Þó svo að liðsheild lýsi eiginleikum liðs, þá byggist þessi eiginleiki upp á framlagi hvers einstaklings í liðinu. Liðsheild er byggð af liðsmönnunum og engum öðrum. Sérstaklega eru það þeir liðsmenn sem búa yfir færninni að vera góðir liðsmenn sem styrkja liðsheild liða sinna.

Í mjög stuttu máli má segja að það sem helst einkenni góða liðsmenn sé að þeir láta liðsfélögum sínum líða vel í kringum sig á æfingum og í keppnum. Góður liðsmaður áttar sig á því að eigin árangur er háður árangri liðsins sem hann tilheyrir. Góður liðsmaður áttar sig á mikilvægi liðsfélaga sinna í eigin árangri. Þess vegna gerir góður liðsmaður allt sem hann getur til að gera liðsfélaga sína eins góða og mögulegt er. Það er honum mikilvægt að liðsfélagar hans vilji taka af skarið, séu fullir sjálfstrausts og óttist ekki að gera mistök. Þess vegna leggur góður liðsmaður mikið upp úr því að skapa þannig andrúmsloft í kringum sig að liðsfélagarnir vilji taka af skarið og óttist ekki að gera mistök. Þetta gerir góður liðsmaður með jákvæðum samskiptum við liðsfélaga sína og jákvæðri líkamstjáningu.

Um leið og góður liðsmaður gerir sér grein fyrir mikilvægi liðsfélaga sinna í eigin árangri, gerir góður liðsmaður sér einnig grein fyrir mikilvægi sjálfs síns í árangri liðsfélaganna. Góður liðsmaður gerir sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hann ber gagnvart liðsfélögum sínum. Þess vegna leggur góður liðsmaður sig ávallt 100% fram, ekki einungis sjálfs síns vegna heldur einnig vegna þess að liðsfélagarnir þurfa á því að halda.

Góður liðsmaður temur sér jákvæð samskipti við liðsfélaga sína og þjálfara, hann leggur sig fram á æfingum og í keppnum vitandi það að liðsfélagarnir þurfa á því að halda, líkt og hann þarf á þeim að halda. Loks stuðlar góður liðsmaður að góðum anda á æfingum og í keppnum, sem gerir liðsfélögunum kleift að ná fram því besta í sér. Svona leggur góður liðsmaður sitt af mörkum til að mynda góða liðsheild í sínu liði og gera liðið þannig betra. Ungt íþróttafólk ætti að leggja áherslu á að byggja upp hjá sér þá færni að vera góður liðsmaður, því það er ekki síður mikilvægt fyrir árangur í hópíþróttum að vera góður liðsmaður en að vera tæknilega góð/ur eða með afburða líkamlega getu.

Hreiðar Haraldsson
Íþróttasálfræðingur hjá Haus Hugarþjálfun
IG: @hugarthjalfun

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :