Þekkirðu einhvern sem hefur hætt í sinni íþrótt og byrjað aftur oftar en einu sinni … Ég hef hætt í sundi, ekki bara einu sinni heldur tvisvar sinnum og í bæði skiptin snerti ég varla sundlaug í 10 mánuði.

Frá Arizona til Hafnafjarðar

Arizone var heimili mitt í nokkur ár, en ég fór út á skólastyrk til Bandaríkjanna sem ég mæli með. Ég kláraði viðskiptafræði í Arizona State University 2017,en ég byrjaði strax í master í Stjórnun og stefnumótun í HÍ þegar ég kom heim.

Úskriftarmynd við bakkann

Það voru mikil viðbrigði að flytja heim og búa aftur heima hjá mömmu og pabba. Fyrsta daginn vaknaði ég við að mamma var búin að gera hafragraut handa mér, en það fór í taugarnar á mér, fannst ég þurfa að borða hann, þótt ég vissi að þetta var gert af góðmennsku. Ég hafði búið með vinum mínum og séð um mig sjálfa í 4 ár og var nú komin aftur heim til mömmu og pabba. Ekki nóg með það, þá hafði ég ekki unnið í 4 ár og þegar ég ætlaði á þrekæfingu þá þurfti ég að biðja mömmu og pabba að borga áskriftina í líkamsræktarstöðinni. Þarna var ég 24 ára gömul og fjárhagslega háð foreldrum mínum sem var mikið áfall.

Sundæfingarnar voru líka aðeins öðruvísi en ég hafði vanist, en það var gaman að synda með vinum mínum. Þegar þau voru búin átti ég að gera auka, 6x100m þar sem ég var vön að synda meira í Arizona og þjálfarinn vildi að ég myndi halda því áfram. Vinir mínir fóru í pottinn á meðan ég kláraði settið ein. Fannst það ekki gaman og var ekki tilbúin að þurfa að synda ein með engan félagsskap.

Sundæfing í Arizona.

Fljótlega fann ég, að þetta var ekki eins gaman og í Arizona. Þar var sól alla daga, synti í útilaug og bjó með bestu vinum mínum. Þorði lítið að tala um þetta hér heima, því ég vildi ekki hafa neikvæð áhrif á vini mína. 

Vinkonur á bakkanum

Í ágúst sátum við Hrafnhildi Lúthers á sundlaugarbakkanum, og við vorum að upplifa það sama, neistinn að slökkna. Það var gott að vera ekki ein að upplifa þessar tilfiningar. Við sátum grátandi á sundlaugarbakkanum þegar Klaus þjálfari kom og spurði hvort við ætluðum ekki að synda. Vinkona okkar átti afmæli og var með matarboð sem við ætluðum að mæta seint í. Við útskýrðum fyrir honum gróflega hvað væri í gangi og sögðum að við ætluðum að mæta í afmæli bestu vinkonu okkar í fyrsta skipti á réttum tíma og að við myndum tala saman á morgun. 

Vinkonur við sundlaugarbakkann

Daginn eftir gerðum við plan með Klaus þjálfara fram að Evrópumeistaramótinu sem var á næstunni, en ætluðum að breyta aðeins æfingunum. Við syntum 1x á dag og höfðum æfingarnar styttri og skemmtilegri til að reyna að halda okkur við efnið. Það komu dagar þar sem við vildum ekki synda sem var eitthvað sem við höfðum hvorugar upplifað áður. Ég hafði ákveðið að hætta eftir EM en þorði ekki að segja það upphátt. Fannst ég smá vera að gefast upp.

Hætt eftir EM

Eftir EM vorum við hættar. Mættum ekki á æfingu og byrjuðum að lyfta saman til að halda okkur í formi. Héldum þakkargjörðarhátíð þar sem við buðum okkar nánasta fólki til að þakka fyrir stuðninginn sem við fengum í gegnum ferilinn okkar. 

Sundbolirnir hengdir upp.

Þetta var erfitt og ég var ekki tilbúin að hætta en var búin að taka ákvörðun og fannst smá eins og að það mætti ekki hætt við. Bannaði sjálfri mér að fara í sundlaugina í langan tíma til að byrja ekki óvart að synda aftur. Var ennþá á fullu í mastersnámi og reyndi að gera mig upptekna svo ég gæti ekki farið að synda.

Áskorun í afmæli 

Rúmum 10 mánuðum síðar bauð ég vinum mínum í afmælis súpu og strákarnir skoruðu á mig að mæta á æfingu uppá gamanið. Ég mætti og við syntum nokkra spretti. Ég fann allt í einu að ég var hröð! 

Þjálfaranum mínum brá og mér einnig, ég mætti daginn eftir líka því þetta var gaman, öðruvísi tilfinning að synda. Klaus spurði mig hvort ég vildi ekki keppa á Íslandsmeistaramótinu sem var eftir 11 daga. Ég þurfti ekki að hugsa mig um því þetta var svo gaman og ég sagði strax já! 

Íslandsmeistaramótið gekk vel, ég komst óvænt inn á Heimsmeistaramótið! Þetta var besta helgi sem ég hafði upplifað lengi! Ég átti samt erfitt með að ákveða hvort ég myndi fara á HM eða ekki. Ég var búin að segja að ég væri hætt að keppa á alþjóðlegum mótum. Innst inni langaði mig svooo mikið að fara. 

MBL – Fer á HM eftir áskorun í afmæli

(Þegar ég er að skrifa þetta núna skil ég ekki alveg af hverju ég þurfti að hugsa þetta því ég sé svo mikið núna hvað ég var að halda aftur af mér). En það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á eins og Ásdís sagði svo skemmtilega frá um daginn: Ásdís – hvað myndi ég segja við mig sem 16 ára.

Eins og það sé einhver spurning hvort ég fari á Heimsmeistaramót eða ekki? Auðvitað fór ég og þetta var eitt skemmtilegasta mót sem ég hef farið á. Ég synti hratt og hópurinn sem fór var upp á 10!

Eftir Heimsmeistarmótið fór sundi aftur á hilluna þótt ég hélt áfram að hreyfa mig. Ég synti samt stundum bara upp á ánægjuna og keppti á nokkrum mótum bara til að hafa gaman.

Það var mikið að gera hjá mér, klára meistararitgerðina mína, vann sem forfallakennari og í kjölfarið varð ég umsjónakennari í 9. bekk, keypti mér íbúð, æfði í Mjölni, vann sem flugfreyja og naut lífsins án sundsins.

Anton ýtti mér aftur í laugina

Þegar Íslandsmótið 2019 nálgaðist var ég spurð hvort ég ætlaði ekki aftur að keppa, ég svaraði alltaf loðið því ég var ekki viss hvað mig langaði að gera. Eitt kvöldið spjölluðum við Anton saman á facetima og í kjölfarið ákvað ég að keppa.

Mér finnst gaman að synda og á maður ekki að gera það sem manni finnst skemmtilegt? Ég ákvað því að keppa aftur á Íslandsmótinu, en munurinn á þessari og endurkomu var sú að ég væri ekki bara að fara að keppa, heldur að ég ætlaði á Evrópumeistaramótið, ég var allt í einu komin með markmið.

MBL – Erfitt að sleppa takinu á sundinu

Ég ætla að fara á Ólympíuleikana

Það að taka þá ákvörðun að halda áfram var ekki erfið. Ég vissi strax að ef ég myndi ekki reyna núna þá myndi ég alltaf sjá eftir því. Ég hef aldrei áður á mínum ferli getað sagt það upphátt að ég sé að stefna á Ólympíuleikana. Ég trúði því aldrei að ég gæti gert það. Það er önnur saga núna. Ég virkilega trúi því að ég geti náð A lágmarki í 50m skriðsundi. Hvað gerist eftir Tokyo veit ég ekki en ætli það þurfi ekki að fá að koma í ljós.

Endilega sendið á mig ef þið hafið spurningar eða þekkið einhvern sem er í sömu stöðu og ég var í, kannski get ég aðstoðað.

Gangi þér vel
Ingibjörg Kristín
@ingibjorgkj

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :