Á þriðju viku heimaæfingafaraldurs gæti verið farið að örla á leiðindum í garð líkamsæfinga, sérstaklega ef þær eru aðeins gerðar æfinganna sjálfra vegna. Ef líkamsæfingaprógrömm vekja svipaðar tilfinningar hjá þér eins og matarræðiskúrar, eru þær líklegar til að hverfa rétt eins og snjórinn þegar vorar. Hvað er þá til ráða? Hvernig getum við gert hreyfingu og heilsurækt meira spennandi?
Hefurðu staðið þig að því að gleyma þér yfir áskorun þannig að tíminn flaug frá þér? Þú varst meðvituð, við stjórn, en samt ekki að hugsa? Þú hefur líklegast upplifað flæði (e. flow) á einum eða öðrum tímapunkti í þínu lífi. Líklegast er að það eigi sér stað við ákveðnar aðstæður, helst þegar ákorun verkefnisins jafnast á við okkar eigin getu til að takast á við einmitt það verkefni. Dæmi um slíkt væri krefjandi púsluspil, sudoku, tölvuleikur á réttu “leveli” eða leikur með jafningjum.
Ein af ástæðum þess að okkur gæti leiðst í þeim æfingum sem við tökum okkur fyrir hendur er að okkur kann að þykja þær of léttar. Þegar verkefnið er allt of erfitt fyrir núverandi getu er hætt við að þeirri upplifun fylgi kvíði. Margir tímaseðlar hafa verið gefnir út á netinu síðustu vikur, með margskonar æfingum, sumum léttum en sumum bara talvert erfiðum. Í þær vantar mikilvægt hráefni sem þjálfarar reyna að huga alla jafna að hugsa út í, en það er einstaklingsmiðun æfinga.
Sambandi verkefnis og getustigs er ágætlega lýst í kenningu Mihaly Csikszentmihalyi um flæði. Kenninguna má skýra með einfaldri mynd sem þessari.

Í upphafi væri því best að spyrja þig hvað það er sem þig langar að takast á við, læra og upplifa? Því áhuginn er til alls fyrstur, og svo koma áskoranirnar, fyrst þær auðveldu og svo smátt vaxandi með aukinni færni. Góður kennari/þjálfari tekur áhuga og klæðskerasníðir svo verkefnin eftir vexti hvers og eins.
Eitt af mínum uppáhaldsdæmum þegar kemur að flæði og áskorunum er sú menning sem skapast t.d. í kringum fólk sem æfir sig á hjólabretti (og víðar). Þar á ég við að “æfingar” eigi sér stað oft með óformlegum hætti, án þjálfara, og á svæðinu er oft ungt fólk á misjöfnum aldri og af mjög misjöfnu getustigi. Alveg frá byrjendum upp í sérfræðinga, og allir í “sínu”. Umhverfið er styðjandi og þeir lengra komnu geta leiðbeint og sýnt byrjendum. Öll eru þau á sama svæðinu en í mjög miskrefjandi verkefnum. Þetta finnst mér heillandi, sérstaklega því á bakvið slíka þjálfun hlýtur að liggja innri áhugahvöt. Það er að segja að þjálfunin á sér stað því viðkomandi upplifir hana og hefur gaman af sjálfu athæfinu.
Að læra á hjólabretti er frábært dæmi um hvernig byrjandi kann að skynja umhverfi sitt og áskoranir sem þar leynast allt öðruvísi en sérfræðingurinn. Byrjandinn á fullt í fangi með að renna, beygja og halda jafnvægi, á meðan sérfræðingurinn skoðar hvernig hægt er að nota aðstæður í umhverfinu á annan og skapandi hátt. Með meiri færni opnast fleiri möguleikar.
Ég óska þess innilega fyrir þína hönd að þú hafir fundið þitt hjólabretti í lífinu sem í senn er góð líkamleg hreyfing og ánægjuleg ástundunar fyrir þig.
Góðar stundir.

Sveinn Þorgeirsson
Aðjúnkt við Íþróttafræðideild HR
sveinnth@ru.is
Heimildir
Csikszentmihalyi, M. (2009). Flow: The Psychology of Optimal Experience. Harper Collins.
