Það er gott og göfugt markmið að elda og baka sem mest frá grunni heima. Þá má líka reikna með að fólk verði sérstaklega duglegt við það næstu misserin vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi núna vegna COVID-19. Það er því einmitt tilvalið að sjá tækifærin í þessu öllu og prófa nýjar og spennandi uppskriftir í eldhúsinu.
Að þessu sinni langar mig að deila með ykkur uppskrift að mjög einföldum brauðbollum eða breiðlokum eins og ég kýs að kalla þær. Breiðlokurnar eru lygilega fljótlegar í bakstri, trefjaríkar en samt léttar í maga og frábært að smyrja þær með góðu áleggi og taka með í nesti í vinnu/skóla/útivistina eða bara njóta þeirra heima með fjölskyldunni. Ég má líka til með að mæla með avókadó-eggjasalati sem áleggi á breiðlokurnar og annað brauðmeti. Fleiri góðar uppskriftir má svo finna á heimasíðu Sportbita og á næstu vikum mun bætast frekar í það safn svo endilega fylgist með.
Breiðlokurnar
3 dl fínt spelt eða hveiti
1 dl haframjöl
2 dl hveitikím (e. wheat germ)
2 msk hörfræ
2 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk hunang
Salt á hnífsoddi
1 1/2 – 2 dl vatn
Mjólk til penslunar og sesamfræ til að strá yfir (ef vill)
Aðferð
1) Hrærið allt vel saman og mótið 3-4 (frekar flatar) bollur/brauð
2) Penslið létt með mjólk, stráið fræjum yfir og bakið við 250°C í 5 til 7 mínútur (fylgist endilega vel með bollunum) eða þar til þær eru orðnar fallega gylltar
Avókadó-eggjasalat

1 vel þroskað avókadó
1 harðsoðið egg
1 nett lúka ferskt spínat
2 msk grísk jógúrt eða kotasæla
Smá sprauta sítrónusafi
Smá salt, pipar og cumin duft
Aðferð
Skerið avókadó og egg smátt og hrærið saman við restina af uppskriftinni með skeið
Verði ykkur að góðu!

Birna Varðardóttir
BSc næringarfræði
MSc þjálffræðivísindi/íþróttanæringarfræði
www.sportbitar.com
FB: @sportbitar
IG: @sportbitarnir