Ég fæ oft spurningar um hvernig lífið á túrnum sé og hvort túrinn hjálpi okkur eitthvað varðandi við að finna húsnæði, flug og þess háttar. Þannig að mig langar til þess að gefa ykkur smá hugmynd um hvernig undirbúningur fyrir ferðalög á mót er og hvernig aðstaðan sem við höfum þegar á mótsstað er komið er.

Túrinn hefur ýmsa staðla þegar það kemur að mótsstað. Völlurinn sjálfur þarf auðvitað að vera góður, æfingasvæðið þarf að vera fullnægjandi og það þarf að vera aðstaða fyrir leikmenn. Á hverjum stað er líka boðið uppá svokallað „official hotel“ en það er hótel sem túrinn hefur valið og fengið tilboð hjá og við getum gist á. Við þurfum hinsvegar að bóka gistinguna sjálfar ef við ákveðum að gista á því hóteli og ef hótelið er í einhverri fjarlægð frá golfvellinum þá er boðið upp á skutlur sem fara á ákveðnum tímum frá hótelinu upp á golfvöll og svo til baka. Við pörum okkur oftast saman tvær og tvær og deilum herbergi enda er það mun ódýrara en að vera í einstaklingsherbergi og gott að hafa félagsskap. Oft á tíðum gistum við þó í Airbnb og kemur það betur út fjárhagslega að deila íbúð og bílaleigubíl heldur en að deila hótelherbergi. Einnig er gott að hafa aðstöðu til að elda sinn eigin mat í stað þess að fara út að borða á hverju kvöldi. Af og til er boðið uppá heimagistingu hjá klúbbmeðlimum. Ástralir standa sig til dæmis mjög vel þegar að kemur að þessu. Þá hefur klúbburinn sem við spilum hjá samband við meðlimi og athugar áhugann hjá þeim fyrir að taka að sér 1-3 kylfinga á meðan mótinu stendur. Við höfum svo samband við klúbbinn og þau finna fyrir okkur gestgjafa á meðan mótinu stendur. Gestgjafarnir bjóða okkur upp á að gista heima hjá þeim endurgjaldslaust og sjá okkur oft fyrir morgunmat og kvöldmat, og stundum skutla þau okkur og sækja líka. Þetta getur verið svolítið happa glappa því stundum fær maður æðislega gestgjafa en ég hef líka lennt í því að þurfa flytja á hótel í miðju móti. Þegar maður hefur upplifað æðislega gestgjafa og kemur ári seinna á sama mót reynir maður oftast að hafa samband við þau sjálf enda byggir maður upp sambönd við fólkið sem maður gistir hjá og líður vel hjá. 

Túrinn hjálpar ekki til með nein flug né er með nein tilboð fyrir okkur á flugum. Það er algjörlega undir okkur komið að finna flug og koma okkur á mótsstað á tilsettum tíma. Oft eru flugvélarnar undirsetnar af leikmönnum ef stutt er á milli móta og þá krossar maður fingur um að golfsettið manns hafi verið eitt af þeim sem sett var um borð. Það er hinsvegar þekkt hjá körlunum að túrinn útvegi leiguvél sem er einungis fyrir leikmennina ef stutt er á milli móta og geta þeir þá keypt sæti í þeirri vél. Þetta þekkist ekki á kvennatúrnum því miður. Ekki enn allavega. Rétt í þessu var ég t.d. að eyða tæpum 3 klst í að finna flug frá Íslandi til Höfðaborgar í Suður Afríku, þaðan til Jeddah í Sádi Arabíu og svo heim til Íslands eftir mótið í Sádi Arabíu. Hljómar einfalt en þegar maður getur ekki flogið frá keppnisstaðnum fyrr en eftir kl 17:30, vill komast a áfangastað á kristilegum tíma, fljúga með flugfélögum sem rukka ekki handlegg og nýra fyrir yfirvigt eða auka tösku, og fá viðráðanleg verð að þá getur þetta verið mikið púsluspil. 

Þegar á mótsstað er komið eigum við rétt á 1-2 æfingahringum endurgjaldslaust en það er oftast á mánudögum og þriðjudögum. Miðvikudagarnir eru undirlagðir fyrir pro-am og eru u.þ.b. 30-60 stelpur sem spila í pro-aminu. Við fáum tölvupóst nokkrum dögum áður þar sem okkur er tilkynnt þá leikmenn sem munu spila í pro-aminu eða séu varamenn. Tímabilinu er skipt upp í fjóra hluta og megum við einu sinni í hverjum hluta biðja um að vera ekki í pro-aminu. Ef við mætum ekki í pro-amið þá fáum við 300 evru sekt. Karlarnir á Evróputúrnum/PGA túrnum fá hinsvegar borgað fyrir að spila í pro-aminu. 

Alla æfinga- og keppnisdagana er boðið upp á morgunverð og hádegisverð. Morgunverðurinn er oftast egg og meðlæti með því, jógúrt og morgunkorn, og brauð til að rista og álegg. Hádegisverðurinn er oftast pasta, eitthvað kjötmeti og fiskur, salat og brauð. Yfir höfuð er maturinn girnilegur og bragðgóður en það kemur líka fyrir að maður lifi á spaghettí með tómatsósu og salti því annað sem er í boði er ekki gott. Matsalurinn er alltaf opinn en matur í boði á ákveðnum tímum. Morgunmatur oftast frá 6-10 og hádegismatur frá 11-15.

Fyrir klukkan 18:00 á þriðjudögum þurfum við að fara á skrifstofu túrsins á mótsstað og staðfesta þátttöku okkar í mótinu sem hefst yfirleitt á fimmtudegi. Ef við erum ekki komnar á mótsstað í eigin persónu þá getum við staðfest þátttökuna í gegnum tölvupóst. Ef við staðfestum hins vegar ekki þátttökuna fyrir tilsettan tíma þá fáum við frávísun og varamaður er settur inn í staðinn. Mótsstjórnin er hins vegar mjög góð með að hafa samband við mann ef maður er að renna út á tíma og minna á að staðfesta þátttökuna vitandi að við erum á staðnum.

Á hverju móti er sjúkraþjálfari og oftast nuddari líka. Við þurfum að sjá sjálfar um að panta tíma hjá þeim og borgum 35 evrur fyrir 30 mín hjá sjúkraþjálfara og 25 evrur fyrir 30 mín hjá nuddara. Oft dragast tímarnir aðeins á langinn og er sjúkraþjálfarinn þá á eftir tímaáætlun sem getur farið illa með mann því maður planar auðvitað alla sína upphitun og þess háttar í kringum sjúkraþjálfunina ef maður þarf á henni að halda. Á karlatúrnum og LPGA borga styrktaraðilarnir fyrir sjúkraþjálfarana og er því þessi þjónusta þeim gjaldfrí. 

Einnig er læknir og sjúkrabíll oftast til staðar ef eitthvað alvarlegra kemur uppá eða ef kylfingar verða veikir og þurfa á meiri skoðun að halda en frá sjúkraþjálfaranum. 

Æfingasvæðið opnar 1 klst fyrir fyrsta rástíma og lokar um það bil 1 klst eftir að síðustu leikmenn klára hringinn. Á sunnudögum lokar æfingasvæðið þegar síðasti ráshópur hefur leik. Púttflötin og vippsvæðið eru hinsvegar opin allan daginn. 

Það er því auðvitað undir okkur komið að skipuleggja öll okkar ferðalög sjálfar og vera ábyrgar fyrir að staðfesta þátttöku í mótinu þegar á mótsstað er komið sem og að nýta okkur þá þjónustu í boði. Túrinn hjálpar með allar þær spurningar sem við höfum og gerir það besta í að hjálpa okkur eins og þeir geta.

Bestu kveðjur
Valdís Þóra 
ig: @valdisthora

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :