Hugur og hjarta sem ekkert fær stöðvað

Ég er viss um að þú, ég og allir þeir einstaklingar sem nú stefna á þátttöku á næstu Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd, eigum öll eitt sameiginlegt. Við viljum öll að markmið okkar og draumar verði að veruleika. En hvað þarf til að svo megi verða? Margir trúa því að framúrskarandi árangur í íþróttum velti að mestu á genalottóinu eða félagslegum aðstæðum. En þrátt fyrir að þessir þættir hafi mikil áhrif þá trúi ég því að innra með þér og mér sé máttur  sem trompar heppni hvern einasta dag. Ég er að tala um mátt tilfinninganna. Aflið sem færir fjöll!

Fyrirbærið drifkraftur

Það er ákveðið samspil tilfinninga sem þjónar lykilhlutverki þegar kemur að frammistöðu og árangri en það er drifkraftur. Ef við viljum ná metnaðarfullu markmiði þá þurfum við sterkan, jafnvel óstöðvandi drifkraft sem stenst áföll og óvissu vegferðarinnar sem framundan er. 

Flest fólk öðlast sinn drifkraft í gegnum upplifanir/reynslu sem það “verður fyrir” og í kjölfarið fæðist drifkraftur í átt að meðvituðu eða ómeðvituðu markmiði. Ef við viljum öðlast óstöðvandi drifkraft þá er þessi leið handónýt! Þ.e. að vonast til að eitthvað gerist sem gefi manni drifkraft. Betri leið er að skilja hvernig drifkraftur virkar, hvernig við getum kveikt á honum og viðhaldið í sinni sterkustu mynd. 

Tilfinningar eru drifkraftur allrar mannlegrar hegðunar og í grunninn getum við skipt öllum tilfinningum í tvo flokka. Annarsvegar SÁRSAUKAFULLAR tilfinningar, sem eru þá allar neikvæðar tilfinningar og hinsvegar VELLÍÐAN sem eru allar jákvæðar tilfinningar. Að sjálfsögðu eru til ótalmargar tilfinningar  af mismunandi stærðum og gerðum hlaðnar mis miklum krafti en á endanum eru þær hlaðnar sársauka eða vellíðan. Heilinn notar þannig tilfinningar til að vita hvert hann á að fara og hvað hann á að forðast. Ef heilinn trúir því að eitthvað muni leiða til sársauka þá reynir hann að  forðast fyrirbærið. Ef heilinn trúir því að eitthvað muni leiða til vellíðanar þá sækist hann í fyrirbærið. 

Drifkraftur = Vellíðan

Þegar við upplifum óstöðvandi drifkraft t.d. í átt að þátttöku á Ólympíuleikum þá er það m.a. vegna þess að heilinn tengir STÓRKOSTLEGA VELLÍÐAN við hugmyndina um að markmiðið verði að veruleika og STÓRKOSTLEGAN SÁRSAUKA tengt hugmyndinni um að markmiðið verði ekki að veruleika. 

Hvernig getum við búið til óstöðvandi drifkraft? 

A) Með því að skrifa niður, hugleiða, sjá fyrir okkur allan þann sársauka sem við munum upplifa núna strax og í framtíðinni ef við gerum ekki allt sem í okkar valdi stendur til að ná markmiðinu. Ef þú vilt prufa þetta núna strax skaltu skrifa eftirfarandi spurningu á blað og hefjast handa við að svara henni svo ýtarlega að þú finnir fyrir vanlíðan í líkamanum. Hvaða sársaukafullu afleiðingar mun ég upplifa núna strax og í framtíðinni ef ég tek ekki ákvörðun um að gera allt sem í mínu valdi stendur til að markmið mitt verði að veruleika? 

B) Þegar sársaukinn er sem mestur skaltu stökkva á fætur, hrista líkamann aðeins áður en þú hefst handa við að svara næstu spurningu. Hvaða vellíðan og frábæru afleiðingar mun ég upplifa núna strax og í framtíðinni ef ég tek ákvörðun núna um að gera allt sem í mínu valdi stendur til að markmið mitt verði að veruleika? 

Taktu svo ákvörðun um hvora leiðina þú vilt fara; að láta markmiðið ekki verða að veruleika eða að gefa allt sem þú átt svo að það verði að veruleika. Hvora leiðina sem þú velur þá á hún rétt á sér, en veldu meðvitað, það er mikilvægt. Ef vel tekst til þá myndar heilinn sterkan drifkraft og þig bókstaflega langar að taka fyrsta skrefið. 

Með því að gera þessa einföldu æfingu reglulega festum við þessar tengingar í sessi og styrkjum þær. Fyrir vikið verður margfalt líklegra að við gerum það sem gera þarf og það verður mun auðveldara að standast freistingar sem vinna gegn árangri í átt að markmiðinu. Sterkur drifkraftur er einstaklega mikilvægur þegar við þurfum að fara í gegnum mjög erfið æfingatímabil. Eins og þegar annað fólk lætur gagnrýni dynja á okkur og/eða þegar áföll eins og meiðsli banka að dyrum. 

Óstöðvandi drifkraftur byggður á sterkum ástæðum þ.e. sársauka ef ekki… og vellíðan ef af verður… sem er eitt af “leyndarmálunum” sem besta íþróttafólk heims býr yfir. Í heila íþróttamanneskjunnar er þetta barátta upp á líf og dauða, ekkert minna. Fyrir vikið er það ALGJÖRT “MÖST” að fara alla leið. 

Takk fyrir,
Bjartur Guðmundsson
Optimized Performance
IG: @optimizedbjartur