Hvernig tekst ég á við leiða og þreytu í minni íþrótt?
Það eru líklega flestir íþróttamenn sem finna fyrir leiða og þreytu á einhverjum tímapunkti í sinni íþrótt. Það er ekki óeðlilegt, uppáhalds áhugamálið er allt í einu orðið að vinnu og hugarfarið gagnvart því þarf að breytast. Þetta er ekki bara uppá gamanið lengur, nú á að lifa af íþróttinni. Þitt lifibrauð er undir þér komið, en samt á sama tíma ekki því þú ert að keppa við hundruði annarra einstaklinga sem allir eru að reyna ná sama markmiði og þú og vinna sömu mót og þú ert að reyna að vinna.
Ég fann fyrir miklum leiða á síðasta ári. Ég ætla ekkert að vera feimin með það. Ég var þreytt líkamlega og andlega, ég fékk mjög stutt frí á milli tímabila, og ég átti erfitt með að finna einhvern eldmóð í því sem ég var að gera. Langtíma markmiðin voru einhvernvegin svo langt í burtu og mér fannst ég ekki vera uppskera neitt af því sem ég hafði sáð. Við sáum minni framfarir á milli æfinga og ég var ekki að ná að laga hlutina eins fljótt og ég hafði náð að laga þá tvö árin þar á undan. Og svo komu meiðsli sem hindruðu mig í að vinna eins mikið og ég vildi á meðan var verið að finna út úr nákvæmlega hver meiðslin væru og hvernig væri hægt að meðhöndla þau. Fókusinn á æfingum var ekki 100% og ekki einu sinni 90% þegar ég hugsa til baka. Ég fór bara á æfingu af því að ég vissi að ég ætti að æfa, þetta væri vinnan mín og það væri nú eins gott að mæta í vinnuna. Spilamennskan endurspeglaði auðvitað hvernig æfingarnar höfðu verið og klaufamistök hér og þar í hverju móti voru mun algengari en höfðu verið árin á undan. Hvernig í ósköpunum átti ég að spila vel þegar engin gleði var í leik né á æfingum?
Eftir að hafa verið í atvinnumennsku í 2 ár fann ég að það sem hjálpaði mér mest var það að ég fór alltaf sátt af æfingu. Ég var glöð með það sem ég hafði gert, ég var ánægð með frammistöðuna á æfingu og ég hafði náð mínum markmiðum á æfingunni. Ég fann mína gullnu línu í æfingum. Einhverjir hefðu eflaust viljað sjá mig vera allan daginn á æfingum en það hentaði mér engan veginn. Ég vildi hafa 90-100% fókus á allri æfingunni og það er erfitt að halda svoleiðis fókus í 8-10 tíma. Áttatíu högg með fullum fókus á æfingasvæðinu skilaði mér betri árangri heldur en tvöhundruð með 50% fókus því þá var ég bara að slá tvöhundruð bolta af því að ég „átti“ að gera það. Árin 2017 og 2018 fór ég alltaf glöð af og á æfingu. Ég var glöð því að mér fannst gaman og þá var ég spennt að fara að æfa daginn eftir. Árið 2019 tapaði ég þeirri gleði og spilamennskan eftir því.

Eftir að hafa rætt við Tómas Frey Aðalsteinsson, íþróttasálfræðing, í desember þá fórum við að vinna í að finna gleðina aftur. Spurningar eins og „af hverju spilar þú golf, hvað færð þú út úr því að spila golf, hvað viltu gera með þinn hæfileika í að spila golf?“ fengu mig til þess að hugsa ferlið upp á nýjan hátt og finna nýjar „gulrætur“ í markmiðasetningu.
Ég spila golf af því að:
- Öll fjölskyldan mín spilar golf
- Mér finnst áskorunin skemmtileg.
- Tilfinningin þegar maður slær gott högg eða spilar góðan hring
Hvað færð þú út úr því að spila golf?
- Tima með fjölskyldunni þegar ég er heima
- Mér finnst gaman að ferðast og sjá nýja staði
- Ég fæ að kynnast nýjum menningarheimum og nýju fólki
- Ég fæ að lifa drauminn minn
Hvað viltu gera með þinn hæfileika í að spila golf?
- Ég vill vera fyrirmynd fyrir yngri krakka og sýna þeim að þetta sé hægt þótt svo við séum „bara“ frá lítilli eyju í Atlantshafi
- Ég vill komast á Ólympíuleikana 2020
- Ég vill fá fleiri stelpur/konur í golf
Með því að svara spurningum eins og þessum sá ég af hverju ég spila golf, af hverju ég geri það sem ég geri og af hverju mér hefur fundist þessi íþrótt svo skemmtileg síðan ég var 13 ára gömul. Ég hafði bara gleymt því í augnablik því að pressan sem ég setti á sjálfa mig hafði yfirtekið ástæðurnar um af hverju ég spilaði golf yfirhöfuð.
Við fundum nýjar „gulrætur“ til að vinna að. Styttri og langtíma markmið sem væri auðveldara að fylgja. Settum upp plan sem ég var ánægð með fyrir árið og sem ég var virkilega sátt með. Partur af því plani var að ég ætlaði ekki í úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina aftur, þó að ég hafi tæknilega séð „misst“ kortið mitt. Topp 70 á Evróputúrnum í fyrra héldu kortinu en ég endaði í 71. sæti. En eftir að Evróputúrinn og LPGA túrinn gerðu með sér samkomulag í nóvember bættust við helling af mótum fyrir þetta ár, meiri peningur, og meiri spilamöguleikar fyrir fleiri leikmenn. Ég sá það að þrátt fyrir að hafa endað í 71. sæti myndi ég komast inn í flest mótin á Evróputúrnum 2020 og vildi því frekar fara til Ástralíu og spila í pro-am mótum (atvinnumaður og áhugamaður spila saman) og undirbúa mig fyrir komandi tímabil. Reyna svo að komast inn í LPGA mótin í Ástralíu því þau gefa meiri stig inn á heimslistann og svo spila á Evróputúrsmótunum í Ástralíu því þó ég kæmist ekki inn í þau í gegnum Evróputúrinn, þá kæmist ég inn í þau í gegnum Ástralska túrinn. (Það kom svo í ljós 31. jan að ég kemst inn í þau í gegnum Evróputúrinn). Þetta voru allt litlar gulrætur sem eru hluti af stóru gulrótinni sem er auðvitað Ólympíuleikarnir í Tokyo 2020.

Árið 2019 var lærdómsríkt en sársaukafullt ár. Það sem ég lærði af árinu 2019 er að það er mikilvægt að taka skref aftur á bak til þess að geta tekið tvö skref áfram. Stundum þarf maður bara að taka skref aftur á bak og minna sig á af hverju maður er að þessu. Ég hef fundið gleðina aftur því mér finnst gaman að vera á golfvellinum núna. Mér hefur alltaf liðið vel í Ástralíu, enda Ástralir yndislegt fólk sem tekur okkur með opnum örmum, og því þótti mér það besta skrefið fyrir mig að byrja tímabilið hér niðurfrá á mínum forsendum.
Þú getur ekki skotið ör fram á við nema að toga hana afturábak fyrst!
Ég held með ykkur.
-Valdís Þóra
IG: @valdisthora