Lærdómur af töpuðum leik

Það er sárt að tapa. Það er glatað að tapa næsta leik af því maður lærði ekki af reynslunni í fyrri leik.

Í vikunni keppti ég á mótinu Barcelona Spain Masters núna sem er hluti af HSBC World Tour mótaröðinni. Því miður spilaði ég vægast sagt ekki góðan leik. Ég tapaði 21-13 21-14 á móti lægra rankaðann Indverja í fyrsta leik og þar með lauk þátttöku minni á því móti.

Í þessari grein ætla ég að fara í gegnum það hvernig ég greini þetta tap til þess að koma í veg fyrir svipaða atburðarás framvegis. Greiningunni er skipt upp í fjórar spurningar sem allir geta notað til að greina sína eigin leiki: Hvað gerðist; af hverju; hvernig brást ég við; hvernig leysi ég málinu betur næst?

Hvað gerðist?

Það geta verið margar ástæður fyrir því að maður tapar leik: taktík, þol, einbeiting og andlegur styrkur eru mikilvæg atriði. Í íþróttum er stundum talað um að “eiga ekki góðan dag” (“off day”) þar sem hlutirnar ganga ekki alveg upp. Í leiknum mínum á móti inverjanum fannst mér einmitt hlutirnir ekki vera að heppnast hjá mér. Ég hafði ekki góða “tilfinningu” (“touch”) inná vellinum og ég gerði tiltölulega mörg einföld mistök. En hvað er það að hafa góða “tilfinningu“? Flestir kannast eflaust við hugtakið að vera “in the zone” þar sem hlutirnir “fljóta” og virðast gerast áreynslulaust. Þegar maður er in the zone þá hefur maður mjög góða tilfinningu. Hinsvegar þegar maður hefur ekki góða tilfinningu þá virðast hreyfingar manns vera vélrænar og vandræðalegar. 

Af hverju hafði ég ekki góða tilfinningu?

Ég hafði ekki góða “tilfinningu” í leiknum á móti indverjanum – en af hverju eiginlega? Hafði ég sofið illa? Var upphitunin ekki nógu góð? Var eitthvað við aðstæðurnar sem truflaði mig? Var ég ekki andlega nógu undirbúinn fyrir leikinn? Ég svaf ágætlega og gerði venjulegu upphitunar rútínuna mína. Ég spilaði fyrsta leik mótsins klukkan 10 um morguninn og ég veit að það er sérstaklega mikilvægt fyrir mig að koma mér vel í gang þegar ég spila snemma dags. Ég var því mættur 1,5 klukkutíma fyrir leik til að hita almennilega upp og líka til að slá mig í gang í upphitunarhöllinni. 

Ástæðan fyrir því að ég hafði ekki góða tilfinningu tengist frekar aðstæðunum og andlega undirbúningnum. Keppnisaðstæður geta haft áhrif á hvernig tilfinningu maður hefur inná vellinum. Höllin í Barcelona er stór, hátt til lofts og smá vindur frá loftkælingarkerfinu sem hafði áhrif á flug boltans. Mér fannst ég sjá boltann illa útaf ljósunum í loftinu sem var næstum því hvítt (boltinn í badminton er hvítur og þess vegna er erfitt að hafa ljósann bakgrunn þegar maður spilar). Oft eru einkennin við “slæmri tilfinningu” að hafa minni stjórn á grunnhöggum útaf trufluðu “spatial awareness“, þannig koma einföld mistök og þar af leiðandi eykst óöruggið. Þetta getur verið neikvæður spírall. 

Hvernig brást ég við?

Ég veit að það getur verið erfiðara að spila í stórum höllum og þess vegna er mikilvægt að reyna að venjast höllinni áður en maður keppir. Ég náði að taka klukkutíma æfingu í höllinni daginn áður en ég átti að keppa. Hinsvegar sé ég það eftirá að ég var ekki nógu vel andlega undirbúinn fyrir því hvernig keppnisstressið á það til með að magna upp slæma tilfinningu. Alveg eins og að það er mikilvægt að sjá fyrir sér hvernig maður ætlar að reyna að spila leikinn (“visualization”) þá er alveg jafn mikilvægt að undirbúa sig andlega gegn erfiðleikum sem geta komið upp í leik þannig að maður viti til hvaða verkfæra á að leita. Það er sem sagt mikilvægt að vera búinn að undirbúa hvernig maður ætlar að bregðast við mismunandi atburðarásum.

Þegar mér fannst ég ekki vera að koma spilinu mínu í gang varð ég óþolinmóður og reyndi að klára boltann of snemma. Ég fór að taka fleiri sénsa án þess að vera endilega búinn að byggja upp spilið til þess að skapa mér færi. Ég byrjaði sem sagt með slæmri tilfinningu fyrir boltanum og vellinum sem tengdist aðstæðunum en bætti síðan við stressi og óþolinmæði. Það er sjaldan góð uppskrift. Enda voru flest “rallyin” tiltölulega stutt og leikurinn varð ekki sérstaklega langur. Ég var ekki einu sinni orðinn almennilega þreyttur þegar leikurinn var búinn – en það er langversta tilfinningin sem maður getur haft eftir að hafa tapað leik. Það er eins og maður hafi ekki reynt á. 

Hvernig get ég leyst málinu betur næst?

Það mun koma leikur aftur í framtíðinni þar sem mér finnst ég ekki hafa góða tilfinningu útaf aðstæðum eða hvað sem það getur verið. Þegar það gerist er gott að geta hugsað til þess lærdóms sem ég tek úr þessum leik í Barcelona og reyna að framkvæma hlutina öðruvísi. 

Mikilvægt er að muna að aðstæðurnar eru nákvæmlega eins fyrir alla. Ef mér finnst eitthvað vera truflandi þá er gott að muna að andstæðingnum finnst það sennilega líka. Það er hvernig maður bregst við aðstæðum sem skiptir máli. Ef maður hefur slæma tilfinningu þá er mikilvægt að muna að tilfinningin getur bæst þegar líður á leikinn. 

Ég brást við með því að verða óþolinmóður og reyna að klára boltann snemma. Það virkaði ekki. Til þess að gefa sjálfum mér betri möguleika á að bæta tilfinninguna þegar líður á leikinn þá væri góð hugmynd að reyna að spila með meiri þolinmæði til þess að lengja leikinn. Því lengri tíma sem maður heldur boltanum í gangi því betri tilfinningu ætti maður að fá fyrir vellinum.

Hvernig á að framkvæma þetta næst? Það er bæði andlegur og taktískur þáttur í þessu. Það er mikilvægt að undirbúa sig andlega við það að þessi slæma tilfinning geti komið og þá er gott að gera plan fyrir það hvernig maður ætlar að bregðast við. Andlega snýst það um að sætta sig við aðstæðurnar, slaka á, og horfa fram á við. Taktískt snýst það um að breyta hugarfarinu frá sóknarspili yfir í aðeins meira “neutralt” spil þar sem áherslan er á að byggja upp spilið með þolinmæði til þess að lengja leikinn. Maður þarf að miða aðeins minna á kantana og vera tilbúinn að hlaupa lengra.

Það er að sjálfsögðu ekki öruggt að þessi greining hjálpi manni að vinna næsta leik en að minnsta kosti getur maður gefið sjálfum sér betri séns.

Gangi ykkur vel og takk fyrir að lesa!
Kári Gunnarsson
IG: Karigunnars
FB: Kári Gunnarsson Badminton