Lokahringurinn á Hacienda del Alamo Open mótinu á Spáni fór fram í dag. Mótið er hluti af Evolve mótaröðinni. Þar keppa saman áhugamenn, atvinnumenn, konur og karlar. 12 íslenskir kylfingar frá Golfklúbbi Reykjavíkur eru búnir að vera við æfingar á Spáni og voru á meðal keppenda. Þar á meðal var Ólafía okkar hjá Klefanum. Íslendingarnir stóðu sig með sannkölluðu prýði. Andri Þór leiddi mótið lengi vel og margir Íslendinganna voru í toppbaráttunni.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir endaði jöfn í 6. sæti eftir góða spilamennsku á lokadeginum. Hún lék lokahringinn á fjórum höggum undir pari og endaði samtals á fimm höggum undir pari. Hún var næst besti kvenkylfingurinn í mótinu.
Keppir á móti strákunum
“Það var gaman að spreyta sig á móti strákunum. Það var smá skrýtið fyrst að vera að keppa með þeim en það vandist fljótt. Fyrir mig var þetta mót mest til þess að dusta rykið af kylfunum og taka smá keppnisgolf áður en ég fer til USA að keppa á Symetra mótaröðinni. Ég get ekki annað en verið ánægð með spilamennskuna. Það er jú keppnisskap í mér þannig að ég var ekki sú allra sáttasta í gær, fannst ég eiga mikið inni fyrstu tvo dagana. En ég fékk örn í dag og margt gott að gerast. Ég leyfi mér að vera þolinmóð að koma mér aftur í keppnisform.”