Æfingadagbók: Guðlaug Edda #3

Stór dagur í æfingarbúðum

Fram í byrjun mars þegar keppnistímabilið hjá mér byrjar af alvöru verð ég búsett í Suður Afríku í æfingarbúðum með þjálfaranum mínum og æfingarfélögum. Við erum enn að byggja upp góðan grunn ásamt því að bæta inn meira álagi á hverri æfingu. Eins og ég hef komið að áður þá er þríþraut mikil úthaldsíþrótt og þess vegna skiptir máli að byggja upp góðan grunn með miklum þolæfingum. 

Síðasta fimmtudag var áhersla lögð á hjólaþol og þess vegna eyddi ég löngum tíma á hjólinu þann daginn. Við hjóluðum í heildina 130 kílómetra á rétt tæplega 4 og hálfum tíma í fjöllum Suður Afríku. Fyrir tölfræðinördana þá var meðalhraðinn hjá mér 29,3 km/klst, og hraðast fór ég 62,3 km/klst, training stress score var 118,1, meðal snúningshraði 83 rpm, ég brenndi 2255 kalóríum, svitnaði 2066ml og kleif 1577m.

Allir glaðir í byrjun hjólatúrsins.

Næring á hjólaæfingum

Á löngum hjólaæfingum er algjört lykilatriði að hafa næringu og drykki á hreinu. Að hjóla í svona langan tíma rífur líkamann niður og eyðir mikilli orku. Ef maður nærir sig ekki á meðan löngu hjólaæfingunni stendur á maður í hættu á að lenda í glýkógen skorti (við köllum það að “bonka” í úthaldsíþróttum) í vöðvum og/eða heila. Líkaminn hefur þá eytt öllum þeim sykrum sem hægt er að brenna, en ástandið lýsir sér þannig að maður verður ringlaður, orkulaus, getur ekki hugsað rökrétt og missir einbeitingu. Það er ástand sem er best að forðast, enda alveg ömurlegt að lenda í því og æfingin hættir að skila sér. Ég hef lent í þessu eins og flestir sem ég þekki sem stunda úthaldsíþróttir, og passa núna að fara alltaf vel nestuð í langa hjólatúra. Það er betra að vera með eitt aukagel heldur en einu of lítið!

Á þessari hjólaæfingu borðaði og drakk ég: 1 gel, 2 banana, 2,5 orkustykki, 1,2L carbdrykk, 1L vatn með steinefnum í frá SIS og 1L af vatni, en var samt með afgang í nesti til öryggis ef ég skyldi lenda í því að “bonka”.

Bara klukkutími eftir þegar þessi mynd var tekin. 

Eftir hjólaæfinguna kom ég heim og fékk mér strax prótein- og kolvetnadrykk til þess að byrja að endurhlaða líkamann af orku sem fyrst þannig hann gæti farið að vinna úr æfingunni. Eftir það gerði ég teygjur og borðaði stóran hádegismat. 

Dagurinn ekki búinn

Ég verð alltaf mjög þreytt eftir svona langan tíma á hjólinu og lagði mig þess vegna eftir hjólið áður en ég kláraði hinar æfingar dagsins. Seinni partinn hljóp ég 10km rólegt hlaup á stígunum í kringum húsið mitt hérna úti. Ég passa mig alltaf að fara mjög rólega af stað í hlaup eftir langt hjól, það tekur mig oft langan tíma að hitna aftur og koma fótunum af stað þar sem þeir eru nú þegar orðnir frekar þreyttir. Ég reyni að njóta hlaupsins, náttúrunnar og umhverfisins án þess að hugsa of mikið um hraða eða tíma. Eftir hlaupið kom ég heim og gerði 30mín styrktaræfingar. Styrktaræfingin einblínir á að nota líkamsþyngd í allskonar maga, mjaðma, jafnvægis- og samhæfingaræfingar. Eftir styrk var kominn tími á kvöldmat og síðan svefn. Ég get lofað ykkur að ég svaf vel eftir þennan langa dag. 🙂 

Hvað er lengsti tími sem þú hefur eytt á hjólinu á einum degi?

Hlaupið var bara rólegt þannig ég gaf mér tíma í að taka myndir.
Hlaupastígur við húsið mitt í Suður Afríku.

Takk fyrir að lesa og gefið ykkur góðan tíma í að lengja æfingarnar ykkar.
Guðlaug Edda Hannesdóttir
IG: @eddahannesd