Þorir þú að lifa betra lífi?

Við höfum öll okkar vana og rútínur sem við höfum skapað okkur í gegnum lífið. Þeir eru mismargir og missterkir en við þekkjum öll þægindin sem fylgja því að gera eins og venjulega. Hugtakið að vera vanafastur kemur einmitt þaðan, við erum vanaföst vegna þess að breytingum fylgir óvissa og þær eru óþægilegar. Þá sitjum við í makindum okkar mitt í miðjunni á hinum víðfræga þægindahring, sem er svolítið merkilegt fyrirbæri.

Þægindahringurinn

Þægindahringurinn er til þess gerður að við lifum af. Þú lifðir af gærdaginn svo ef þú gerir eins og í gær þá er mjög líklegt að þú komir til með að lifa af daginn í dag líka. Þægindahringnum er alveg sama um framtíðina, hann vill bara að þú lifir af í dag. Það er gott og blessað að lifa af en ég þori að fullyrða að flest okkar setjum markið aðeins hærra og viljum að lífið líti ekki nákvæmlega eins út eftir eitt, fimm eða 20 ár. Til þess að sjá breytingar getum við hins vegar ekki alltaf haldið áfram að gera það sama heldur þurfum að taka skrefið út í óvissuna, út úr hlýja góða þægindahringnum.

Nú ætla ég að vera fullkomlega hreinskilin, slæmu fréttirnar eru þær að það eru engar töfralausnir. Alveg sama hvað allar auglýsingar um töfratæki, kúra og skyndilausnir sem lofa ótrúlegum árangri á þrem vikum segja. Það sem þarf til þess að gera breytingar í sínu lífi er hugrekki og vinna. Ég veit að það er ekki sexý en þetta er blákaldur sannleikurinn. Góðu fréttirnar aftur á móti eru þær að við erum í stjórn yfir okkar eigin lífi og því fær um að gera það sem við viljum. Og þá meina ég virkilega VILJUM!

Þetta gerum við í fjórum skrefum:

  1. Sestu niður og finndu út hvað það er sem þú virkilega vilt í lífinu. Hvernig lítur draumalífið þitt út?
  2. Settu þér markmið sem leiða þig þangað. Ef þau eru stór þá geturðu brotið þau niður í áfanga.
  3. Gerðu plan yfir það sem þú getur byrjað að gera í dag til að færa þig í áttina að fyrsta áfanganum. Hafðu skrefin svo lítil að það taki því ekki að sleppa þeim.
  4. Komdu þér að verki! Það er hér sem við stígum út úr þægindahringnum og gerum breytingarnar. Mundu að heimsins besta plan er einskis virði ef það er ekki framkvæmt.
Markmiðasetning fyrri hluti
Markmiðasetning seinni hluti

Algengustu mistökin

Stærstu mistökin sem við getum gert hér er ekki að setja okkur of háleit markmið, heldur einmitt þvert á móti að þora ekki að leyfa okkur að dreyma stórt. Okkur hættir til að ofmeta það sem við getum gert á einu ári en stórlega vanmeta það sem við getum gert á áratug. Þegar ég tilkynnti hátíðlega í eldhúsinu heima hjá mér þegar ég var 10 ára gömul að ég ætlaði á Ólympíuleika þá var mér klappað vinalega á kollinn og brosað til mín í vantrú. Skiljanlega! Á leiðinni hef ég sett mér háleit markmið og margoft, ef ekki oftast, ekki náð markmiði ársins. Eftir hver einustu vonbrigði stóð ég upp aftur, mishratt að vísu, dustaði af mér og hélt síðan ótrauð áfram að vinna í áttina að mínum draumi. Ég er ekki komin þangað ennþá en ég er ekki viss um að margir hefðu trúað því að þessi litla 10 ára stelpa sem var að byrja í badmintoni væri 24 árum síðar að keppa að því að komast á sína fjórðu Ólympíuleika og komin með doktorsgráðu. Ef við stefnum á tunglið þá lendum við á meðal stjarnanna en ef við stefnum bara á loftið í stofunni heima þá förum við aldrei hærra en það og lendum líklega bara í sófanum.

Þorðu að láta þig dreyma og þorðu út úr þægindahringnum.

Við skulum lifa, ekki bara lifa af! 

Ásdís Hjálms Annerud
Instagram: @asdishjalms