Ég skrifaði pistil árið 2016 fyrir Sýnum Karakter, verkefni á vegum ÍSÍ og UMFÍ. Stundum þegar ég lít til baka er ég pleasantly surprised hvað ég var að pæla mikið í hlutunum. Eftir að taka líka viðtöl við krakka í #þittbesta verkefninu fæ ég oft áminningar um hvað krakkar eru snjallir og með hlutina alveg á hreinu! Ég var þó enginn krakki árið 2016 en, anyways… hér er pistillinn og pælingarnar mínar 🙂

Minn innri Federer

Ég horfði á úrslitaleik á Wimbledon fyrir nokkrum árum, Roger Federer vs. Novak Djokovic. Federer, minn maður, var ekki að eiga sinn besta leik. Hann gerði svo mörg klaufamistök og ekki hægt að segja að hlutirnir hafi fallið með kallinum. Samt sem áður dáðist ég að honum. Það sem mér fannst svo flott hjá honum var hvernig hann tók þessu mótlæti. Hann var svo harður, lét þetta ekki hafa áhrif á sig, gerði bara sitt besta áfram- ný uppgjöf, nýtt tækifæri. Svo tapaði hann leiknum, tók í hendina á Djokovic og rölti rólega út af vettvanginum. Federer er reyndur og vitur maður. Maður má nefnilega gera mistök, stundum lærir maður jafnvel mun meira á því að gera mistökin en ef allt hefði gengið eins og í sögu. Til þess að varpa ljósi á skemmtilegt dæmi um “pókerface-ið” má taka keppni í pílukasti. Að mínu mati er svo miklu svalara og sýnir mikla yfirburði að vera gaurinn sem lætur ekkert hafa áhrif á sig í pílukastskeppninni, lélegt kast- engin viðbrögð, gott kast- kannski smá fistpump til að espa áhorfendur, annars að vera rólegur.  Þetta krefst mikillar æfingar. 

Maður má nefnilega gera mistök, stundum lærir maður jafnvel mun meira á því að gera mistökin en ef allt hefði gengið eins og í sögu. 

Það sýnir gífurlegan styrk að leyfa ekki neinu að hafa neikvæð áhrif á sig. Ég sjálf er ekki alveg komin á þennan stað en ég held áfram að bæta mig og dag einn MUN ég verða “Ólafía Federer”. Mér finnst stundum gleymast að æfa andlega þáttinn í íþróttagreinum. Fæst okkar eru alin upp eins og einhverjir “zen” munkar. Maður vaknar heldur ekki bara einn daginn og er allt í einu andlega sterkur. Til þess að bæta sig þarf maður að mæta þessum erfiðu áskorunum þar sem allt er ekki með felldu og standast þær. Ein leið til að bæta sig er að setja markmið fyrir daginn: “í dag verð ég jákvæð sama hvað” og þjálfa sjálfan sig upp í það á æfingu dagsins. 

í dag verð ég jákvæð sama hvað

Að sjá fyrir sér er líka góð aðferð, hugleiðsla hefur reynst mörgum vel. En fyrst þarf maður að kafa djúpt inn, líta í eigin barm og læra hvað virkar best fyrir mann sjálfan til að ná sem bestum árangri. Svo hægt og rólega bæta sig, það gæti tekið nokkur ár að mastera “Mental Champinn”, en ég skora á ykkur að fara í þennan leiðangur, þjálfarar og íþróttamenn saman, þetta er svo rosalega mikilvægur hluti af íþróttum.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
IG: @olafiakri

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :