Líkaminn er kraftaverk og líkami íþróttamannsins er sannkallað meistaraverk því bygging og eiginleikar hans hafa að hluta með það að gera hvaða árangri viðkomandi getur náð, þó vissulega komi svo margt fleira inn í það. Það sem gleymist stundum í næringartengdri umræðu er einmitt hve einstakur hver líkami er sem aftur útskýrir hvers vegna svörun við ákveðnu mataræði getur verið ólík milli einstaklinga. Þar koma þættir eins og efnaskipti, íþróttagrein, þjálfunarástand, heilsufarssaga, kyn og aldur inn. Með öðrum orðum þá erum við öll misjöfn, fáumst við ólíka hluti og þar af leiðandi eru orku- og næringarþarfir okkar misjafnar. Það er eitthvað sem við þurfum að hafa hugfast. 

Hér er ekki meiningin að gera vinsælum stefnum í mataræði skil heldur fyrst og fremst að hvetja þig til að hugsa hlutina út frá sjálfum/sjálfri þér. Veltu markmiðum þínum fyrir þér; hvernig ætlar þú að hámarka þig og hvar kemur næringin inn í það? Hver er þín íþrótt og hvaða kröfur gerir hún?

Þegar ég held fyrirlestra og vinn með íþróttafólki er markmiðið ekki að það fylli út óaðfinnanlegar matardagbækur sem ég get gefið einkunnina 10,0 fyrir. Mitt markmið er að skilja eftir einföld verkfæri hjá einstaklingnum svo viðkomandi geti sjálfur tekið ábyrgðina og lært inn á eigin þarfir hverju sinni. 

5 grunnatriði sem þú ættir að skoða

Í raun ætti hver og einn íþróttamaður að horfa á mataræðið sem mikilvægan hluta af sinni rútínu og þar má nefna fimm grunnatriði eða næringarlykla sem mig langar að deila með ykkur:

Fæðuinntaka þarf að vera í samræmi við einstaklingsbundnar orku- og næringarþarfir. Það eitt að vera til og draga andann í hvíld krefst ákveðins magns orku sem við köllum grunnorkuþörf. Þá krefjast daglegar athafnir orku sömuleiðis og stífar íþróttaæfingar bæta enn frekar ofan á það sem sést best á því að margt afreksíþróttafólk hefur mjög mikla heildarorkuþörf. Ef orkuinntaka rétt dugar til að bæta upp fyrir þá orku sem við verjum á æfingum þá getur það bitnað á heilsu okkar og árangri. Við getum ekki hreyft okkur án þess að nota til þess orku og líkaminn þarf að tryggja orku til viðhalds á lífsnauðsynlegri starfsemi. Ef það sem eftir stendur er af skornum skammti (ófullnægjandi tiltæk orka) þá neyðist hann forgangsraða aðgerðum og innri ferlum sem getur t.d. haft áhrif á efnaskiptahraða, hormónastarfsemi, endurheimt og afkastagetu. Næg tiltæk orka er því grunnurinn sem allt annað byggir á.

Skipuleggðu fram í tímann og skoðaðu hvernig æfingaplanið lítur út næstu daga eða vikuna. Hvernig ætlar þú að púsla máltíðum inn í það svo þú styðjir sem best við þínar þarfir, hafir góða orku á æfingum og hámarkir endurheimt, þjálfunaraðlögun og árangur?

Æfinga- og undirbúningstímabil eru ekki bara til þess að þjálfa vöðvana, fullkomna tæknina og önnur atriði sem tryggja árangur í viðkomandi grein. Á þeim tíma hefur þú tækifæri til að finna út hvaða matur fer vel í þig og hentar þar með vel að borða fyrir, meðan og eftir keppni. Þannig kemur þú meðal annars í veg fyrir meltingarónot og aðrar óvæntar uppákomur á keppnisdag því líkaminn hefur fengið þjálfun í þessu. Keppnisvikan er ekki rétti tíminn fyrir tilraunamennsku í mataræði.

Hvíldardagar eru mikilvægir og sömuleiðis skiptir máli að næra kroppinn vel þá daga líka. Þarna fær líkaminn tækifæri til að vinna úr áreitinu og gera við. Rétt eins og smiður þarf nagla og skrúfur við sín störf þarf líkaminn orku og næringarefni í sína uppbyggingar- og viðhaldsvinnu. 

Temdu þér fjölbreytni í fæðuvali. Ímyndaðu þér næringarefnin sem íþróttalið þar sem hvert þeirra hefur sitt sértæka hlutverk á vellinum og árangur byggist því á góðri samvinnu liðsins. Aragrúi íþróttavara og fæðubótarefna er á markaði en ekkert þeirra getur bætt upp fyrir bresti í mataræðinu eða komið í stað góðra næringarvenja. Við ættum í raun ekki að velta fyrir okkur mögulegri gagnsemi fæðubótarefna fyrr en búið er að ganga úr skugga um að eins vel sé gert í almennu mataræði og hægt er og í raun er aðeins lítill hluti einstaklinga sem hefur sannanlega gagn af slíkum vörum.
Birna Varðardóttir
BSc næringarfræði
MSc þjálffræðivísindi/íþróttanæringarfræði
Facebook: https://www.facebook.com/MolinnMinn/
Email: birnavar@gmail.com

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :