Botnlanginn kvartar

Föstudaginn 14.desember 2018 vaknaði ég upp akkúrat klukkan fimm að morgni við gífurlegan sársauka í kviðnum og fannst eins og ég hafi verið stunginn með hníf. Ég reyndi að sofna aftur og tókst það klukkan 10 og náði að sofa til tvö. Þegar ég vaknaði þá var allur sársaukinn sem ég hafði fundið farinn fyrir utan að þegar það kom þrýstingur utanfrá á kviðinn þá var mér illt. Ég talaði við marga félaga mína og flestir töluðu nú um að þetta væri líklegast botnlangakast og að ég ætti að fara upp á spítala og láta kíkja á þetta. Mamma ákveður að við fáum okkur kvöldmat og förum síðan á læknavaktina til að athuga þetta, læknirinn var nú ekki lengi að sjá að þetta væri botnlanginn og sagði okkur að fara á bráðamóttökuna. Eins og venjulega þegar þangað er komið þurftum við að bíða mjög lengi og eins og margir þekkja. Endar þetta með því að ég er lagður inn á hjarta-, lungna- og augn skurðdeildina þar sem ekki var pláss á kviðhols- og þvagfæra skurðdeildinni á hæðinni fyrir ofan. Það átti að reyna að koma mér aðgerð á laugardeginum 15.desember en það gekk nú ekki betur en svo að á sunnudeginum 16.des fer ég í aðgerð. Mér fannst nú hálf asnalegt að vera inn á spítala í herbergi með mönnum sem voru með rör og allskonar tæki og tól beint inn í lungað og brjóstholið en ég bara sjálfur með botnlangabólgu. 

Nýkominn úr botnlangatökunni.

Ég fékk að kynnast því hversu skemmtilega sársaukafullar aukaverkannir af botnlangatöku eru og þar sem þarmarnir eru fylltir af lofti getur maður varla hreyft sig eftir aðgerðina án þess að upplifa mikinn sársauka. Mér fannst nú þessi verkjalyf ekki vera að gera neitt fyrir mig en fékk síðan að fara heim á mánudeginum 17.des.

Það gekk allt mjög vel heima og var ég alltaf að verða hressari og hressari með hverjum deginum og var orðinn mjög bjartsýnn á að geta farið í æfingarbúðirnar sem voru á dagskrá í janúar. Markmiðið var að geta æft jafnvel seinni hlutann af ferðinni en síðan kom fimmtudagurinn.

Ég var heima og það voru að koma jól og ég ákveð að fara aðeins að skreyta herbergið mitt. Eins og þegar ég vaknaði á slaginu fimm við botnlangakastið þá á slaginu tvö byrjaði ég að verða veikur aftur en ég ákvað að klára bara að skreyta og svona, síðan leggst ég bara upp í rúm þar til mamma kíkir inn um hálf sex leytið þá ligg ég í svitabaði og líður skelfilega sem endar með því að hún dregur mig niður á bráðamóttöku þangað sem ég var nýbúinn að vera í aðgerð. Þetta átti alls ekki að vera svona.

Þegar þangað var komið hófst sko biðin fyrir alvöru og hver blóðprufan á eftir annarri en aldrei vildu skurðlæknarnir viðurkenna að þetta hafi verið eftir aðgerðina og vilja bara senda mig heim. En sem betur fer var læknirinn á bráðamóttökunni ekki sammála og leyfði það ekki og hélt áfram að gera rannsóknir á mér. Ég fór í allskonar myndatökur á kviðnum, lungunum, heilanum og helling af öðrum testum. Og allan tímann var maður í rúmi fram á gangi beint fyrir neðan neyðarhnapps skiltið sem var alveg skelfilega þreytt dæmi þar sem það pípti nánast stanslaust meðan að ég var þarna.

Bíp draslið á bráðamóttökunni

Eftir að hafa verið á bráðamóttökunni í sólarhring þá loksins komu skurðlæknarnir og sögðu að þetta væru eftirmálar frá aðgerðinni og að ég væri kominn með lífhimnubólgu.  Það lak sem sagt úr þörmunum og inn í kviðarholið á meðan á aðgerðinni stóð eða eftir aðgerðina og var ég því með sýkingu. Var ég fluttur á Landspítalann og fékk núna að vera á Kviðhols- og þvagfæraskurðdeildinni.

Þarna byrja fjörið, ég var með sýkt blóð og einhvern ógeðis vökva fljótandi um kviðarholið og þegar að ég skipti um hlið til að liggja á þá fann ég hvernig sýkti vökvinn fór af hægri yfir á vinstri hliðina. En það þurfti að bíða eftir að vökvinn safnaðist saman í graftarpolla svo hægt væri að stinga á þá með dreni og losna við hann úr kviðholinu. Á meðan var ég á mjög sterkum verkjar- og sýklalyfjum og var ég myndaður nánast daglega á kviðnum til að sjá hvort það væri hægt að fara að stinga á graftarpollana.  Stuttu áður en ég fór í aðgerðina voru graftarpollarnir að mynda það mikinn þrýsting að ég gat ekki pissað þótt að mér liði eins og að pissublaðran væri að springa. Þetta er eitt það óþægilegasta og skrítnasta sem að ég hef upplifað þar sem manni leið eins og maður væri að fara að pissa á sig eða var að reyna að pissa en það bara gerðist ekkert. Útaf þessu fékk ég þann heiður að fá þvaglegg sem mér fannst mjög óþægilegt að vera með.

“Það sem að toppaði allt óþæginlegt andlega var að horfa á hjúkrunarfræðing þræða í mann þvaglegg.”

Allur að koma til inni á gjörgæslu.

Þegar loksins kom að því að stinga átti á graftarpollana þá var maður alveg smá stressaður þar sem ég hafði farið í eina aðgerð á æfinni og hún olli öllu þessu rugli. En þegar á borðið er komið er mér sagt að ég fái dren í vinstri rasskinnina og hægra meginn við naflann. Byrjað er á rasskinninni svo að ég legst á magann og ég held að ég hafi sofnað áður en ég fékk kæruleysislyfið. Hafði nefnilega lítið sofið seinustu dagana og gat ekki legið á maganum svo þetta var geggjað. En það breyttist fljótt þegar mér var snúið við, þá vaknaði ég og leit niður og sá að það var verið að vinna eitthvað í mér. Ég leit út um gluggann og huxaði með mér afhverju ég hafði ekki klætt mig í eitthvað meira en bara bol þar sem mér var orðið frekar kallt og síðan byrjaði ég allur að skjálfa og hristast. Það þurfti 5 hjúkrunarfæðinga til að halda mér niðri meðan að læknirinn var að klára, síðan var mér fleygt yfir á sjúkrarúm þar sem aðgerðin var gerð á tölvusneiðmyndavélinni. Mér var síðan rúllað beint inn á gjörgæslu og allan tímann skalf ég og nötraði en smá saman róaðist líkaminn aðeins niður og maður náði aðeins að anda og slaka á þótt ég væri með um 40 stiga hita og það sveittur að það mætti halda að ég hafði verið að koma úr sturtu.  Það leið ekki langur tími þar til ég var aftur farinn að skjálfa og nötra inn á gjörgæslu og var lítið sem maður gat gert en bara bíða eftir að það liði hjá.

Loksins þegar maður var að koma til og hitinn aðeins að lækka u.þ.b. 5-6 klukkutímum síðar þá fékk maður að fara eftir mikla eftirvæntingu aftur upp á deild þar sem það var ekkert sjónvarp á gjörgæslunni og tíminn leið mjög hægt.

Eftir að fá lítið rör í gegnum rassvöðvan þá leið mér eins og ég væri búinn að rífa vöðvann og ég gat varla hreyft löppina. Mesta sjokkið fyrir mig kom þegar ég þurfti hjálp margra starfsmanna spítalans til að standa upp og hjálpa mér að nota göngugrind svo ég kæmist á klósettið sem var ekki nema fimm metra frá rúminu mínu. En aðeins tveimur vikum áður tók ég 290kg tvisvar í réttstöðulyftu og núna gat ég ekki staðið upp án hjálpar og þurfti að pissa í einhverskonar þvagflösku svo ég þyrfti ekki að standa upp.

Ef þið sjáið það ekki þá var ég að reyna að pósa fyrir myndavélina.

Þarna snérist þetta aðeins við og loksins fór manni að skána þótt það væri ekki mikið í einu en ég greindist með fjölónæmar bakteríur sem þýðir að öll sýklalyf virkuðu ekki á mig. Þetta fannst mér persónulega frábært þar sem maður var settur í einangrun og þá fékk ég mína eigin stofu sem var alveg ofboðslega þægilegt þótt manni hafi liðið ömurlega.

Einn af fjölmörgu göngutúrunum sem ég þurfti a taka á spítalanum.

Ég fékk að fara heim á gamlársdag og borða góðan almennilegan mat í fyrsta skiptið í langan tíma. Ég þurfti að mæta samt upp á spítala á hverjum degi klukkan hálf átta til að koma í blóðprufu, lyfjagjöf og hreinsa drenið sem var allt gert þrisvar á dag.  

Enn eitt tékkið og nánast ekkert eftir á beinunum.

Þetta var gífurlega þreytandi en samt gott að vita að hlutirnir voru loksins að lagast þótt ég þurfti að halda áfram að mæta og vera hálfpartinn lagður inn á spítala. Þótt það væri leiðinlegt að hugsa um að maður væri hérna heima að keyra fram og til baka frá spítalanum í staðinn fyrir að vera að æfa í sólinni í Flórída í Bandaríkjunum.

Það tók um 30 mín að fá sýklalyfin í æð.

Þegar maður loksins losnaði við drenið þá gat maður farið að æfa smá og eina sem ég gerði fyrst var bara að hjóla og hjólaði ég gífurlega mikið, styrkurinn minn var nánast allur farinn og þolið var ekki neitt.

Ég þurfti að bíða í ca. 3 vikur áður en ég gat byrjað að reyna almennilega á mig og þá var bara eitt að gera og það var að borða eins mikið og ég gat og æfa eins mikið og maður gat til að komast í eins gott form og maður gat fyrir sumarið.

Þetta var skrýtinn og erfiður tími, en þetta reyndi mikið á þolinmæðina. Það er erfitt að vera íþróttamaður og vera settur í “straff”. En þú lærir að meta heilsuna.

Bestu kveðjur

Guðni Valur
IG: @gudnigudna

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :