Ég pæli mikið í því af hverju við gerum hlutina eins og við eigum að gera þá. Ég horfi á allt með gagnrýnum augum og með því að spyrja mjög einfaldrar spurningar: af hverju? Kemst ég oft að einhverju nýju sem ég vissi ekki áður eða get kennt þeim sem ég er að tala við eitthvað nýtt.
Spurningin “af hverju?” er ein mikilvægasta spurning sem ég hef lært. Það að læra af hverju ég er að gera eitthvað, eða af hverju ekki hefur kennt mér mjög mikið. Ég er kennari hjá 5. bekk og ég sagði þeim mjög fljótt að ég vil að þau spyrji mig af hverju við erum að gera það sem ég er að kenna þeim. Ef þau vita af hverju við erum að glósa þá eru þau líklegri til þess að gera það og gera það vel.
Þetta er alveg eins í íþróttum, til dæmis:
af hverju öndum við ekki í síðasta taki fyrir snúning??
Svar: Það hægir á okkur…
Núna þegar við vitum að það hægir á okkur að anda í síðasta taki fyrir snúning finnst mér ekki í lagi að gera það og mun einbeita mér að því að gera það ekki á æfingum.
Einfalt?
Spurðu “af hverju?“

Að spyrja spurninga er eitthvað sem ég lærði úti hjá Bob Bowman sundþjálfara Arizona háskólans. Fyrir hverja einustu sundæfingu þá fengum við æfinguna í hendurnar og fórum yfir hana saman. Þegar hann var búinn að útskýra fyrir okkur æfinguna þá máttum við spyrja spurninga og það komu oft spurningar af hverju við gerðum þetta sett eða af hverju þurfum við að synda svona mikið niður og svo framvegis.
Hann var alltaf með svar!
Þegar hann svaraði okkur og útskýrði hver tilganginn var þá vorum við líka meðvitaðri um tilgang æfingarinnar og gátum einbeitt okkur að þeim hlutum sem voru aðal atriðið þann daginn.
Ég hvet ykkur til að spyrja af hverju til að fá betri skilning á því sem þið eruð að gera, hvort sem það er í ykkar daglega lífi eða í íþróttinni ykkar.

Vonast til að fá fleiri “af hverju” spurningar frá ykkur!
Kveðja
Ingibjörg Kristín
@ingibjorgkj