Svakalegasta kast keppni á HM

Í september 2019 tók ég þátt á heimsmeistaramótinu í frjálsum sem fram fór í Doha í Qatar.  Planið mitt var að fara út á miðvikudegi til að keppa á laugardegi. Venjulega er ferðalagið frekar stutt frá keppni og er eðlilegra að fara út í æfingarbúðir fyrir stórmót sem er svona langt í burtu en þar sem ég var búinn að vera meiddur allt sumarið og fékk bara grænt ljós að kasta 3 vikum fyrir mót þá ákváðum við að fara seinna út til að ná eins mörgum æfingum og við gátum áður en keppni hófst.

Í aðdraganda keppninnar hafði mér sjaldan ef nokkurntíman gengið jafn vel á æfingum þrátt fyrir að vera búinn að kasta lítið. Ég var að kasta lengra og betur en ég hafði nokkurn tíman gert og var ég heldur betur til í að keppa á HM.

En þegar ég vaknaði á brottfarardag var ég orðinn veikur og fékk það skemmtilega verkefni að ferðast til Qatar frá Íslandi veikur.  Á föstudeginum var maður orðin þokkalegur og tók ég létta æfingu og gekk allt vel þar svo næst var það bara að taka þátt á mínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Laugardagurinn var flottur og ég var hrikalega vel upp gíraður á leiðinni út á völl og setti stefnuna á að komast í úrslit miðað við hvernig ég var búinn að vera að kasta þessar þrjár vikur fram að heimsmeistaramótinu. Það var gott veður eins og yfirleitt í Doha, um það bil 40 gráður úti, heiðskýrt og mikill raki. Þegar komið var að því að keppa þá var í rauninni allt að klikka, ég var að kasta mjög illa, tæknin var í algjöru rugli og kastaði ég hrikalega stutt og lenti í seinasta sæti.

Hér er video frá heimsmeistaramótinu.

En það sem stóð uppúr á heimsmeistaramótinu í Doha 2019 var að svakalegasta keppni í frjálsíþróttasögunni átti sér stað þegar kúlan vannst á 22,91m,  einungis 1cm lengra en næstu tveir keppendur.

Joe Kovacs USA kastaði 22,91m Gull
Ryan Crouser USA kastaði 22,90m Silfur 
Tomas Walsh NZL Kastaði 22,90m Brons
Darlan Romani BRA Kastaði 22,54m 4. sæti

Fyrir þetta mót átti Werner Gunthor frá Sviss heimeistaramótsmetið 22,23m.  það var sett 1987 og að 4 kastarar hafi kastað lengra en þetta er svakalegt og að kasta 22,54m og lenda í 4. sæti er bara hrein óheppni þar sem að fram að þessu móti hafði það verið nóg til að vinna hvert einasta stórmót frá upphafi í frjálsum.

Hér má sjá bestu köstin í keppninni.

Kastgreinarnar geta oft verið mjög spennandi á stórmótum, sérstaklega síðasta umferðin, hvet ykkur til að fylgjast með næsta kastmóti!

Bestu kveðjur
Guðni Valur
IG: @gudnigudna