Sem þjálfari tala ég við mikið af fólki og fæ sendar fyrirspurnir um hvernig er best að koma sér í form, verða betri íþróttamaður, hlaupa hraðar, lyfta meira, verða heilbrigðari o.s.frv. Svörin eru mörg og mismunandi en hins vegar veit ég eitt einfalt svar við spurningunni um hvað það er sem mun alltaf standa í vegi fyrir því að þú náir markmiðum þínum. 

Afsakanir

Það er innri röddin sem býr til afsakanir fyrir því að gera ekki það sem til þarf. 

Þetta eru afsakanir sem hljóma t.d. svona: 

• Ég er einhleyp/ur móðir/faðir og það er engin tími til að æfa 

• Ég er í námi og á ekki pening fyrir korti í líkamsræktarstöð 

• Ég er í vaktavinnu, á fjölskyldu og hef ekki orku til að æfa 

• Það er bara brjálað að gera… 

Öll þurfum við að forgangsraða í lífinu og oft er ekki nóg að langa að gera eitthvað. Fyrst þarftu að taka ákvörðun fyrir sjálfa/n þig – og þar með innri röddina – um að ætla að æfa. Í kjölfarið þarftu að útfæra ákvörðunina með því að gera samning við þig um hvernig þú framkvæmir þessa góðu ákvörðun. 

Þessi samningur þarf að vera ótvíræður og bindandi. Þú þarft að skoða lífið þitt vel og útfæra hvar, hvenær, hvernig og hver. 

Hvar: Staðsetning æfingar. Hvert ætla ég að fara á æfingarnar mínar hverju sinni? Á mánudögum syndi ég, á fimmtudögum fer ég í jóga og á laugardögum í gymmið. 

Hvenær: Á hvaða dögum vikunnar og klukkan hvað. Gott ráð er að byrja ekki of bratt og festa 2-3 ófrávíkjanlega tíma í viku en fjölga þeim síðan eftir því sem æfingarnar fara að skila sér og æfingaviljinn fer vaxandi. 

Hvernig: Hvaða aðstoð þarf ég til að komast á æfingu og hvernig ætla ég að útvega hana. Fjarlægðu allar hindranir sem geta nýst sem dæmigerðar afsakanir. Makinn sækir barnið á leikskólann á þessum dögum, mamma ætlar að passa á öðrum dögum, ég ætla að fara að sofa kl. 22:00 á kvöldin til að hafa orku fyrir æfingar á morgnana, ég ætla að taka frá tíma í dagatalinu mínu fyrir æfingar og það er ekkert sem hefur áhrif á þessa tímabókun. 

Hver: Á hvern hefur samningurinn áhrif og hver þarf að vita, af því ég fer á æfingu á þessum tíma? 

Makinn, vinnufélaginn, yfirmaðurinn, mamma, pabbi, vinur/vinkona. Þannig að þegar kemur að því að fá aðstoð eða verja æfingatímann og láta aðra hluti víkja – þá verður að liggja að baki ótvíræður samningur og skilningur þeirra aðila sem samningurinn hefur áhrif á. Allir eru sammála um og skilja að æfingin er látin ganga fyrir og það þarf ekkert að ræða eða útfæra frekar. 

Undanþágur: Eru undanþágur leyfðar – já eða nei? Hvað er undanþága? Strákurinn minn er veikur, ég svaf illa í nótt, það er próf eftir 2 daga og ég verð að læra. 

Ef já – þá verður þú að ákveða hvaða undanþágur eru leyfilegar. En athugaðu að undanþágur eru ekki leyfðar til að sleppa æfingu – heldur til að útfæra hvenær og hvernig þú ætlar að bæta hana upp. 

Ef nei – þá er þetta einfalt. Það er ekkert að fara að breyta þessum æfingatíma því allir þeir sem eru í kringum þig og þykir vænt um þig – hafa skilning á því að til þess að þú getir verið besta útgáfan af sjálfri/um þér og gefið af þér – þá þurfið þið öll að standa við samninginn þinn. 

Í stuttu máli, ef þig langar raunverulega til að breyta til þá þarftu einfaldlega að taka ákvörðun og gera samning við sjálfan þig um hvar, hvenær og hvernig þú afgreiðir það ásamt þeim sem standa þér næst. 

Gangi þér vel

Unnar Helgason
Facebook: Unnar Helgason
IG: @unnarh

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :