Var étin upp af malbiki

Slysið

Í júní í fyrra lenti ég í slysi í keppni. Það var stelpa í hjólahópnum mínum sem datt af hjólinu og tvær aðrar duttu á hana. Ég var fyrir aftan þær og þurfti að nauðhemla til þess að hjóla ekki yfir þær sem voru nú þegar á jörðinni. Við það kastaðist ég af hjólinu, fór í hring í loftinu og lenti aftan á hnakkanum á malbikinu. Hjálmurinn mölbrotnaði en ég skall mjög fast í jörðina með höfuðið.

Næsta sem ég man er að ég ranka við mér á jörðinni með hrikalegan hausverk og alveg í ruglinu. Mér var komið undir læknishendur og var greind með heilahristing. Þegar þetta gerðist var ég nýbyrjuð að safna inn stigum á stigalistann fyrir Ólympíuleikana í Tokyo og mig langaði ekki til þess að þurfa að taka mánuði í að jafna mig og missa af mikilvægum stigum. Ekki að maður geti stjórnað því, en ég var svo ákveðin að ná mér sem fyrst til þess að geta haldið áfram að keppa að ég var byrjuð að æfa tæpum tveimur vikum síðar og keppti þremur vikum eftir slysið. Þetta eru ein stærstu mistök sem ég hef gert á mínum íþróttaferli. Ég virti ekki hausinn minn, líkamann minn né alvarleika meiðslanna. 

Myndir teknar í kjölfar slyssins. Á myndinni getið þið séð mig halda fyrir hausinn þar sem höfuðið skall í jörðina.
Ég man lítið eftir því þegar myndirnar voru teknar.
Á myndinni sést hluti af brotum sem urðu á hjálminum mínum.

Að kunna ekki að stoppa

Eftir á að hyggja var þessi ákvörðun sem ég og þjálfarinn minn tókum um að byrja strax á æfingum og keppnum mjög heimskuleg. Réttast hefði verið að taka allt upp í mánuð í hvíld frá æfingum en byrja síðan að byggja aftur upp og vona að ég gæti fengið tækifæri til þess að keppa aftur seinni hluta keppnistímabilsins. En svo fór sem fór, ég keppti mjög stuttu eftir heilahristinginn. Þrátt fyrir að mér hafi gengið ágætlega í keppnum þá fann ég samt að ekki var allt í lagi. Hegðun mín fór að breytast og andlegri heilsu fór hrakandi. Ég fór að vera stressuð og kvíða mjög léttum æfingum, gat ekki slakað á hvað sem ég reyndi. Og eftir hverja einustu erfiðu æfingu eða keppni fannst mér eins og líkaminn minn væri hægt og rólega að brotna niður. En samt stoppaði ég ekki. Hvatinn til þess að halda áfram keppnum til þess að sækja ólympíustig var meiri en að hlusta almennilega á það sem líkaminn var að segja mér. Þess vegna langar mig að miðla þessari reynslu, í von um að einhver annar geti lært af þeim mistökum sem ég gerði.

Ég þurfti m.a. að klæðast sólgleraugum allan daginn í nokkrar vikur útaf því ég þoldi ekki ljós.

Langtíma afleiðingar heilahristings

Frá júní til september 2018 (tók offseason í enda september) fékk ég 5 sýkingar (þvagfærasýkingu, ennis- og kinnholubólgur, sýkingu í meltingarvegi og blöðruhálsbólgu) og í öllum tilvikum þurfti ég 4-7 daga sýklalyfjaskammt til þess að losna við sýkinguna. Flestar sýkingarnar komu rúmlega viku fyrir keppni og ég var því að keppa á sýklalyfjum með nú þegar uppgefinn líkama og haus. Þetta var mjög heimskulegt af mér, og augljós merki um að eitthvað væri ekki í lagi. Síðan kom blóð í hægðum (einnig alltaf stuttu fyrir eða eftir keppni) sem olli mér áhyggjum. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki lent í áður og var mjög kvíðavaldandi að sjá blóð út um allt. Ég endaði á því að fara í tvær ristilspeglanir til þess að fá úr því skorið hvað væri að. Það var mjög skýr tenging á milli heilahristingsins og blóðsins. Líkaminn var ekki búinn að ná sér og var að reyna að gefa mér merki um að stoppa. En ég vildi ekki hlusta. Ég reyndi að leysa úr þessu með því að fara yfir allt matarræðið mitt og það hjálpaði aðeins en blóðið hélt samt áfram að koma. Það er alveg á hreinu að gífurlegt álag, stress og pressa á sjálfa mig í kjölfar heilahristingsins ýtti undir þessi blóðeinkenni.

Hver eru helstu einkenni í kjölfar heilahristings? Athugið að þessi einkenni geta komið fram dögum, vikum, mánuðum eða jafnvel árum eftir slys.

Svefninn – dropinn sem fyllti mælinn

Dropinn sem fyllti mælinn kom síðan í vikunni fyrir síðustu keppnina mína sem haldin var í Kína. Ég hætti að geta sofið. Ég svaf sirka 2-4 klukkutíma síðustu dagana fyrir keppni og ekkert nóttina fyrir. Ég átti gott sund, fínt hjól, en leið næstum út af á hlaupinu. Líkamlega og andlega átti ég ekkert meira að gefa, ég var svo uppgefin. Ég get eiginlega ekki lýst þessari upplifun, lýsingarorð eins og bugun og uppgefin ná ekki alveg yfir allar þær tilfinningar sem ég upplifði eftir keppnina. Planið var að taka nokkrar aðrar keppnir áður en ég myndi ljúka keppnistímabilinu. Það gekk augljóslega ekki eftir og ég endaði á því að missa Ólympíustig á því að halda svona áfram með skaddaðan líkama. Ég fann á mér að þetta var eitthvað annað en “jetlag”, ég hef oft verið “jetlagged” en þessi svefnvöntun var öðruvísi. Ég gat ekki sofið þrátt fyrir að vera algjörlega uppgefin. Mér leið eins og heilinn væri stjórnlaus og ofhlaðinn, ég var ekki með neinn stopptakka lengur.

Þegar ég kom aftur heim til Danmerkur hélt svefnmynstrið áfram, ég gat ekki sofið. Bara alls ekki. Svona hélt þetta áfram í heilar 6 vikur. Ég hafði gengið of langt og heilanum mínum misbauð. Því fór að hann refsaði mér með því að neita að slökkva á sér. Það er skrítið að geta ekki sofið. Að liggja upp í rúmi í 8 klukkustundir, algjörlega uppgefin á líkama og sál, en samt að koma ekki dúr á auga. Þetta ástand olli mér, og veldur enn, miklu hugarrangri. Ég leitaði svara, fékk margar neitanir og neikvæðar rannsóknir sem sendu mig aftur á byrjunarreit. Augljóslega gengu æfingar ekki vel, ég var svo þreytt að ég gat ekkert æft að viti en samt gat ég ekki sofið.

Svona leið mér allar nætur í tæpa tvo mánuði.

Lærdómur

6 vikum seinna komst ég í kynni við konu sem er sérfræðimenntuð í afleiðingum heilahristings og heilaskaða kvenna í afreksíþróttum. Hún er klínískur íþróttasálfræðingur og sjálf fyrrum íþróttakona. Ég gat ekki verið í betri höndum. Það er víst svo að heilahristingur getur valdið allskyns vandamálum hjá einstaklingum upp að tveimur árum eftir slys. Afleiðingarnar koma oft ekki í ljós fyrir að minnsta kosti einhverjum mánuðum seinna. Mín reynsla benti til þess að ég sé ein af þeim sem fékk einkenni nokkrum mánuðum eftir heilahristing. Það hefur hjálpað mér mikið að vinna með henni. Hún hjálpaði mér í að vinna í gegnum einkennin, fá viðeigandi lyf til þess að aðstoða við batann og hefur staðið við hlið mér síðan þá. Það tók nokkrar vikur, mikla hvíld og sjálfsvinnu að koma svefninum aftur í rétt horf. Það var mikið grátið og ég var oft nálægt því að gefast upp en ég er svo fegin að ég gerði það ekki. Það tókst en tók langan tíma. 

Ég hef heldur betur þurft að breyta mörgum hlutum í tengslum við svefn eftir þessa reynslu og nota núna ýmis tæki og tækni til þess að vernda heilann minn fyrir óþarfa áreiti og ofhleðslu. Þar á meðal er yin yoga, hugleiðslu- og slökunaraðferðir, takmörkun á tíma í tækjum með bláum ljósum, koma mér upp svefnrútínu og virða hvíld í æfingarblokkum. Fyrir þessa reynslu hafði ég ekki áttað mig á því hversu mikil áhrif svefn getur haft á andlega og líkamlega heilsu. Ég tek svefni aldrei aftur sem sjálfsögðum hlut. 

Ég vil líka hvetja alla þá sem lenda í því að verða fyrir heilahristing að fara VARLEGA í nokkrar vikur eftir á. Það er ekki kúl að þykjast vera sterkur og byrja of snemma eftir að heilinn hefur orðið fyrir svo miklu áfalli og skaða. Heilinn er undirstaða alls þess sem við gerum í íþróttum og það er nauðsynlegt að hugsa vel um hann. Ég efaðist lengi um það hvort mér myndi einhverntímann líða vel aftur og hvort ég myndi geta brosað aftur eins og ég gerði áður. En eins og með allt í lífinu þá förum við í stanslausa hringi og í dag, rúmu ári eftir að svefninn lagaðist aftur, líður mér vel, get æft vel og er mjög spennt fyrir æfingum aftur. Ég er mjög þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég hef í kringum mig, sem stóðu eins og klettar mér við hlið þegar allt gekk yfir og mér leið ekki vel. Það getur verið auðvelt að gleyma hversu frábært fólk maður hefur í sínu lífi, það er gott að minna sig reglulega á það.

Hvernig greinum við heilahristing? Atriði sem gott er að hafa í huga ef þú færð heilahristing eða þekkir einhvern sem gæti hafa fengið heilahristing.

Vona innilega að þessi frásögn geti hjálpað þeim sem þurfa á því að halda.

Guðlaug Edda
IG: @eddahannesd