Mér fannst við hæfi að skrifa pistil um hvernig ég kynntist ólympískum lyftingum og ferilinn minn þangað sem ég er komin í dag, í vonandi ekki of löngu máli….lofa samt engu. 

Ég heiti Þuríður Erla Helgadóttir, hef alltaf verið kölluð Þurí og hef notað Thuri Helgadóttir eftir að margoft hafði verið reynt að bera fullt nafnið mitt fram á ensku á hinum ýmsu mótum, ekki að það virki vel en það er allavega skárra. 

Byrjaði snemma

Ég hef verið í íþróttum frá 5 ára aldri, ég var í fimleikum og fótbolta, svo fótbolta og frjálsum og átti mér stórt markmið um að keppa einhvern tímann fyrir hönd Íslands á stórmóti eins og Ólympíuleikunum í Frjálsum Íþróttum.

Fótboltaárin skildu við mig með rifinn liðþófa á báðum hnjám og eftir tvær speglanir á öðru hnénu mínu var ég stanslaust í sársauka á frjálsíþróttaæfingum, var ég því byrjuð að sjást þar minna og minna. Ég byrjaði því fljótlega að mæta í spinning í Sporthúsinu á sama tíma og mamma mín og litla systir mín mættu á æfingu í CrossFit Sport, mig langaði að gera eitthvað þar sem ég fann ekki til. 

Í CrossFit með mömmu og litlu systir

Þær hvöttu mig til að mæta með sér, á CF æfingu, en ég hafði mínar efasemdir um að þær væru að gera eitthvað af viti þar. Ég mætti samt fljótlega á “hraðgrunnnámskeið” og það varð ekki aftur snúið í frjálsar eftir það, eða þá spinning! 

Það er gaman að segja frá því að með tilkomu djúpra hnébeygja og fjöldanum öllum af styrktaræfingum sem við gerum í CrossFit hafa hnén mín nánast alveg verið til friðs. Þrátt fyrir mikið álag og miklar þyngdir! 

Ég hef alltaf verið mikil keppnismanneskja og greip ég fyrsta tækifærið til að keppa sama sumar og ég byrjaði að æfa. Fljótlega byrjaði ég að taka þátt á ýmsum lyftingamótum og áður en ég vissi af var ég mætt á Norðurlandamót, svo Evrópumót og loks Heimsmeistaramót í ólympískum lyftingum. Á sama tíma keppti ég í Openinu, Íslandsmótinu í CrossFit, Evrópuleikunum og loks Heimsleikunum (“The CrossFit Games”).

Macintosh HD:Users:ThuriErla:Pictures:20171215-Event 11 Women-SC26441.jpg

Ég byrjaði árið 2010 og hefur hvert keppnisár verið mjög svipað síðan þá, með reyndar stórri breytingu á fyrirkomulaginu í CrossFit á seinasta ári. 

Ólympískar samhliða CrossFit

Mér fannst alltaf gott að keppa á  lyftingamótum samhliða CrossFit. Það setur ákveðna góða pressu á mig að hafa einungis þrjár tilraunir fyrir hvora lyftu (ss. 3 fyrir snörun og 3 fyrir Clean & Jerk) og mér fannst það góð æfing fyrir CF  mótin líka en þar eru oft æfingar sem innihalda tilraun til að ná eins þungri lyftu og maður getur. Lyftingametin mín hafa til dæmis alltaf verið slegin á mótum, en mér finnst best að nýta adrenalínið á sviðinu í að bæta mig. 

Eitt af því sem ég elska við CrossFit og ólympískar lyftingar er hvað maður getur endalaust bætt sig, það er svo mikil tækni á bakvið þetta að þú ert aldrei orðinn eins góður og þú getur orðið. Þú getur alltaf orðið sterkari og fínpússað tæknina betur. 

Ég fæ mikið spurninguna hvernig ég geti blandað CrossFit og ólympískum lyfingum saman, en þær eru að mínu mati svo stór hluti af CrossFit að það er ekkert mál. 

Ég viðurkenni þó að það hefur kannski verið ögn meira krefjandi seinustu mánuði þar sem ég verð að keppa á ákveðnum fjölda lyftingamóta til að hafa rétt á að keppa á Ólympíuleikunum ef eða þegar ég hef náð þar inn. 

Macintosh HD:Users:ThuriErla:Pictures:40275224_1482013208609228_4064926777452003328_n.jpg

Minn besti árangur hingað til var á heimsmeistaramótinu 2017 þegar ég snaraði 86 kílóum og jafnhattaði 108 kílóum. Ég náði að kreista út eitt annað kíló í snörun á Evrópumótinu í Georgiu 2019, en ég finn að ég á meira inni og er markmiðið að slá þessi met á Evrópumótinu í Moskvu í apríl næstkomandi.

Sjáum hvað setur, ég mun leyfa ykkur að fylgjast með!

Þuríður Erla
IG: thurihelgadottir

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :