Já ég vigta matinn minn og ég skal segja þér af hverju.

Þegar ég ákvað að hætta í sundi hafði ég áhyggjur eins og örugglega flest allir sem hætta í íþróttum að ég myndi fitna. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að borða eins og venjuleg manneskja. Ég vildi læra það án þess að fara á einhvern kúr sem myndi duga í 1 mánuð. 

Ég skráði mig hjá Working Against Gravity (WAG) sem er prógram þar sem maður vigtar allan matinn sinn svo maður sé að borða rétt hlutföll af próteini, fitu og kolvetni. 

Í WAG fékk ég þjálfara sem reiknaði út hversu mikið ég átti að borða miðað við mína orkuþörf. 

Mesta snilldin við að telja macros er að það er ekki bannað að borða neitt. Ef það passar inn í þau hlutföll sem maður fær, þá getur maður borðað það.

Þetta var mikil vinna til að byrja með, skrá allt inn í MyfitnessPal, ég þurfti að vigta sjálfa mig á hverjum degi og svo einu sinni í viku tók ég myndir af sjálfri mér og sendi á þjálfarann minn. 

Ég var gagnrýnd mikið fyrir að vera vigta allt meira að segja af mínum bestu vinum. Mér var eiginlega alveg sama, ég sá árangur og leið vel. Ég var að vinna sem flugfreyja á þessum tíma og tók vigtina með mér í stopp, á veitingastaði og í heimsóknir. Ég fór til Argentínu og gleymdi vigtinni minni í matsalnum. Restina af ferðinni þurfti ég að sirka út allt sem ég borðaði og ég lærði helling af því. 

Borða á réttum tíma

Þegar ég byrjaði að synda aftur og þá fór ég að taka eftir því hvað það skipti miklu máli að borða á réttum tíma fyrir og eftir æfingar. Ég fór að skipuleggja kolvetnin mín í kringum sundæfingarnar. Prótein í kringum lyftingaræfingar og fituna á kvöldin áður en ég fór að sofa. Einnig fór ég að borða að minnsta kosti 600g af grænmeti á dag. Þegar ég fór að gera þetta fann ég fyrir hvað ég var miklu orkumeiri á æfingum og yfir daginn.

Er macros fyrir alla?

Ég mæli með macros af því að það virkar fyrir mig og get ég bara talað út frá mér. Þetta er smá vinna í byrjun þegar maður er að komast af stað bara eins og með allt í lífinu en þegar þetta er komið í rútínu þá er þetta ekkert mál! Auðvitað er macros ekki fyrir alla. Ég vil meina að ef þú getur breytt einhverju og gert það að lífstílnum þínum þá er það eitthvað sem passar fyrir þig. Mér finnst ekkert mál að vigta matinn minn og því hentar þetta mér mjög vel. 

Lærdómur af því að vigta matinn

Ég hef lært svo mikið á því að vigta allan mat eins og:

·     Hvenær ég á að borða fyrir og eftir æfingu

·      Hvað ég á að borða fyrir og eftir æfingu

·      Hvað inniheldur prótein

·      Hvað inniheldur kolvetni

·      Hvað inniheldur fitu

·      Hvað ég eigi að drekka á æfingu

·      Hvað er góð og „vond“ fita

·      Af hverju trefjar eru mikilvægar

·      Hvað ég á að borða á mótum

Listinn er ekki tæmandi en þetta er það helsta sem hefur hjálpað mér.

Í dag vigta ég matinn minn vegna þess að þá veit ég að ég er að fá næga orku til þess að hámarka árangurinn minn á æfingum. Ég veit nákvæmlega hversu mikið magn af próteini, fitu og kolvetnum ég er að borða á hverjum degi. Næringin skiptir mig miklu máli og þessi leið hentar mér vel. Ef þú ert forvitin/n um macros máttu endilega senda á mig spurningar. 

Takk fyrir að lesa og ef þú hefur spurningar endilega hafðu samband í gegnum instagram.

Ingibjörg Kristín
@ingibjorgkj

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :