Síðan ég var unglingur hefur upphitunin mín fyrir keppni alltaf verið mjög svipuð. Það gæti kannski verið vegna hjátrúar en ég kemst alltaf í betri fíling og finn svona að ég sé tilbúin væri líkamlega og andlega þegar ég geri alltaf sömu eða svipaða rútínu. Grunnurinn að upphituninni er mjög svipuð en hún breytist aðeins eftir því hvaða sund ég er að keppa í. Ef ég keppi í stuttum sprett greinum þá reyni ég að bæta smá sprengikrafts æfingu inn í upphitunina en ef ég er að synda til dæmis 200m baksund þá geri ég yfirleitt einhverja æfingu til þess að fá góða tilfinningu fyrir vatninu þar sem ég þarf að nýta tökin vel.

Núna um helgina eru Reykjavíkurleikarnir haldnir og þar mun ég keppa í öllum baksundsgreinunum. Hér ætla ég að sýna ykkur þessa týpísku upphitun sem ég mun vinna með um helgina.

Upphitunin

Ég byrja alltaf á því að hita mig upp á bakkanum. Ég hef tekið eftir því í gegnum tíðina að eitt það mikilvægasta fyrir mig að gera áður en ég fer að synda er að hita vel upp axlirnar mínar. Svo geri ég alltaf mínar klassísku bakæfingar og hita svo einnig upp mjaðmirnar vel til að gera bakið tilbúið í átök. Þegar ég er farin að svitna vel á bakkanum og finnst ég vera tilbúin í sundið þá fer ég ofaní yfirleitt um klukkutíma og korter áður en sundið mitt byrjar. Ég veit að það er mjög snemmt en í sundheiminum þarftu alltaf auka tíma til að troða þér í keppnisgallann sem getur tekið mislangann tíma. En fyrir mig finnst mér betra að hafa meiri tíma en minni til að ég stressist ekki upp og haldi mig andlega rólegri. Sundupphitunin mín hljóðar svona:

  • 600m þar sem ég skipti því niður í 100m skriðsund og svo 50m baksund – ég geri yfirleitt fyrri helminginn með froskalappir til að koma fótunum almennilega í gang
  • 100m sculling – fyrir þá sem æfa ekki sund og vita ekki hvað scull er þá geri ég það til að virkja hendurnar almennilega en þessi æfing gerir það best fyrir mig áður en ég held áfram með upphitunina
  • 200m fætur – stundum geri ég þær með froskalappir en oft sleppi ég þeim eins og til dæmis á stórmótum þar sem oft er bannað að hafa þær í aðallauginni
  • 100m baksunds tækniæfingar – hérna er ég bara að fínpússa tilfinninguna mína fyrir vatninu og finna svona mína réttu tækni
  • Næst vinn ég með hraðaæfingar, eins og ég nefndi áður þá fer það eftir því hvaða sund ég syndi en ef ég væri að keppa í 200m baksundi þá mundi ég synda 1-2x50m á 200m pace. Hér ræður tilfinningin alveg ferðinni. Oft geri ég styttra ef ég finn að líkaminn er þreyttur þá spara ég mig fyrir alvöru keppnina.
  • Síðast en ekki síst enda ég á að synda um 200m í niðursundi og finna þreytuna eftir hröðu æfinguna hverfa alveg.

Ég finn að ef ég fylgi þessu plani þá líður mér alltaf vel andlega og líkaminn mun alltaf vera í eins góðu standi fyrir keppnina og hann getur verið í.

Reykjavíkurleikarnir um helgina

Fyrir þá sem eru að keppa um helgina vona ég að þið getið nýtt ykkur þetta á einhvern hátt og þetta gefi ykkur innblástur til að þróa ykkar persónulegu upphitun.

Ég hlakka mikið til þess að keppa á mótinu, sérstaklega þar sem að tvær nánustu vinkonur mínar í sportinu eru að koma til landsins og keppa með mér í baksundunum. Þetta verður vonandi hratt og skemmtilegt mót.

Þannig að ég skora á alla til að koma og horfa á Reykjavíkurleikana um helgina og endilega komið og heilsið upp á mig! 😊

Takk fyrir mig.

Eygló Ósk Gústafsdóttir
IG: @eyglo95

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :