Fjarþjálfunarsamband

Það er ekki sjálfgefið að vinna með þjálfara sem býr í öðrum landshluta eða jafnvel í öðru landi en maður sjálfur. Þetta getur orðið erfitt og þá sérstaklega þegar þú æfir mikla tæknigrein sem krefst þess að rýna í smæstu smáatriði. Ég ákvað þó að láta á það reyna í byrjun árs 2017 og átti í kjölfarið besta tímabilið á mínum ferli. Á þessum tíma höfum við Kari þróað okkar samskiptaaðferðir og mig langar til þess að deila þeim með ykkur í dag.

Byrjunin

Við skulum byrja á byrjuninni. Þegar ég og Kari Kiviniemi byrjuðum fyrst að vinna saman í janúar 2017 þá var ég búsett í Zurich í Sviss og hann rétt fyrir utan Stokkhólm. Við ákváðum að fyrirkomulagið á þjálfuninni yrði þannig að hann myndi senda mér æfingaprógram sem ég fylgdi heima í Zurich og síðan myndi ég fylgja hans hóp í æfingabúðir um vorið.  Á þessum tíma var ég í doktorsnámi svo það voru takmörk fyrir því hversu mikið ég gæti verið í burtu. Hann er sjúkraþjálfari og rekur sína eigin stofu auk þess að vera að þjálfa. Það var nokkuð ljóst að við myndum þurfa að finna lausn á því hvernig hann gæti fylgst með æfingunum mínum dags daglega heima í Sviss. Sú lausn varð samskiptaappið WhatsApp.

Prógramið

Hans hugmyndir um þjálfun voru að mörgu leyti mjög ólíkar því sem ég hafði kynnst áður. Þetta varð til þess að ég fór að æfa allt öðruvísi en ég trúi því að þetta sé ástæðan fyrir því að ég tók svona miklum framförum á svona stuttum tíma. Allt sem ég gerði þjónaði tilgangi og við réðumst til atlögu á alla mína veikleika. Þetta er fín leið til þess að segja að ég fékk næstum því bara að gera hluti sem ég var léleg í. Sem betur fer elska ég góða áskorun og hef þokkalegan húmor fyrir sjálfri mér. Ég náði að setja alla athygli á að vera stöðugt að ná að gera hlutina aðeins betur og betur í staðinn fyrir að láta það draga úr mér að ég væri ekki góð í þeim.

Við komumst að þeirri niðurstöðu saman að það sem ég þyrfti að bæta til þess að kasta lengra var tækni og hraði. Styrkur hefur alltaf verið minn helsti styrkleiki og nú allt í einu lyfti ég varla þungt lengur. Ég hef mikinn sprengikraft en ég var of hæg svo öll áhersla fór nú á að framkvæma allar hreyfingar hraðar. Það er þó ekki nóg að “finnast” maður vera hraðari, við vildum geta mælt það. Ég byrjaði að nýta mér My Jump 2 appið til þess að mæla hæð á hoppum og snertitíma við jörðina og Vmax pro nemann til þess að mæla hraða í lyftingum. Við höfum nýtt okkur teygjur mikið í hraða- og styrktaræfingunum mínum sem hefur gefið gríðarlega góðan árangur. 

Samskipti í fjarþjálfun

Þegar ég er á æfingum þá tek ég upp á símann minn næstum því allt sem ég geri. Það má eiginlega segja að þrífóturinn sér orðinn mikilvægasta æfingatækið mitt. Af sumum æfingum tek ég bara upp eitt sett en af öðrum hvert einasta. Það fer allt eftir því hversu mikilvægt það er að hann sjái hvernig ég framkvæmi hreyfingarnar. Eftir settið sendi ég síðan myndbandið beint til hans í gegnum WhatsApp. Nú æfi ég yfirleitt um miðjan daginn á meðan hann er í vinnunni og þá svarar hann mér annað hvort eftirá eða á milli sjúklinga þegar hann hefur tíma. Þegar ég er að fara að kasta hins vegar þá skipuleggjum við okkur þannig að ég taki æfinguna á tíma þar sem hann er ekki upptekinn. Þannig getur hann fylgst með hverju einasta kasti og gefið mér komment jafnóðum. Á kastæfingum er mikilvægt fyrir mig að fá að vita strax hvað ég eigi að laga svo ég festist ekki í rangri hreyfingu vegna þess að ég hef endurtekið hana of oft. Auk þess man ég mun betur eftir tilfinningunni strax á eftir svo komment seinna um kvöldið myndu ekki hjálpa mér eins mikið. Þá hefði ég ekki tækifæri til að laga það fyrr en á næstu æfingu.

Hvað er framundan?

Í lok febrúar mun ég fara í tæplega þriggja vikna æfingabúðir til Suður Afríku með Kari og æfingahópnum mínum. Strax í kjölfarið á þeim æfingabúðum keppi ég á mínu fyrsta móti, Vetrarkastmóti Frjálsíþróttasambands Evrópu helgina 21. – 22. mars. Tímabilið byrjar þó ekki af alvöru fyrr en í maí svo eftir Vetrarkastmótið fer ég aftur í þungar æfingar. Áður en tímabilið byrjar mun ég fara aftur í ca tveggja vikna æfingabúðir með Kari og æfingahópnum. Inn á milli allra þessara ferða, sem og í sumar, mun ég líka fara í stuttar ferðir til Stokkhólms til þess að ná einni eða tveim kastæfingum með honum. 

Á þennan hátt munum við undirbúa mig sem allra best fyrir þetta stóra tímabil sem er framundan. Ég mun leyfa ykkur að fylgjast með.

Ásdís Hjálms Annerud
Ig: @asdishjalms
FB: Ásdís Hjálmsdóttir Annerud