Ef maður eyðir smá tíma með þýskum knattspyrnuþjálfurum tekur maður eftir áhugaverðu menningarfyrirbæri sem heitir “aber”. Það heyrist oftast í lok setninga sem eru eiga að vera hrós. Eins og til dæmis, “já hann Manuel Neuer er stórkostlegur markmaður, … aber”.

Neuer hefur nefnilega unnið allt sem hægt er að vinna og spilað í áraraðir í einu besta liði heims. Hann hefur orðið heimsmeistari og unnið meistaradeildina. Það er varla hægt að gera betur í íþróttinni sem hann stundar. En…aber.  

Það er alltaf eitthvað sem má gera betur í Þýskalandi. Hverju hrósi fylgir áminning um að það sé samt hægt að gera aðeins betur. “Jú þessi er mjög fljótur og teknískur.. en ekki alveg nógu góður að verjast”. “Hún er mjög sterk og með gott hugarfar.. en þarf að bæta taktískan skilning”.  

Ef maður ætlar að ná árangri er nauðsynlegt að temja sér vaxtarmiðað hugarfar sem hvetur mann til að reyna sig ítrekað við erfiðari áskoranir. Að fagna smáum sem stórum sigrum en halda svo áfram, reyna að gera enn betur og festast ekki inni í þægindarammanum. Þannig útvíkkum við mörk hins mögulega og klífum áður ókleifa múra.

Aber, en…

Það er ekki nóg að íþróttamaðurinn temji sér slíkt hugarfar. Það er jafn mikilvægt að þjálfarar viðkomandi rammi hann ekki inn samkvæmt takmörkunum hans eða eigin fordómum. Flestir þjálfarar eru að mismiklu leiti þjakaðir af hugmyndum um það hvernig íþróttamenn í sinni grein eiga að vera og hvernig þeir eiga ekki að vera. Þessi er of léttur til að spila körfubolta og hinn er of svifaseinn til að spila knattspyrnu. Sumir dæma börn innflytjenda sem óþekk þegar menningin heima fyrir hjá þeim er öðruvísi en hjá flestum hinum í hópnum. Og það gerist oftar en maður vildi að unglingar eru stimplaðir með lítið sjálfstraust, en þegar þeir eru spurðir segjast þeir alveg hafa mikla trú á sjálfum sér en skilja ekki til hvers er ætlast af þeim af þjálfaranum sínum.

Það er hlutverk þjálfarans og íþróttamannsins að vinna saman að því að hámarka það sem hann getur heldur en að gefast upp á því sem hann getur ekki. Að spyrja “hvað getur þú?” og vinna með það frekar en það sem þú getur ekki.  

Stephen Curry langaði að spila fyrir Virginia Tech eins og pabbi hans hafði áður gert en honum bauðst aðeins að koma inn í algjört aukahlutverk þar sem hann þótti of grannur. Þjálfari Reading sagði að nítján ára Gylfi Sigurðsson hefði ekki hraða til að spila á miðjunni í ensku úrvalsdeildinni og lét hann æfa sem hafsent. Af þeim ellefu leikmönnum sem spiluðu flestar mínútur þegar Ísland tryggði sér sæti á HM í fyrsta sinn voru sex sem spiluðu aldrei leik fyrir U17 ára landsliðið. Þeir voru ekki tilbúnir þá..aber, en þeir urðu það seinna.

Í mörgum tilfellum þarf aðeins meiri tíma og aðeins meiri trú. 

Daði Rafnsson


Fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi
PhD nemi í íþróttasálfræði og stundakennari við Háskólann í Reykjavík

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :