Ofálag og Hvíld

Ofálag

Ofálag er nokkuð sem heyrist oft í tengslum við íþróttafólk og er nokkuð sem þarf að passa vel að gerist ekki.  En hvernig ber að varast ofálag? Í raun er ofálag það álag sem íþróttafólk er ekki undirbúið fyrir. Svo til að draga úr líkum á ofálagi þarf að greina hvernig og hve mikið álag íþróttafólkið þarf að þola.  Þá er ekki nóg að taka meðaltalstölur heldur þarf að skoða hvernig versta mögulega staða gæti litið út. Jafnvel að skoða verstu útgáfuna af verstu mögulegu stöðunni og undirbúa íþróttafólkið undir það álag. Einnig þarf að skoða hvað viðkomandi hefur verið að gera áður en álag er aukið, því of mikið – of oft – of snemma er oftar en ekki ávísun á að viðkomandi lendi í ofálagi.  Þá aukast líkur á meiðslum og vandamálum sem geta haft áhrif á getu til að æfa og frammistöðu í keppnum.

Álag getur svo verið í margvíslegum myndum.  Fyrir suma getur það verið vegalengd og tími, fyrir aðra gæti það verið fjöldi endurtekninga.  Þetta gæti t.d. verið kylfingur sem ákveður að æfa púttin sérstaklega eina vikuna og eyðir margföldum tíma í það miðað við vikurnar á undan.  Þetta gæti líka verið hlaupari sem eykur verulega vegalengd og hraða í hlaupum á stuttum tíma. Í báðum þessu tilfellum verður aukningin of hröð og líklega um ofálag að ræða milli vikna.  Hins vegar er mismunandi hvernig íþróttafólk þolir slíkar breytingar, bæði er munur milli einstaklinga og einnig hjá sama einstaklingnum. Það getur farið eftir ástandinu á viðkomandi hverju sinni – til dæmis geta þættir eins og svefn, næring og andlegt álag sett strik í reikninginn.

Hvíld

Skilaboðin sem íþróttafólk í meiðslum fær er oftar en ekki á þá leið að það eigi að hvíla í ákveðinn tíma.  Margir taka því þannig að um algjöra hvíld sé að ræða og ekki eigi að gera neitt. Slíkt getur átt við þegar um veikindi eða sýkingar er að ræða eða eftir opnar aðgerðir og höfuðáverka.  En ef um er að ræða áverka á einstaka liði eða vöðva getur það verið mjög slæmt fyrir íþróttafólk að hvíla alveg. Nánast alltaf er hægt að finna eitthvað sem íþróttafólkið getur gert. Ef ekki er hægt að gera æfingar í þungaberandi stöðu er hægt að aðlaga æfingar með því að sitja eða vera á hnjánum ef það er möguleiki.  Þó vinstra hnéð sé í meiðslum er hægt að æfa í kringum nánast alla aðra liði líkamans, það er hinn fótleggurinn, miðsvæðið, efri hlutinn, einnig er nánast alltaf hægt að æfa í kringum mjaðmarsvæðið og ökklann á þeim fótlegg sem er meiddur. Einnig er hægt að fá púlsinn upp með æfingum sem ekki reyna á hnéð. Sem dæmi væri að nota hjól sem er með handföngum (Assault Airbike), sitja og notast við kaðla og jafnvel hægt að gera æfingar í vatni ef það setur ekki álag á meiðslasvæðið.

Skilaboð

Íþróttafólk þarf ekki að hræðast mikið álag í æfingum og keppni.  Það sem þarf að passa er að álagsaukningin sé skynsamleg og að viðkomandi sé undirbúinn undir slíka aukningu.  Oft er miðað við að aukning milli vikna sé ekki meiri en um 10%, en er það þó ekki heilög tala. Einnig getur verið mismunandi hve auðvelt er að setja tölur á aukninguna.

Hvíld getur verið nauðsynleg ef taka þarf álag af ákveðnu svæði í ákveðinn tíma eða ef draga þarf almennt úr álagi hjá íþróttafólki.  Þrátt fyrir þetta er algjör hvíld mikill óvinur íþróttafólks þar sem vandamálin geta komið þegar auka á aftur álagið. Eftir að hafa hvílt geta vandamálin komið upp 2-4 vikum eftir að álag er aukið aftur.  Stundum þarf þó að hvíla afmarkað svæði en nánast alltaf er hægt að vinna með önnur svæði og því ekki nauðsynlegt að hvíla alveg.

Íþróttafólk á því helst ekki að vera í algjörri hvíld í lengri tíma í meiðslum og utan æfingatímabils.  Íþróttafólk á heldur ekki að vera hrætt við mikið álag, heldur þarf það að vera undirbúið undir það álag sem lagt er á það.

Valgeir Viðarsson
Sérfræðingur í Íþróttasjúkraþjálfun
Atlas endurhæfing
IG @valgeir.vidarsson
FB @valliphysio
Twitter @vallividarsson