Æfingadagbók: Ingibjörg Kristín #3

Ég ætla að fá að segja ykkur frá svona týpískum þriðjudegi hjá mér!
Á þriðjudögum þá æfi ég 3x yfir daginn: tvær sundæfingar og ein lyftingaræfing.

Ég byrja skipulagið yfirleitt kvöldið áður. Ég er að vinna sem kennari í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og þarf því að undirbúa nesti sem ég reyni að gera alltaf kvöldinu áður. Ég mun segja ykkur frá mínu mataræði seinna þar sem ég vigta allan mat sem ég borða og skrái niður. 

Sundæfing:

Á þriðjudögum þá vakna ég kl. 5:40 og mæti upp í laug 6:00, þar tekur við upphitun á bakka. Ég er bara rétt að vekja líkamann og byrja að liðka mig til, rúlla og geri nokkrar yoga æfingar. Ég syndi frá ca. 6:30-7:30 en á þriðjudögum er „Power in the pool“ þar sem við æfum styrkinn í lauginni og notum allskonar tæki til þess að það sé erfiðara að synda.

Í dag notuðum við teygju (stretch cord) sem festist í bakkann og við syndum áfram en hún togar okkur til baka. Fyrst þegar við spyrnum okkur frá bakkanum þá er teygjan auðveld en svo fer hún fljótt að reyna að toga okkur til baka. 

Aðal settið þennan dag var að synda fyrsta hringinn bara 6 sundtök, hringur númer 2 var 8 tök, hringur 3 var 10 tök og seinasti hringurinn var 12 tök. Þannig varð settið erfiðara og erfiðara eftir því sem leið á. Allan tímann var ég að hugsa um að ýta höndunum beint niður sem tókst vel og verður auðveldara með hverjum deginum.

Lyftingaræfing:

Eftir æfingu fór ég í vinnuna en í hádeginu fór ég að lyfta. Mér fannst ég ennþá heit eftir morgunæfinguna svo ég tók létta upphitun með áherslu á axlirnar þar sem það var áhersla dagsins.

Ég tek sjálfa mig upp og sendi þjálfaranum mínum svo hann geti gefið mér ábendingar um hvað sé gott og hvað megi betur fara. Ég lærði samt mjög fljótt hvað það hjálpar mér líka að taka mig upp og skoða hvernig ég lít út þegar ég geri æfingarnar. Ætla ekkert að ljúga, fyrst var þetta smá kjánalegt en það venst og þetta hjálpar mjög mikið svo ég hvet ykkur öll til að prófa að taka ykkur upp og sjá hvað þið eruð að gera á æfingum!

Hérna er svo brot af æfingunni sem ég gerði 😉

Sundæfing:

Ég reyni að mæta alltaf allavega 30 mínútum fyrir æfingu til þess að hita upp á bakkanum. Rúlla, nota nuddbolta til að leysa hnúta í öxlunum aðallega, yoga æfingar, kviðæfingar og þess háttar!

Á þriðjudögum eftir hádegi eru sprettir.

Við gerðum þetta sett 3x í gegn.

6x25m þar sem fyrstu 15 voru póló sund og seinni 10m voru hratt sund.

4×25 þar sem við gerðum 20m hratt og 5m rólega.

2×25 á fullu.

Markmiðið með póló sundinu er að snúa höndunum hratt sem hjálpar við að synda hratt seinni 10 metrana. Mér fannst það ekki hjálpa mér og voru hendurnar að fara hægar en venjulega og fæturnir gátu ekki fylgt eftir eins og þær áttu að gera svo ég talaði við þjálfarann minn og breytti fyrstu 6 í 15m á fullu sundi og 10m rólega.

Lærdómur dagsins:

Ég fann það í dag að til lengdar þá gæti þetta verið of mikið stress þar sem ég er á fullu frá 6 um morguninn til klukkan 8 um kvöldið svo ég hugsa að ég muni breyta, lyfta á mánudögum í staðinn svo ég nái betri endurheimt á milli æfinga á þriðjudögum. 

Mér gekk vel í dag og ég er sátt við æfingardaginn en ég held að ég geti gert ennþá betur með því að hvíla mig meira inn á milli og minnkað þannig stressið yfir daginn. 

Endilega sendið á mig línu ef þið hafið spurningar og munið að hlusta á líkamann og skoða álagið í kringum ykkur!

Takk fyrir að lesa

Ingibjörg Kristín 
@ingibjorgkj