Skipulag vegna sunds, skóla og einkalífs

Ég fæ oft spurninguna: hvernig hefur þú tíma fyrir allt sem ég geri? En þar sem ég er í fullu háskólanámi, að æfa um 8-9 sinnum í viku og í auka vinnu þá hef ég lært að ég þarf að vera mjög skipulögð. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að geta eytt tíma með vinum og kærasta svo að ég þarf að skipuleggja tímann vel svo ég hafi frítíma fyrir einkalífið.

Rútínan

Ég hef komist að því að ég elska rútínu og hún skiptir mig mestu máli þegar kemur að því að koma hlutum í verk og einnig bara fyrir andlega heilsu. Ég kláraði mentaskólann vorið 2015 og prófaði svo að vera bara í sundi í þrjú ár en ég fann að það hafði ekki góð áhrif á andlega heilsu mína og ég átti erfiðara með að koma venjulegum hlutum í verk þegar ég hafði of mikinn frítíma. Haustið 2018 hóf ég svo nám í sálfræði en til að byrja með var mjög erfitt að venja sig af því að geta gert það sem ég vildi allan daginn og með tímanum lærði ég hvernig er best að skipuleggja tímann þannig að ég næ að klára það sem tengist skóla og hafi samt auka tíma fyrir einkalífið. 

Skipulag

Ég hef prófað margt þegar kemur að því hvernig ég á að skipuleggja mig, ég hef til dæmis skrifað niður skipulag fyrir hverja viku fyrir sig alltaf á sunnudögum og reynt að plana allt. En ég hef fundið það að ef ég of-skipulegg mig líka og hef svo ekki tíma fyrir allt sem ég skipulegg þá fer ég að svekkja mig yfir því sem ég næ ekki að gera. Þannig ég fann að það sem virkar best fyrir mig er að hafa bara fast plan fyrir allar vikurnar, hvað ég geri á hverjum degi þannig að allt sem bætist við þarf ég að púsla því inn í kringum þessa föstu hluti. Stundataflan mín er alltaf sú sama viku eftir viku og svo finnst mér best að vera upp í skóla eftir að tímarnir klára og læra eða gera það sem ég þarf að vinna í fram að æfingum sem byrja yfirleitt alltaf klukkan 16:00 á daginn. Ef ég fer eftir þessu þá næ ég yfirleitt alltaf að klára alla heimavinnu fyrir æfingu sem gefur mér tíma eftir æfingar til að gera þá hluti sem ég hef áhuga á, eins og að hanga með vinum eða horfa á bíómyndir eða þvíumlíkt.

Helgarnar hjá mér eru yfirleitt aldrei mjög planaðar. Ég fer á æfingu á laugardegi en eftir hana þá hef ég restina af helginni viljandi ó-planaða vegna þess að ég nýt þess líka að “þurfa” ekki að gera neitt sérstakt og bara fylgja flæðinu. En oft þarf ég líka að læra um helgar svo að ég eyði oft einhverjum tíma í skólanum um helgar sem mér finnst samt mjög skemmtilegt í réttum félagsskap 🙂

Ef það er eitthvað sem ég hef lært í gegnum tíðina þá er það að ég þarf að hafa fasta rútínu sem kemur mér út úr húsi á hverjum degi sem mér finnst spennandi en það hefur bara jákvæð áhrif á æfingar og árangur hjá mér. Ég hef glímt við andlega erfiðleika í gegnum tíðina en stór partur af því var vegna þess að ég hafði ekkert að gera utan sundsins og endaði á því að eyða miklum tíma á sófanum sem kom meira niður á heilsunni minni..

Svo finnst mér líka mjög gaman að prófa sig áfram með skipulag og finna hvað hentar hverjum og einum best. Það sem hentar fyrir mig er kannski ekki fyrir alla en ég mæli með því að allir hafi einhverskonar skipulag fyrir vikuna. 

Hvað gerið þið til að skipuleggja ykkur og púsla öllu saman? Væri gaman að heyra frá ykkur.

Gangi ykkur vel
Eygló Ósk
@eyglo95