Hvað hugsar þú dagana/klukkutímana/mínúturnar fyrir keppni?
Persónulega verð ég spennt fyrir keppni dagana fyrir, en á keppnisdegi líður mér stundum eins og ég þurfi að æla úr stressi. Ég á það til að fara fram og til baka í hausnum með öll heimsins “hvað ef” senaríó og þarf stanslaust að minna mig á að vera í núinu.
Á þessu ári hef ég mikið unnið í andlega þættinum og þar á meðal keppnisstressi. Ég skrifaði niður nokkur atriði sem hafa hjálpað mér og mig langar til að deila þeim með ykkur.
1. Afhverju ertu að keppa?
Þegar ég fer að detta í hugsanir eins og “ég vildi ég væri ekki hérna heldur að slaka á heima” eða “afhverju er ég að gera mér þetta”, þá minni ég mig á afhverju ég valdi að keppa í fyrsta lagi. Fyrir mig þá er það vegna þess að mig langar til þess að vera góð íþróttakona, besta útgáfan af sjálfri mér í minni íþrótt og fyrirmynd fyrir yngri stelpur sem vonandi munu koma á eftir mér og verða enn betri. Ég reyni að samþykkja að til þess að ná þessu fram þarf ég að sætta mig við að þetta verður mjög erfitt en það er allt þess virði ef maður verður aðeins betri eftir á. Reyndu að finna þitt “WHY”, skrifa það niður og minna þig á það. Við erum heppin að hafa sterka líkama og það að keppa er frábært tækifæri til þess að vera betri en maður var í gær. Plús þá er ótrúlega gaman að keppa þegar keppnin byrjar og adrenalínið fer af stað.
2. Preparation prevents piss performance
Ég heyrði þetta “quote” hjá einum af þjálfurunum í þríþrautinni og fannst það auðvelt að muna sem P-4, en það þýðist sem “góður undirbúningur kemur í veg fyrir slæman árangur”. Fyrir keppnir reyni ég að undirbúa mig fyrir það sem brautin krefst af mér hverju sinni. Í næstu keppni hjá mér er hjólaleiðin til dæmis mjög hæðótt með nokkrum bröttum brekkum í hverjum hring. Vikurnar fyrir myndi ég þá gera flestar interval-æfingarnar mínar í brekkum til þess að undirbúa mig. Ég reyni líka að skoða brautina vel fyrir keppnina þannig ég viti hvað ég er að fara út í, en brautirnar í þríþraut eru síbreytilegar. Það róar mig og ég veit að ég hef gert mitt besta til þess að undirbúa mig eins vel og hægt er. Það er í raun ekki hægt að biðja um meira af sjálfum sér og sama í hvaða sæti ég lendi get ég verið sátt með minn árangur þar sem ég gerði mitt besta. Ég mæli með því að skoða keppnisbrautina, hvort sem það er í alvörunni eða á netinu (google maps for the win)!
3. Hvað lætur þér líða vel?
Kvöldin fyrir keppni reyni ég að gera eitthvað sem lætur mér líða vel. Mitt go-to er að kveikja á ilmkertum (já ég ferðast með þau!), horfa á fyndna mynd og hlægja, gera yoga og naglalakka mig. Það er auðvitað hægt að gera margt annað dagana fyrir keppni sem hjálpar til með slökun og eykur vellíðan, þetta er auðvitað persónubundið. Best er að prufa allskonar hluti og finna hvað hentar best.
4. Tala við einhvern
Ég tala mest við sálfræðinginn minn dagana fyrir keppni. Hún þekkir mig mjög vel og hjálpar mér að minna mig á hvað er raunverulega mikilvægt, hvað við ætlum að einbeita okkur að í keppninni og undirstrika við mig að úrslit skipta ekki máli heldur effort. Hvort sem það er sálfræðingur, maki, vinur/vinkonur, þjálfari, kunningi eða einhver sem þið lítið upp til þá hjálpar alltaf að tala við annað fólk sem styður við mann og vill manni allt það besta. Það þarf mikið hugrekki að standa á startlínu og ég vona að þið vitið hversu flott það er hjá ykkur að mæta til þess að gera ykkar besta og hafa gaman! Það er það sem þetta íþróttalíf snýst um!!
5. BROSA
Þetta er uppáhaldið mitt; BROSA. Þetta er bara þríþraut/hjóla/hlaup/sund/hvaða-íþrótt-sem-er. Sem betur fer mun heimurinn ekki enda sama hvernig keppnin fer og það sem er mikilvægt í lífinu fær maður ekki á startlínunni í keppni heldur liggur það hjá fólkinu sem styður við bakið á okkur og elskar okkur sama hvað. Ég mana ykkur öll að brosa næst þegar þið standið á startlínu. Brosið til áhorfenda, keppinauta og sjálfboðaliða. Það kemur ykkur á óvart hversu margir brosa til baka. Sálfræðingurinn minn sagði mér að það sé vísindalega sannað að bros minnki stress, þrátt fyrir að það sé þvingað fram og ég lofa að það virkar!
Gangi ykkur öllum vel í næstu keppni og vonandi getur einhver ykkur nýtt eitthvað af þessum fimm atriðum.
Guðlaug Edda
IG: @eddahannesd