Hvíldardagur
Ég tek mér alltaf einn hvíldardag í viku til þess að leyfa líkamanum að jafna sig eftir æfingar vikunnar. Yfirleitt er þetta laugardagur. Á hvíldardeginum sit ég þó ekki bara á sófanum allan daginn því til þess að hjálpa líkamanum að gera við allt sem ég hef brotið niður yfir vikuna er nauðsynlegt að auka blóðflæði. Þetta geri ég með virkri hvíld. Fyrir þá sem ekki vita er virk hvíld öll hreyfing með lítilli ákefð sem eykur blóðflæði en er þó ekki að þreyta okkur. Gott dæmi um þetta er einfaldlega að fara í göngutúr. Í þessari æfingadagbók langar mig til þess að deila með ykkur nokkrum aðferðum sem ég nota til þess að auka endurheimt á hvíldardögunum mínum.
Göngutúr með hundana
Ég á tvo yndislega hunda og þegar ég er heima nýti ég hvíldardagana yfirleitt í það að fara með manninum mínum í aðeins lengri göngutúra með hundana. Við erum svo heppin að búa aðeins fyrir utan borgina svo það tekur okkur ekki nema nokkrar mínútur að labba út í skóg. Það er fátt sem mér finnst eins endurnærandi á líkama og sál og að labba í skóginum.
Yoga
Mér þykir mjög gott að teygja aðeins á líkamanum og gera létt jóga. Þar sem ég hef ekki aðgang að jóga tímum þá leysi ég það með því að nota Daily Yoga appið. Í því get ég valið allskonar tíma sem ég skelli upp á sjónvarpið og geri jóga í stofunni heima.
Gufa
Það er fátt betra til að slaka vel á stífum, þreyttum vöðvum en að fara í gufu eða heita potta. Því miður eru Svíjarnir ekki mikið í heitum pottum en ég reyni alltaf að fara í gufu á hvíldardaginn. Þegar ég er á Íslandi þá nýti ég mér svo heitu pottana alveg eins og ég get.
Nudda mig sjálf
Alveg eins og ég nota titrandi nuddbolta alltaf fyrir og eftir allar æfingar þá þykir mér mjög gott að hrista aðeins úr mér þreytuna á hvíldardögum líka. Ég get ekki notað nuddboltana heima þar sem allt húsið hristist svo í staðinn nota ég Hypervolt nuddtækið. Ástæðan fyrir því að ég nota titringinn frekar en bara að rúlla mig venjulega er að titringurinn sjálfur eykur blóðflæði mun betur.

Svefn
Fyrir utan það sem ég geri sérstaklega á hvíldardögum þá hef ég líka sett mér endurheimtarmarkmið, eins og Anton talaði um í sinni æfingadagbók um daginn. Eitt af þeim er að sofa 8-9 tíma á hverri nóttu. Ég finn virkilega mikinn mun á mér ef ég fæ ekki nægan svefn og allt verður einhvern veginn erfiðara. Þess vegna hef ég sett það í algjöran forgang að sjá til þess að ég sofi nóg.
Ég nota Oura hringinn til þess að mæla magn og gæði svefnsins. Hringurinn mælir líkamshita, hjartsláttartíðni og breytileika í hjartsláttartíðni (e. Heart rate variability) á meðan ég sef. Þessar upplýsingar eru síðan nýttar til þess að meta hversu vel ég hef jafnað mig eftir æfingarnar og í meðfylgjandi appi fæ ég síðan ráðleggingar byggðar á því.
Ég hef mikinn áhuga á öllum endurheimtaraðferðum svo endilega deilið með mér hvað þið gerið með því að tagga mig í story á Instagram @asdishjalms.
Ásdís Hjálms Annerud
Ig: @asdishjalms
FB: Ásdís Hjálmsdóttir Annerud