Í dag voru tvær badmintonæfingar og ein æfing í ræktinni. 5,5 tími í allt.
Morgunæfing – badminton (2,5 tími)
Á morgunæfingunni var gerð æfing einn á móti einum og tveir á móti einum. Sóknarhöggin frá baklínunni voru í fókus. Ég er að vinna í að hafa mikinn fjölbreytileika í sókninni – sérstaklega með þau högg sem eru brött og fær andstæðinginn til að þurfa stíga fram í vörninni (í vörninni stendur maður aðeins fyrir aftan miðjan völlinn þannig að maður stígi til hliðar til að taka á móti smössum). Það er grunnatriði í badminton að vera ófyrirsjáanlegur og að hreyfa andstæðinginn – í sókninni er mikilvægt að gera völlinn “stóran” þannig að andstæðingurinn viti ekki hvort hann eigi að stíga fram á við, til hliðar eða aftur á völlinn.
Hér fyrir neðan má sjá smá úrklippu frá 3 æfingum sem við gerðum:
- Einn á móti einum – báðir gera “clears” (langir boltar frá baklínu til baklínu) þangað til að annar gerir sóknarhögg, hinn tekur á móti stutt, sá sem sótti gerir lyftu og það er byrjað upp á nýtt.
- Tveir á móti einum – sá sem er einn er aðalega að vinna aftar á vellinum, þeir sem eru tveir gefa manni færi til að sækja.
- Tveir á móti einum – tveir setja pressu frá fremmri vellinum á þann sem er að vinna. Af og til eiga þeir að gefa færi í stuttan net bolta sem vinnumaðurinn á að sækjast í til þess að reyna að snúa vörn í sókn.
Svona æfing tekur alveg á og ég er alla vega í 20-30 mín að nudda vöðvana á nuddrúllu eftir þetta. Svo er það hádegismatur og smá hvíld fyrir næstu æfingu.
Seinnipartsæfing – badminton og lyftingar (3 tímar)
Seinnipartsæfingin var skipt upp í 1,5 tíma tækniæfingu á badmintonvellinum og svo 1,5 tíma í líkamsræktinni. Badmintonæfingin var mjög róleg, ekki mikil hreyfing.
Í ræktinni er ég að renna í gegnum nýtt prógram. Prógrammið er útbúið fyrir okkur út frá ýmsum líkamlegum prófum sem við förum í á akademíunni sem ég æfi hjá í Danmörku. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan eru þrjár lyftingaræfingar í viku sem eru skipt upp eftir mismunandi markmiðum – tvær fyrir fætur og ein fyrir efri líkamann. Svo eru æfingarnar líka misþungar eftir því hvort að fókus er á t.d. að byggja upp vöðva eða auka sprengikraft.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá nokkrar úrklippur þar sem ég er að renna í gegnum parta af nýja prógramminu.
Takk fyrir að fylgjast með!
Kári
IG: karigunnars
FB: Kári Gunnarsson Badminton