfingin var mjög góð, vorum aðeins að synda ennþá úr okkur ferðalagið enda smá þreytt eftir það en þar sem enginn tímamismunur var hvarf þreytan fljótt. 

Við vorum að gera running dives á þessari æfingu þar sem við hlupum af stað og stungum okkur ofan í laugina á ferð. Þetta er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri svo ég naut mín í botn! Ég á mér mjög margar uppáhaldsæfingar í sundi og lyftingum og á mjög erfitt með að velja á milli svo ég segi alltaf bara þetta er uppáhalds æfingin mín haha 😉

Eftir æfinguna var hádegismatur og svo heim að leggja sig fyrir lyftingaræfingu. Þetta var max vika hjá mér þar sem ég átti að reyna að lyfta eins þungt og ég gæti bæði í power clean og deadlift sem er einmitt það skemmtilegasta sem ég geri í klefanum svo ég var spennt. 

Lyftingaræfing

Ég og Dado á æfingu

Þennan daginn var ég að fara að max-a power clean! Við fórum öll saman eldri krakkarnir að lyfta og vá hvað það var gaman! Ég fann hvað það hjálpar mikið að hafa vini sína með sér þar sem að heima er ég oftast ein að lyfta vegna þess að við erum öll á mismunandi plani vegna skóla og vinnu. 

Ég náði loksins að lyfta yfir 80kg í power clean og er nýja metið mitt núna 83,5 kg. Var mjög nálægt 85 kg. svo ég tek það næst! 

Ingibjörg lyftir 83,5 kg

Kvöldæfing – Sund 

Eftir lyftingaræfinguna var komið að sundæfingu nr. 2 og það var „power in the pool„ sem eru mínar uppáhalds æfingar vegna þess að það er allt á fullu. Það að synda hratt á fjölbreytta vegu er bara eitt af því skemmtilegasta sem ég geri (já mér finnst nánast allt sem ég geri á æfingum skemmtilegt). Á þessari æfingu fann ég hvað öll þreytan eftir ferðalagið var farin sem var líka plús!

Við byrjuðum á því að hita upp 400m frjálst og fórum svo í 6x50m þar sem við einbeittum okkur að því að fljóta vel í vatninu og tókum 1 stuttan sprett í hverjum 50m.

Næst á dagskrá voru þrjár power stöðvar allt með teygju þar sem hver stöð tók ca 20 mín.

Á fyrstu stöðinni vorum við tvö og tvö saman með eina teygju þar sem annar aðilinn stakk sér ofan í af pallinum og hinn hélt í teygjuna uppi á bakka. Við áttum að gera stungu og gera flugsundsfætur í kafi plús nokkur hröð tök á yfirborðinu. Þarna finnur maður hvernig teyjan togar mann til baka strax þegar maður kemur ofan í laugina og þarf því að gera sterkar fætur í kafi til að komast áfram og upp á yfirborðið til þess að gera nokkur sterk tök.

Á stöð tvö áttum við að synda eins hratt og við gátum 5 sinnum í teygju. Fyrst 8 tök svo 10, 12, 14 og enda á 16 tökum. Eftir 10 tök þá fer þetta að verða erfitt. Teygjan fer að toga mann virkilega til baka og maður þarf að passa sig að halda tækninni réttri svo maður fari ekki afturábak heldur áfram yfir laugina. Við gerðum þetta 2x í gegn.

Á seinustu stöðinni áttum við nýta teygjuna til að tosa okkur til baka og löbbuðum því á bakkanum yfir laugina og syntum til baka með teyjunni þar sem teygjan togar okkur og einnig félaginn. Þetta er svona „over speed work“ þar sem við erum að synda hraðar en við munum nokkurntíman gera sjálf. Þarna finnur maður mjög auðveldlega fyrir því ef maður er að gera einhver mistök þar sem það hægir á manni. Ef ég á að útskýra aðeins betur þá til dæmis ef hausinn er of hátt uppi þá finnur maður að vatnið festist þar en ef maður færir hausinn neðar þá fer maður hraðar. Þetta er líka svo skemmtilegt, haha mitt uppáhald er að láta einhvern toga mig til baka og ég ligg bara í straumlínu og spenni líkamann til að finna hvort ég sé að liggja rétt í vatninu eða ekki. Þessi hraði er eitthvað annað!

Það var orðið frekar kalt á þessum tíma þar sem klukkan var að verða 8 um kvöldið og okkur fannst kalt að standa uppá bakka svo við ákváðum að festa teygjuna við pallinn, einn hélt í pallinn og krækti fótunum í næsta mann sem togaði svo í teygjuna líka! Við sundmennirnir erum svo klár sjáiði til :‘) 

Eftir power stöðvarnar syntum við niður þangað til að okkur leið vel og þreytan var farin út úr líkamanum. 

Í svona æfingabúðum er æfingaálagið meira en venjulega en það eina sem við gerum er að æfa, borða og endurheimt sem gerir okkur kleift að æfa svona mikið. 

Ég vona að þetta hafi gefið ykkur smá innsýn inn í æfingabúðir hjá sund landsliðinu.  

Kveðja 
Ingibjörg Kristín
@ingibjorgkj