Hvað gerir þú þegar hvati fyrir æfingum minnkar? Öll höfum við lent í því að hvati og áhugi til æfinga minnki. Það er mjög eðlilegt og hluti af því að stunda íþróttir reglulega. Ástæðurnar geta verið margskonar; þrálát meiðsli, andlegt álag, mikið æfingaálagi í langan tíma eða lélegur árangur svo eitthvað sé nefnt. 

En hvað er til ráðs þegar maður lendir í því að hvati til æfinga minnkar? Eru til einhverjar aðferðir til þess að bregðast við því?

Hvati

Hvati (e. motivation) er tilfinning, og eins og aðrar tilfinningar þá kemur hún og fer. Það er ómögulegt að vera með mikinn og stöðugan hvata alltaf. Hvort sem við erum íþróttafólk eða ekki þá erum mannleg og það koma tímar þar sem við erum þreytt, okkur líður illa og við höfum ekki mikinn metnað fyrir því sem við erum að gera.

Það eru svo sannarlega til leiðir til að bregðast við því þegar maður hefur lítinn vilja og metnað fyrir æfingum. Í fyrsta lagi er mikilvægt að muna að þessi tilfinning er eðlileg. Maður á ekki að skammast sín eða líða illa yfir því að vera með lítinn hvata stundum. Í staðinn hvet ég ykkur til þess að breyta þessum neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðar; ,,Vá ég er með lítinn áhuga á að fara á æfingu í annað skiptið í dag vegna þess að ég er þreytt, en það er eðlileg tilfinning og þarf ekki að stjórna því hvort ég fari eða ekki,” eða ,,Ég þarf ekki að skammast mín yfir því að vera með lítinn metnað í augnablikinu, það er eðlilegt vegna þess að ég er búin að æfa mikið undanfarnar vikur. Þetta er bara tilfinning en hún líður hjá.”

Í öðru lagi skiptir máli að byggja upp kerfi með rútínum fyrir sjálfan sig sem hjálpar þegar maður upplifir þessar tilfinningar. Ef maður hefur fyrirfram ákveðna rútínu fyrir æfingar er auðveldara að ýta metnaðarleysinu til hliðar og detta inn í rútínuna. Dæmi er að taka alltaf  til íþróttadótið kvöldinu áður en farið er á æfingu, fá sér kaffi fyrir morgunæfingar, verðlauna sig með heitapottsferð eftir æfingu eða gefa sér 10 mínútur í rólega upphitun áður en æfingin byrjar. Þegar maður kemur sér upp venjum í kringum æfingar verður miklu auðveldara að stilla sig á sjálfsstjórn og framkvæma rútínuna án þess að hugsa of mikið um hvernig manni líður. Þegar maður hefur síðan farið af stað með rútínuna sína verður auðveldara að byrja æfinguna með jákvæðu hugarfari þó að hvatinn hafi verið lítill til að byrja með.

Í þriðja lagi er mikilvægt að skrifa niður markmiðin sín og hafa þau sýnileg á hverjum degi. Ekki nóg með að skrifa þau bara niður, heldur er líka gott að svara spurningum um afhverju það skiptir máli að mæta á æfingar og gera þær vel, hvort sem metnaðurinn sé í hámarki eða ekki. Afhverju ertu að stunda íþróttir? Afhverju eru þín markmið mikilvægt fyrir þig? Að skrifa markmið niður reglulega ýtir undir jákvæðar tilfinningar gagnvart æfingum og eykur hvata fyrir því að mæta á æfingar.

Vonandi getur þú nýtt þér þessi ráð næst þegar hvati fyrir æfingum hjá þér minnkar!

Kveðja
Guðlaug Edda
IG: @eddahannesd

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :