Allir sem hafa fylgst með íþróttum vita að Ólympíuleikar eru sérstakir, þeir eru stærri, miklu stærri en öll önnur íþróttamót sem haldin eru.  Þeir eru ekki líkir neinu öðru íþróttamóti, það er keppt í fjölda greina, hvergi kemur saman jafnmikill fjöldi af afburðaríþróttamönnum. Þessir íþróttamenn búa þétt saman í sama þorpinu og borða á sama veitingastaðnum alla daga og æfa í sama gyminu. Fjölmiðlaumfjöllun er ótrúlega mikil, heimurinn horfir og flestir þjóðaleiðtogar heimsins mæta í Ólympíuþorpið að heilsa upp á sitt fólk.  Þetta er eins og öll heimsmeistaramót yrðu sett á sama stað á sama tíma, en samt aðeins stærra en það.

Meðal annars vegna þessa eru Ólympíuleikar taldir vera það íþróttamót sem er mest andlega krefjandi. Ólympiuleikar eru þess eðlis að truflandi þættir (distraction) eru mikið fleiri en í nokkurri annari keppni.  Sumir virðast þrífast ágætlega í þessu umhverfi en aðrir eiga erfitt með að sýna sína bestu frammistöðu þegar á Ólympíuleika er komið. 

Margir samverkandi þættir

Frammistaða á Ólympíuleikum er nefnilega alls ekki bara háð því hversu vel hefur verið æft, hversu hæfileikaríkur íþróttmaðurinn er og hversu vel er buið að leggja keppnina upp.  Rannsóknir hafa sýnt að hlutir eins og herbergisfélagi sem hrýtur, setningarhátíðin, ferðatilhögun og andlegur undirbúningur geta haft veruleg áhrif á frammistöðu íþróttamanna á Ólympíuleikum.

Vegna sérstöðu Ólympíuleikanna vildu Bandaríkjamenn vita meira, þeir vildu reyna að komast eins nálægt því og hægt er að svara spurningunni: Hvað er það sem leiðir til góðrar frammistöðu á Ólympíuleikum?  Dr. Dan Gould, íþróttasálfræðingur leiddi röð rannsókna sem ætlaði var að svara þessari mikilvægu spuringu.  Hér að neðan ætla ég að fjalla örstutt um nokkra þætti sem Gould og félagar telja mikilvæga í ljósi rannsóknna sinna.

Andlegur undirbúingur

Ef hámarka á frammistöðu er mikilvægt að íþróttamaðurinn leggi töluverða vinnu í andlegan undirbúning.  Vinna þarf með sjálfstraust, sjónmyndaþjálfun, tækni til þess að halda einbeitingu, streitustjórnun, gera þarf slökunaræfingar, læra að nýta sjálfstal, kunna tilfinningastjórnun og markmiðsetningu.

Undirbúa að takast á við truflanir

Þeir íþróttamenn sem gerðu ráð fyrir truflunum þ.e. að ekki allt myndi ganga samkvæmt plani náðu betri árangri en þeir sem höfðu ekki undirbúið sig undir truflanir. Truflanir á Ólympíuleikum geta verið þættir eins og lítill æfingatími á keppnistað, óheppilegar samgöngur, ágengi fjölmiðla, leiðinlegur herbergisfélagi og margt fleira.

Að takast á við lífið í Ólympíuþorpinu

Mynd úr Ólympíuþorpinu 2016, úr einkasafni Hafrúnar.

ÓIympíuþorpið er ótrúlega áhugaverður staður en þar er mikið af fólki á litlu svæði og margt áhugavert í gangi á sama tíma.  Það getur verið þreytandi að vera lengi fyrir keppni í þorpinu og þar er erfitt að fá að vera í næði.  Mikilvægt er fyrir íþróttamenn að undirbúa sig undir þá gerviveröld sem þorpið er og skipuleggja hvenær er best að koma inn í þorpið og hvenær að fara úr því.

Liðsandi

Á Ólympíuleikum koma mörg landslið frá sömu þjóðinni saman og keppa fyrir hönd þjóðarinnar.  Íþróttamenn búa saman í íbúðum.  Þeir geta lent í herbergi með einhverjum sem þeir þekkja lítið sem ekkert, þeir geta búið í íbúð með íþróttamönnum sem eru að keppa á allt öðrum tíma.  Þegar spennustigið er hátt geta orðið árekstar í slíku umhverfi.  Rannsóknir Gould og félaga bentu til þess að mikilvægt væri að búa til eitt Ólympíulið, þar sem allir íþróttamennirnir væru í sama liðinu.  Mikilvægt væri að skapa umhverfi þar sem íþróttamenn hjálpuðu hvor öðrum, veittu stuðning og deildu reynslu. 

Klefinn.is býr svo sannarlega til tækifæri fyrir okkar fólk að hjálpa hvort öðru, deila reynslu og veita stuðning!

Meira síðar!

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir,
sálfræðingur og deilarforseti Íþróttafræðideildar HR.

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :