Ég fæ reglulega æfingadaga sem ég kalla Guðlaugar-daga. Þessa æfingadaga æfi ég allt ein, en ekki með æfingahópnum mínum eins og venjulega. Ég elska þessa æfingadaga vegna þess að ég get sjálf 100% stjórnað því sem ég geri, hvenær ég æfi og í hvaða röð ég tek æfingarnar. Ég nýti þessa daga sem líkamlega og andlega endurheimt, og mér líður alltaf vel eftir þá. Ef mig langar að fara hægt þá fer ég hægt og skammast mín ekkert fyrir það, heldur reyni að njóta þess að hreyfa mig á eigin tempói. Ég mæli með því að taka svona daga reglulega þegar maður er í miklu æfingarálagi og æfir með fólki alla daga. Stundum þarf maður bara að fá að njóta þess að vera einn með sjálfum sér 🙂
Týpískur Guðlaugar-dagur lítur svona út:
Ég sef út og fæ mér góðan morgunmat með appelsínudjúsglasi og kaffi.
Sundæfing:
Ég synti 1000m upphitun og gerði síðan aðalsettið þar sem ég var að vinna með aerobic endurance og strength. Aðalsettið var 4×500 með stóra spaða, kút og ökklaband. Þar sem ég synti ein gat ég haft 100% fókus á sjálfa mig, og þennan dag lagði ég áherslu á langt sundtak með góðu gripi í vatninu. Ég hugsaði um hvernig ég er að nýta takið og hvernig hendin mín liggur í vatninu í gegnum allt takið. Það er auðvelt að detta í rútínu og bara synda, án þess að hugsa um hvað maður er að gera. Þess vegna er mikilvægt að ögra sér með því að hugsa um takið þegar maður er að synda.
Nudd:
Eftir sundæfingu fór ég í nudd og sjúkraþjálfun. Í þetta skiptið var ég að vinna með stífleika í mjóbakinu og í rassvöðvunum. Ég gerði nokkrar teygjuæfingar með sjúkraþjálfaranum og fór síðan í nudd beint eftir það.
Hlaupaæfing
Ég hljóp 30 mín. rólega á stígunum við húsið mitt í Suður Afríku. Þetta átti að vera recovery æfing, en þá fer ég mjög rólega og mér á að líða betur eftir hlaupið en fyrir það. Þess vegna fór ég án klukku og hljóp bara eftir tilfinningu og efforti. Þetta var mjög gott hlaup og ég náði að endurhlaða mig eftir erfiða daga og vikur.
Yoga
Ég endaði daginn á yin-yoga teygjum sem hjálpa mér að teygja á, slaka á og minnka stress eða einhverja vanlíðan sem hef.
Takk fyrir að lesa
Guðlaug Edda Hannesdóttir
IG: @eddahannesd