Ráð fyrir íþróttamenn

Það er heimsfaraldur, íþróttalíf liggur niðri og það er ekkert vitað hvenær það kemst aftur af stað. Sumir íþróttamenn vita ekki hvort að tímabilinu þeirra sé lokið eða ekki og aðrir vita ekkert hvort tímabilið þeirra byrji á réttum tíma.  Ekkert er vitað hvort stórmót verða næsta sumar og jafnvel þótt að að búið sé að gefa út að Ólympíuleikar verði haldnir eftir plani blasir við að það er möguleiki á að leikunum verður frestað.  Einnig er óljóst hvernig á að vinna sér sæti á ÓL þegar flestar ef ekki allar keppnir eru feldar niður.  Í ofanálag þurfa íþróttamenn úr sumum greinum að aðlaga æfingar sínar verulega til að fylgja tilmælum almannavarna um tveggja metra fjarlægð á milli fólks.

Í svona ástandi er eðlilegt að íþróttamenn finni fyrir áhyggjum og streitu. Við gerum það öll. Óvissan er töluverð, eina sem við vitum er að þetta gengur yfir einn daginn.  Mikilvægt er fyrir íþróttamenn í svona fordæmalausum aðstæðum að halda haus. Þetta er kjörið tækifæri til þess að þjálfa upp þrautsegju og óvissuþol.

Hér eru nokkur ráð fyrir íþróttamenn:

Einbeittu þér að því sem þú getur stjórnað.

Það eru ótalmargir þættir núna sem þú hefur enga stjórn á.  Nú ríður á að velta sér eins lítið upp úr þeim atriðum sem þú getur ekki stjórnað (eins og hvenær fæ ég að keppa næst) og mögulegt er.  Þess í stað skaltu beina sjónum að þeim þáttum sem þú hefur fullkomna stjórn á.  Það eru þættir eins og hversu oft þú æfir, hversu lengi, hversu vel þér tekst að aðlaga æfingar þínar að breyttum aðstæðum, hugarfari, matarræði, svefni o.s.fv.   Gott er að skrifa lista yfir það sem þú sem íþróttamaður hefur ekki stjórn á í þessum aðstæðum og hverju þú hefur stjórn á.  Minntu þig svo á á hverjum degi að velta þér aðeins upp úr þáttum sem þú hefur stjórn á.

Settu þér frammistöðutengd markmið stutt fram í tímann

Hlutirnir breytast mjög hratt þessa dagana og því getur verið erfitt að setja sér vel skilgreind markmið nokkra mánuði fram í tímann.  Settu þér markmið fyrir eina viku í einu.  Markmiðin þurfa að snúa að einhverju sem þú hefur stjórn á og snúa að frammistöðu þinni.  Þetta geta verið markmið sem snúa að æfingamagni, tæknilegri framkvæmd eða hugarfari svo eitthvað sé nefnt.  Þegar þú setur þér þessi markmið gerðu ráð fyrir að allar keppnir verði samkvæmt plani eftir einn til tvo mánuði þar til annað kemur í ljós.

Notaðu tímann í að efla andlega þáttinn

Það kanna að vera að það sé erfitt að æfa jafn mikið og áður vegna aðstæðna og svo skapast hjá flestum einhver aukatími þar sem allar keppnir falla niður.  Nýttu þennan tíma til þess að efla andlega þáttinn.  Það er hægt að gera á marga vegu.  Mikið er til að góðu lesefni sem gæti hjálpað en líka eru til öpp sem geta hjálpað.  Dæmi um slík öpp eru headspace, calm og champions mind.

Kæru íþróttamenn, gangi ykkur vel að aðlaga ykkur að breyttum aðstæðum, verið í góðum en öruggum samskiptum við fólk, talið um áhyggjur ykkar við þá sem þið treystið, hugið vel að ykkar nánustu, fylgið öllum reglum sem yfirvöld setja og æfið ykkur í að hugsa út fyrir boxið, ef ekki nú þá hvenær!


Dr. Hafrún Kristjánsdóttir

Sálfræðingur og deilarforseti Íþróttafræðideildar HR.