Ég heyrði fyrst af því á nýliðakynningu Evróputúrsins að íþróttamenn sem einungis hafa stundað sína íþrótt og ekki menntað sig samhliða, eða áður en þeir fóru í atvinnumennsku, upplifi ákveðna tómleikatilfinningu og tilfinningu fyrir að vera týndur þegar ferlinum lyki. Ferlinum mun ljúka á einhverjum tímapunkti. Við vitum aldrei hvað gerist, hvaða meiðslum við gætum lent í eða hvort við veljum bara að nú sé kominn tími til að prófa eitthvað annað. En þegar að svona tímamótum kemur er gott að hafa eitthvað til að hverfa að; einhverja menntun eða eitthvað sambærilegt sem við gætum hugsað okkur að vinna við þegar af því kemur.

Atvinnumennska í íþróttum krefst mikillar vinnu. Það eru þúsundir klukkustunda sem liggja af baki hverju móti sem að áhorfandinn heima hefur ekki séð heldur sér aðeins lokaútkomuna í hvert skipti. Ólíkt því sem margir halda þá eigum við frítíma líka. Frítíma á milli æfinga, á ferðalögunum, á kvöldin eða á morgnanna sem við vitum oft varla hvað við eigum að nota í.

Árið 2013 útskrifaðist ég með BS í innanhússhönnun frá Texas State University og fór svo beint í að vinna að því af fullum krafti að verða atvinnukylfingur. Það komst ekkert annað að hjá mér en mín íþrótt og í fyrstu þótti mér afskaplega þægilegt að horfa bara á bíómyndir eða lesa bækur í frítímanum mínum eða á ferðalögunum. En eftir að hafa klárað nánast allt á Netflix og gengið vel á hillurnar á Bókasafni Akraness árið 2017 þá fór ég að hugsa um hvort ég gæti ekki nýtt þennan frítíma í eitthvað nytsamara? Gæti ég ekki lært eitthvað samhliða því að vera atvinnukylfingur? 

Eftir nokkra rannsóknarvinnu fann ég nám sem ég var spennt fyrir að læra, tækniteiknun við Tækniskólann í Reykjavík. Mér fannst þetta nám spennandi að því leyti að það tengdist BS-náminu sem ég hafði klárað þá þegar en einnig myndi ég bæta við mig þekkingu í byggingateikningum, raflagna- og lagnateikningum, ásamt ýmsum öðrum sviðum sem ég hafði ekki lært í innanhússhönnuninni. Bakgrunnur minn var góður enda var ég að notast við sömu forrit í fyrra námi og notast er við í Tækniteiknuninni. 

Ég fór því á fund með skólastjóra Byggingatækniskólans, Gunnari Kjartansyni, í desember 2017 og ræddi við hann um mögulegt nám samhliða atvinnumennskunni. Hann tók ágætlega í hugmyndina og kallaði til tvo kennara sem kenna við deildina til að bera þetta undir þá. Þeir samþykktu tillögur hans um að ég fengi að koma inn í námið í janúar, sem er óvanalegt því einungis er tekið við nýjum nemendum á haustönn. Ég yrði í raun með frjálsa mætingu í skólann, ég léti þá vita hvenær ég væri úti en mætti í tíma þegar ég væri á Íslandi. 

Ég ræddi þetta við þjálfarana mína og blessunarlega tóku þeir vel í þetta og ekki aðeins það heldur fannst þeim þetta frábær hugmynd.

Ég byrjaði því í Tækniskólanum í janúar 2018 í 7 áföngum. Öll kennslumyndböndin sem notast er við eru á netinu og öllum verkefnum er skilað inn á netinu sama hvort þú sért í kennslustofunni eða ekki og því hentaði þetta mér fullkomlega. Ég mætti fyrstu 10 daga annarinnar í skólann og flaug svo til Ástralíu í 6 vikna keppnisferðalag. Kennararnir voru mjög liðlegir og höfðu próf og tímakannanir opnar lengur fyrir mig enda var ég sjaldnast á sama tímabelti og þeir og því ekki víst hvenær sólarhringsins ég kæmist í að vinna verkefnin og prófin. Ég kom svo aftur heim í einhverjar 2-3 vikur, flaug aftur út í einhverjar vikur og svona gekk þetta þær þrjár annir sem ég var í náminu. Ég þurfti einungis að taka þrjár annir til að klára námið, alla grunnáfanga fékk ég metna úr FVA og haustönnina 2017 fékk ég metna vegan BS-námsins míns. 

Árið 2018 var mitt besta ár á ferlinum. Ég náði besta árangri í móti sem íslenskur kylfingur hefur náð á mótaröð á hæsta leveli. Ég spilaði mig beint inn í stórmót, Opna breska meistaramótið, og ég endaði í 38. sæti á stigalista Evrópumótaraðarinnar. Mér tókst að skila öllum verkefnum á réttum tíma eða á undan skilgreindri dagsetningu og stóðst alla 14 áfangana (7 að vori og 7 að hausti) á því ári með 9 eða 10 í einkunn. 

Þetta ár var ég enn skipulagðari en áður. Ég nýtti æfingatímann til hins ýtrasta því ég vissi að ég ætti að skila verkefni um kvöldið, eftir einn eða tvo daga eða eftir viku. Ég nýtti frítímann minn í skólavinnuna og ef illa gekk á vellinum var ég ekki að velta mér upp úr því allan daginn eða kvöldið því hugurinn var að takast á við allt öðruvísi verkefni. Mér tókst meira að segja að horfa á helling á Netflix og lesa 26 bækur á meðan náminu stóð. 

Ég útskrifaðist svo sem tækniteiknari í maí 2019. Þrjár strangar annir af miklu skipulagi og vinnu að baki. Þrjár annir af skilningsríkum kennurum sem studdu við bakið á mér, ekki bara í náminu heldur í íþróttinni líka. Þrjár annir af þakklæti. Ég er ofboðslega þakklát kennurum og skólastjóra Byggingatækniskólans fyrir að hafa gefið mér tækifæri á að mennta mig meira samhliða atvinnumennskunni. Þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi, bæði hjá nemandanum/íþróttamanninum og skólanum. Við þurfum fleiri kennara og skólastjóra eins og þá sem ég var svo heppin að hafa í Tækniskólanum. Við þurfum meiri sveigjanleika í skólakerfinu á Íslandi þar sem stutt er við menntun afreksíþróttamanna. Við þurfum meira nám þar sem nemendur yfir höfuð geta tekið á sínum hraða án þess að líða fyrir það. Það þurfa ekki allir að taka 7 áfanga á önn eins og ég gerði, fyrir mér var það bara raunverulegur möguleiki þó svo í fyrstu hafi ég verið stressuð yfir því. 

Ég vona að mín reynsla verði ykkur innblástur í að læra eitthvað nýtt eða að skrá ykkur loksins í námið sem þið hafið horft svo lengi á. Get, ætla, skal. Ég held með ykkur!

Valdís Þóra  
IG: @valdisthora

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :