Síðustu 20 ár hef ég æft sund og á mínum sundferli hef ég lært hve mikilvæg endurheimt er. Ég finn að endurheimtin er ekki aðeins góð til að ég jafni mig sem fyrst eftir æfingu, heldur finn ég að ef ég legg mikla áherslu á góða endurheimt þá næ ég að synda hraðar, oftar og næ að reyna meira á mig á æfingunum.

Mikilvægast fyrir mig er góður svefn. Þegar ég var unglingur þá náði ég einhvern veginn að lifa á alltof litlum svefn í of langan tíma og það kom niður á æfingunum mínum. Nú til dags þarf ég að sofa í að minnsta kosti 8 tíma á nóttu bara til þess að líða vel bæði líkamlega og andlega daginn eftir annars finn ég strax fyrir því á næstu æfingu.

Næst mikilvægast fyrir mig er að ég verð að passa að borða nóg. Ég á það til að gleyma að borða eða undirbúa máltíðirnar ef það er mikið að gera. Ég hef fundið fyrir orkuleysi þegar líður á æfingarnar ef ég gleymi að borða, og mér líkar ekki þegar svona kæruleysi truflar góðar æfingar. Ég hef því sett mér markmið að plana betur hvenær og hvað ég borða yfir daginn, ég veit hvað gott mataræði getur haft góð áhrif á minn árangur. 

Síðasta atriðið hjá mér er að finna mér eitthvað að gera utan sundsins, eitthvað sem ég hef gaman að og get gleymt mér í. Í gegnum tíðina hef ég fundið hvað andleg heilsa mín hefur mikil áhrif á æfingarnar mínar, og til að ég nái að slaka á og ná mér betur milli æfinga er mikilvægt fyrir mig að finna eitthvað annað sem ég get notið mín að gera. Það besta sem ég geri er að vera í góðum félagsskap eða leyfa mér að slaka á yfir sjónvarpinu án þess að líða eins og ég sé „letingi“, en ég á það til að rúlla vöðvana eða nota nuddbyssuna á meðan. 

Þetta hefur hjálpað mér mikið í gegnum tíðina og því meira sem ég passa upp á þessa hluti því betur líður mér á hverri æfingu, svo er líka gott að prófa sig áfram og finna hvað hentar hverjum og einum best. 

Fókusar þú á endurheimtina?

Eygló Ósk
IG: @eyglo95

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :