Æfingadagbók: Ingibjörg Kristín #2

Á laugardögum eru yfirleitt erfiðustu æfingar vikunnar eða sýrubaðs æfingar eins og Anton kallaði það um daginn í æfingadagbók sinni. Æfingarnar okkar eru samt mjög mismunandi þótt við séum bæði að æfa sund þar sem ég æfi eingöngu fyrir 50m en Anton fyrir 100 og 200m. 

Hvað eru keppnislíkar aðstæður?

Keppnislíkar aðstæður er þegar æfingunni er líkt við keppni með einhverjum hætti. Við reynum að búa til keppnislíkar aðstæður á æfingum til dæmis með því að synda í keppnisgalla eða setja upp tímatökubúnað sem notaður er á sundmótum. Við gerum líka upphitun eins og við myndum gera á keppnisdegi og keppum á æfingunni. Með þessu erum við að undirbúa okkur ekki bara líkamann heldur einnig andlega fyrir mót. 

Oft er það þannig að þegar við komum á sundmót þá getur það verið smá ógnandi. Það eru kannski margir mættir að horfa á eða margir í upphitunarlauginni og fullt af dómurum. Með því að æfa þetta og líkja æfingunni við sundmót þá venjumst við keppnisumhverfinu og getum einbeitt okkur að því að synda hratt en ekki stressast upp fyrir keppnina.

Laugardagurinn – sundæfing

Seinasta laugardag áttum við að gera 3x50m á fullu. Það var fundur kl. 10 sem ég vildi mæta á svo ég og @dado.fenrir ákváðum að synda milli 8 – 10. Við mætum alltaf í upphitun á bakka ca. hálftíma fyrir æfingu. Mér leið eitthvað skringilega, var illt í maganum og lá í keng á bakkanum þegar Dadó mætti. Hann hélt að ég hafði sofið illa og spurða hvort ég væri þreytt. Við ákváðum fresta æfingunni framyfir fundinn þar sem mér leið ekki vel. 

Ég fór heim, drakk vatn og fékk mér meira að borða. Dadó fór og lyfti til þess að vera búinn með það. Mér fór að líða aðeins betur svo ég fór á fundinn og passaði að drekka nóg af vatni á meðan. Eftir fundinn leið mér aðeins betur svo við fórum og fengum okkur að borða fyrir æfingu og mættum svo upp í laug klukkan 13 og tókum æfinguna. 

Æfingafélagar við bakkann

Gerðum upphitun á bakka (standard) og syntum svo keppnisupphitun áður en við skiptum yfir í keppnisgallana. Eftir fyrsta sundið sendi ég þjálfaranum mínum sem var erlendis á sundráðstefnu myndband af sprettinum. Gaf honum upplýsingar um hvernig mér leið, hvað var gott og hvað mátti betur fara. 

Ég dróg andann í sundferðinni og það er eitthvað sem ég vil alls ekki gera þar sem ég er aðeins að synda eina ferð og öndunin hægir á mér. Ég finn að ég þarf að gera meira af öndunaræfingum sem hjálpa við að halda niðrí sér andanum á meðan ég syndi. 

Ég fékk gott feedback frá þjálfaranum og reyndi að leiðrétta það í næsta sprett. Eftir þann sprett fann ég að mér leið ekkert alltof vel, ég andaði aftur og langaði að hætta en hann sagði að ég ætti bara einn 50m eftir sem ég ætti að klára. Synti einn í viðbót og gat gert hann án þess að anda sem var mér fannst vera stór sigur. 

Stundum þegar maður er að pæla of mikið í hlutunum eins og með þessa blessuðu öndun mína þá setur maður upp vegg og finnst eins og maður komist ekki yfir hann. Á EM í 25m metra laug í desember þá andaði ég nefnilega einu sinni í 50m skriðsundinu. Ég veit ekki af hverju ég gerði það og man lítið eftir sundinu sjálfu en ég var farin að halda að ég gæti ekki lengur synt 50m skriðsund án þess að anda og þess vegna var þetta mjög stórt skref fyrir mig. Ég sannaði fyrir sjálfri mér að ég gæti synt 50m skriðsund án þess að anda svo það var það sem ég tók með mér heim af æfingunni.

Hérna er video af seinasta 50m hjá mér þar sem ég andaði ekki neitt!! 😀

50m án súrefnis

Mikilvægt að hlusta á líkamann

Stundum getur það gerst að manni líðiur ekki vel og þá er mikilvægt að hlusta á líkamann. Auðvitað þarf maður að læra inn á sig og ég er ekki að segja að ef ég er smá þreytt að ég fari heim að sofa heldur ef maður er veikur eða álagið er búið að vera mikið undanfarið og hætta er á að meiða sig eða verða meira veikur þá er mjög skynsamlegt að hlusta og bíða. 

Ég fór á æfinguna seinna um daginn en var líka orðin betri þá.

Ég átti að lyfta eftir sundæfinguna en tók þá ákvörðun að ég myndi ekki gera það heldur fara heim og slaka aðeins á og sjá til hvort ég væri ekki bara alveg búin að jafna mig daginn eftir sem raunin var og ég lyfti á sunnudeginum í staðin.

Lærdómur dagsins

Ég var að fýla það í seinustu æfingadagbók hjá mér að ég sagði frá lærdómi dagsins og ég ætla að halda í þá venju og skrifa alltaf lærdóm dagsins eftir æfingadagbók hjá mér.

Lærdómurinn í dag er sá að það er mikilvægt að hlusta á líkamann sinn. Þrátt fyrir skrítinn dag og bara eina æfingu þá var þetta stórt skref sem ég þurfti á að halda og ég fór sátt heim. 

Takk fyrir að lesa
Ingibjörg Kristín
@ingibjorgkj