Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftirá. Hver þekkir það ekki?

Nú er ég að nálgast endinn á mínum ferli sem gefur mér þetta líka frábæra tækifæri til þess að líta til baka á allt sem ég hef lært á leiðinni. Ég er langt frá því að vera sama manneskjan og ég var og það er ekki bara vegna þess að tíminn hefur liðið. Allt sem ég hef gengið í gegnum á mínum íþróttaferli hefur mótað mig sem manneskju. 

Margt þurfum við að læra af reynslunni en oft getum við lært helling af reynslu annarra. Þess vegna langar mig til þess að deila stærstu lærdómunum á mínum ferli með ungum íþróttamönnum sem eru að byrja sinn.

Njóttu ferlisins

Það er næstum því orðin klysja að lífið snúist um leiðina en ekki áfangastaðinn. Ég er nú samt búin að komast að því að þetta er bara grjótharður sannleikurinn. Íþróttirnar eru svo miklu meira en bara keppnin, þær eru lífstíllinn. Þú þarft að geta notið allra hliða af honum, hver einasta æfing, ísböðin, nuddin, mataræðið, allt saman. Þetta verður aldrei þess virði ef þú getur ekki notið þess sem þú ert að gera núna. Ekki bara einblína á þetta eina mót eftir níu mánuði sem tekur bara klukkutíma og svo er það búið. Það er ekki nóg!

Ekki hafa áhyggjur af væntingum annarra

Fyrst og síðast þá erum við í íþróttum vegna þess að við höfum gaman af þeim. Við byrjum öll þannig en svo er auðvelt að gleyma sér í væntingum og pressu sem fylgja auknum árangri. Ekki gleyma að þú ert að gera þetta fyrir þig af því að það er það skemmtilegasta sem þú gerir. Aðrir munu hafa skoðanir á öllu sem þú gerir og hvernig þú stendur þig. Það er auðvelt að hafa skoðanir, það er þægilegt að dæma aðra, maður þarf ekki að hafa gert neitt sjálfur til þess að finnast einhver annar vera að gera vitlaust. Leyfðu þeim að hafa sínar skoðanir en ekki láta þær hafa áhrif á þig.

Það er jafn mikilvægt að æfa hugann og að æfa líkamann

Hugarþjálfun er líkleg einn vanmetnasti hluti af íþróttaþjálfun. Alveg eins og við þurfum yfirleitt að þjálfa hendur og fætur þá þurfum við að þjálfa bæði líkama og huga. Þetta gerum við með sjónmyndaþjálfun og að vinna í hugarfari. Við getum ekki stjórnað öllu sem gerist en við getum alltaf stjórnað því hvernig við bregðumst við því. Það getur verið munurinn á því að ná því út úr líkamanum sem við getum, eða að gera það ekki.

Meira er ekki alltaf betra

Ég er ein af þeim íþróttamönnum sem hefur aldrei þurft að ýta áfram. Eldurinn í brjóstinu á mér sá algjörlega um það og erfiðasta hlutverk minna þjálfara hefur alltaf verið að halda aftur af mér. Fyrir íþróttamenn eins og mig er máltækið “Aukaæfingin skapar meistarann” stórhættuleg. Meira er nefnilega alls ekki alltaf betra þegar kemur að æfingamagni. Það eru heldur engar medalíur fyrir að æfa mest. Þetta snýst um hvað við gerum, ekki hversu mikið.

Láttu líkamann njóta vafans

Það er gríðarlega mikilvægt að hlusta vandlega á merkin sem líkaminn sendir okkur. Þegar við finnum fyrir óþægindum þá er hann oftast að reyna að segja okkur að við séum að fara yfir strikið. Þá er miklu betra að sleppa síðasta settinu eða síðustu æfingunni frekar en að meiðast og missa úr nokkra daga eða jafnvel meira.

Hafðu gaman

Þegar við förum að ná auknum árangri í íþróttinni þá færist oft alvara í leikinn. Við gleymum oft af hverju við erum að þessu til að byrja með. Aldrei taka þessu svo alvarlega að þú gleymir að hafa gaman. Alveg sama hversu marga styrktaraðila þú færð, hversu margir eru að fylgjast með þér, hvaða væntingar þú ert með á bakinu eða hvernig gengur. Ef þú hefur gaman þá verður þetta alltaf þess virði fyrir þig. Það er líka þá sem árangurinn kemur. 

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :