Meiðsli og að koma til baka eftir meiðsli getur oft verið sá mesti lærdómur sem íþróttamaður getur dregið af á sínum ferli. Þá þarf íþróttamaðurinn að taka nokkur skref aftur og hænuskref áfram sem getur verið mjög erfitt og reynt á þolinmæðina, en á móti frábær og mikilvægur kennari til lengri tíma. Ég meiddist á bakinu vorið 2017 og hafa æfingarnar mínar breyst mikið í kjölfarið. 

Frá því ég var unglingur og alveg að Ólympíuleikunum í Ríó 2016 synti ég að meðaltali 8-9 sinnum í viku, ég synti að meðaltali um 5 kílómetra á æfingu og mætti á tvær styrktaræfingar á viku. 

Fyrstu mánuðirnir eftir meiðslin voru erfiðir, ég átti erfitt með að æfa. Ég fékk alltaf mikinn verk í bakið við álag og þurfti því að endurhugsa æfingarnar og álagið. Hvað var það sem ég gat gert og hvað ekki? Ég skoðaði veikleikana mína og hugsaði hvar ég gæti bætt mig meira í? Þarna sá ég tækifæri til að vinna í tækniæfingum sem ég gaf mér oft ekki mikinn tíma í að æfa, þar sem mikill tími fór í sundið. Á þessum tíma komst ég í mesta lagi 2-3 kílómetra í stað venjulegu 5km. 

Þegar ég átti að byrja að keppa aftur var ég mjög stressuð yfir því hvernig árangurinn yrði. En það kom mér töluvert á óvart hvað mér gekk vel að keppa miðað við að mér fannst ég hafa æft mikið minna, en sundið gekk vel þar sem ég hafði unnið töluvert í tækninni og náð að bæta veikleikana. 

Haustið 2019 gat ég loksins aukið æfingaálagið og synt oftar lengra og hefur það verið gaman að finna hvernig ég styrkist með hverri vikunni í sundlauginni. Í dag er ég að synda 6 sinnum í viku og alveg upp í 5 kílómetra, einnig er ég 3 sinnum í viku í krefjandi styrktarþjálfun sem hefur hjálpað mér mikið til að halda bakinu góðu og bæta styrkinn sem ég finn að skilar sér í sundinu. 

Lærdómurinn

Ég lærði mikið af þessum meiðslum og að þurfa að aðlaga mig að nýju æfingaálagi og hugsa í lausnum hvað ég get gert þegar ég get ekki gert allt. Það helsta sem ég hef lært af þessum meiðslum er hvað það skiptir miklu máli að gleyma ekki “litlu” hlutunum eins og öllum mismunandi tækniæfingum þar sem endurtekningin skiptir máli. 

Ég vil hvetja komandi íþróttamenn að gleyma ekki tækniæfingum. Einnig þurfa meiðsl ekki alltaf að vera endir á íþróttaferli heldur er alltaf hægt að vinna í einhverju. Þrátt fyrir að það taki rosalega á andlega þá er alltaf fleiri en ein leið að markmiðunum.

Gangi ykkur vel

Eygló Ósk
IG: @eyglo95

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :