Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 frestað

Ólympíuleikarnir áttu að hefjast 24. júlí og standa yfir til 9. ágúst, en þeim hefur nú verið frestað til ársins 2021.

Íþróttamenn út um allan heim hafa lagt mikið á sig til að ná lágmörkum og upplifa stærsta íþróttadrauminn, að komast á Ólympíuleikana.

Við Íslendingar eigum íþróttamenn sem eru búin að leggja allt í sölurnar til að upplifa þennan draum í Tokyo 2020, sumir í fyrsta sinn, en aðrir jafnvel í síðasta sinn og höfðu hug á að hætta eftir leikana.

Íþróttamenn út um allan heim hafa kallað eftir að ákvörðun verði tekin með Ólympíuleikana svo hægt væri að gera næstu ráðstafanir. Erfitt hefur verið að stefna að svona stóru markmiði en geta ekki mætt á æfingar og hvað þá mót og keppnir þar sem stefnan var að ná lágmörkunum fyrir leikana.

Þessar fréttar geta breytt ýmsu hjá íþróttamönnunum, þau eru að upplifa mjög blendnar tilfinningarnar núna. Það er komin ákvörðun um leikana, en hvað tekur við hjá íþróttamönnunum? Ætla íþróttamennirnir að fórna sér jafnvel ár í viðbót?

Núna þurfa íþróttamenn að gefa sér tíma að melta þessar fréttir og velta ýmsu fyrir sér, eins og:

Get ég gert þetta eitt ár í viðbót?

Get ég fjármagnað annað ár að elta Ólympíu drauminn?

Þolir líkaminn minn meira?

Get ég lagt þetta á fjölskyldu mína?

Aftur á móti þá gætu þetta verið góðar fréttir fyrir suma íþróttamenn þar sem þetta kaupir tíma fyrir þá til að bæta sig enn frekar og ná lágmörkunum.

Heilsan skiptir öllu máli og því eru allir sammála um og ekkert annað í stöðunni en að fresta Ólympíuleikunum.

Vonandi skapar þetta frekari tækifæri fyrir íþróttamenn og við Íslendingar förum með stóran hóp á Ólympíuleikana 2021.