Sérhæfð sprettþjálfun íþróttafólks

Sprettir þurfa að vera í öllum æfingakerfum. Ávinningur þeirra er rosalega mikill, hvort sem þú ert í íþróttamaður í fremstu röð eða stundar bara þína líkamsrækt til þess að bæta heilsu og vellíðan. Þessi sprettþjálfun þarf samt að vera sérhæfð.

Þegar ég tala um sérhæfða sprettþjálfun, þá er ég að tala um 100% ákefð með fyrirfram ákveðnum vegalengdum og hvíldum. Ég er ekki að tala um að spretta á eftir bolta á æfingu, það er ekki það sama. Að sjálfsögðu þarf að skipuleggja þessa þjálfun á mismunandi hátt eftir einstaklingum og íþróttagrein. Hér fyrir neðan eru fjórar ástæður afhverju allt íþróttafólk ætti að framkvæma spretti reglulega.

Til þess að bæta hraða

Já augljósa ástæðan. Til þess að bæta hraða, þá þarf að framkvæma sprettæfingar og skipulagðar styrktaræfingar til að ná sem mestu úr líkamanum. Hraðir íþróttamenn hafa augljósa yfirburði í þeim íþróttum þar sem hraði er mikilvægur.

Hraða-þol (speed endurance)

Við getum aðeins haldið hámarkshraða í stuttan tíma áður en þær orkubirgðir, sem sjá um þessar hröðu og kraftmiklu hreyfingar, tæmast (ATP). Með skipulagðri þjálfun er hægt að auka þann tíma sem við náum að halda hámarkshraða eða nálægt hámarkshraða. Nokkur sekúndubrot geta skipt miklu máli í keppni.

Með því að þjálfa spretti á hámarkshraða með viðeigandi hvíldum á milli, þá eykur þú getu líkamans í að ná endurheimt á stuttum tíma og það getur skipt sköpum í löngum keppnum, t.d. fótbolta. Það þarf að vera inneign fyrir hámarks spretti á 89. mínútu í leik. Ef íþróttamaðurinn hefur ekki gott hraða-þol, þá munu orkubirgðirnar tæmast þegar líður á keppni, kraftmyndun líkamans minnkar og sprettirnir verða hægari. Hlaupatæknin gæti breyst og líkur á meiðslum aukast.

Neuromuscular timing

Vöðvar spennast þegar við skynjum áreiti og ákveðum að elta t.d. bolta. Þá tökum við sprett á hámarks ákefð, nokkrum sekúndubrotum eftir að við urðum vör við áreitið (boltann). Þegar líður á keppni og íþróttamaðurinn er orðinn þreyttur og búinn að missa getu á að ná upp hámarkshraða, þá er kraftmyndun líkamans orðin minni eins og fram kom hér að ofan. Viðbragð okkar við að ná upp þessari kröftugu vöðvaspennu minnkar líka og verður hægari þegar við verðum vör við áreitið. Þetta getur orðið til þess að við framkvæmum illa samhæfðan sprett sem getur aukið líkur á meiðslum.

Meiri hámarkshraði – minni orka notuð á hægari ákefð

Þó svo að íþróttagreinin krefjist ekki hámarkshraða í keppni, þá getur aukinn hámarkshraði samt hjálpað þér. Ef líkaminn þinn hefur aðlagast miklu sprettálagi og hámarkshraða, þá notar hann minni orku í keppni þar sem unnið er á lægri ákefð. Þú gætir því unnið á þeirri ákefð sem íþróttin krefst á lægri % af þínum hámarkshraða. Þú notar því minni orku í verkefnið og frammistaðan gæti orðið skilvirkari.

Hæfileg ákefð og vel uppsettar sprettæfingar geta því gert margt fyrir íþróttafólkið. Ekki mun það aðeins bæta hraða og hraða-úthald í keppnum, heldur er sprettþjálfun einnig stór þáttur í fyrirbyggingu meiðsla.

Vilhjálmur Steinarsson
Íþróttafræðingur og Styrktarþjálfari
www.faglegfjarthjalfun.com
Instagram: @vilson4