Við óskum okkar íþróttamönnum innilega til hamingju með valið og árangurinn sem þau náðu á þessu ári.
Sundmaður ársins
Anton Sveinn McKee
Anton býr nú í Vestur-Virginíuríki þar sem hann stundar æfingar en hann tók sér ársleyfi frá vinnu og fluttist þangað frá Boston, til að ná hámarksárangri fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Hann er Sundmaður ársins annað árið í röð. Anton Sveinn náði ótrúlega góðum árangri á árinu 2019. Hann synti á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maí þar sem hann vann til þriggja gullverðlauna og setti eitt Íslandsmet. Á heimsmeistaramótinu í 50m laug í Suður- Kóreu í júlí náði hann í milliriðla í 200m bringusundi og þar náði hann Ólympíulágmarki og bætti tvö Íslandsmet, í 50m og 100m bringusundi. Anton setti 7 Íslandsmet á Evrópumeistaramótinu í 25m laug í Glasgow, ásamt einu Norðurlandameti og hann jafnaði annað. Hann setti einnig eitt landsmet í boðsundi með karlaboðsundsveit Íslands. Þá náði hann inn í úrslit í öllum þremur einstaklingsgreinum sínum á mótinu og náði best 4. sæti. Árangur Antons gerir hann að fimmta hraðasta sundmanni heims í 200m bringusundi á árinu. Anton Sveinn er fyrirmynd í sem og fyrir utan laugina. Hann kemur vel fyrir, hefur sýnt elju við að miðla sinni reynslu til ungs og upprennandi sundfólks og má vera stoltur af sínum afrekum.
Sundkona ársins
Eygló Ósk Gústafsdóttir
Eygló Ósk náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2019. Hún tók þátt í Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Svartfjallalandi og vann þar til þriggja gullverðlauna í 50m, 100m og 200m baksundi. Eygló Ósk náði þar lágmarki á heimsmeistaramótið í 50m laug sem haldið var í Suður-Kóreu í júlí. Þar tók hún þátt í 50m og 100m baksundi. Eygló náði einnig lágmörkum á Norðurlandameistaramótið í Færeyjum og Evrópumeistaramótið í 25m laug í Glasgow. Hún ákvað að keppa einungis á EM25, enda voru mótin haldin nánast á sama tíma. Í Glasgow varð Eygló 24. í 100m baksundi, 18. í 200m baksundi og 23. í 50m baksundi. Að auki var hún hluti íslensku boðsundssveitarinnar sem setti landsmet í 4×50 metra skriðsundi á EM25. Hún mun einbeita sér að því á næstu mánuðum að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.
Kylfingur ársins
Valdís Þóra Jónsdóttir
Valdís Þóra er Kylfingur ársins í þriðja sinn. Hún lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi og endaði tímabilið í 71. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Valdís náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún lenti í 5. sæti. Valdís var lengi vel í forystu í mótinu en hún lék á 63 höggum á fyrsta hring, sem var besta skor mótsins. Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 mótum af 14 á Evrópumótaröðinni á árinu.
Lyftingarkona ársins
Þuríður Erla Helgadóttir
Þuríður Erla hlýtur titilinn Lyftingakona ársins fimmta árið í röð. Þuríður keppti á fjórum mótum á árinu og náði besta árangri sínum á Evrópumeistaramótinu í Georgíu í apríl þegar hún snaraði nýju Íslandsmeti í -59kg flokki kvenna, 87kg. Hún varð efst kvenna á Reykjavíkurleikunum í janúar, í 25. sæti í sínum flokki á heimsmeistaramótinu og vann silfur á Norðurlandameistaramótinu, allt í -59kg flokki. Þuríður stefnir á þáttöku á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 og töldu EM, HM og NM öll sem úrtökumót fyrir leikana.
Júdómaður ársins
Sveinbjörn Jun Iura
Sveinbjörn er nú valinn Júdómaður ársins í þriðja skiptið. Sveinbjörn keppir í -81 kg flokki og hefur sett markið á Ólympíuleikanna í Tókýó 2020. Hann lagði megin áherslu á að keppa á úrtökumótum fyrir leikana á árinu sem er að líða. Bestum árangri náði Sveinbjörn þegar hann vann til bronsverðlauna á heimsbikarmóti í Hong Kong. Sveinbjörn er þriðji Íslendingurinn til þess að vinna verðlaun á heimsbikarmóti síðan núverandi kerfi komst á laggirnar árið 1993. Einnig komst Sveinbjörn í aðra umferð á stórmótunum Grand Slam París og Grand Slam Abu Dhabi og var fulltrúi Íslands á Evrópuleikunum í Minsk. Einnig varð hann þriðji á Reykjavík International Games.
Þríþrautarkona ársins
Guðlaug Edda Hannesdóttir
Guðlaug er Þríþrautarkona ársins þriðja árið í röð. Hún hefur verið búsett í Danmörku sl. þrjú ár og æft með danska þríþrautarlandsliðinu. Nýlega flutti hún aftur til Íslands og æfir nú undir leiðsögn Ian O’brien en hann var valinn þjálfari ársins af bandaríska þríþrautarsambandinu. Hún keppir í flokki atvinnumanna hjá Alþjóðaþríþrautarsambandinu og er mjög nálægt því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum 2020. Guðlaug hefur náð mjög góðum árangri í ár, en hún endaði í 14. sæti á Evrópameistaramótinu í þríþraut sem fram fór í Hollandi og náði sínum besta árangri í heimsbikarskeppninni þegar hún endaði í 15. sæti í Japan. Einnig varð hún fyrst Íslendinga til að klára keppni í heimsúrvalsseríunni í þríþraut (WTS) en hún endaði í 26. sæti í keppni sem fram fór í Kanada. Guðlaug hefur líka keppt í stigakeppnum á vegum Evrópska þríþrautarsambandsins með góðum árangri, en hún komst m.a. á verðlaunapall í sprettþraut í Svíþjóð þar sem hún endaði í 3. sæti. Þá náði hún 2. sæti í Afríkubikarmóti sem fram fór í Marakó í nóvember.
Badmintonmaður ársins
Kári Gunnarsson
Kári er Íslandsmeistari í einliðaleik karla og er þetta áttunda skiptið í röð sem hann vinnur þennan titil. Kári hefur verið mikilvægur í landsliði Íslands undanfarin ár og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla. Kári spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 23 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Kári tók þátt í Evrópuleikunum fyrr á árinu og stóð sig vel. Kári stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum 2020 en það er heimslistinn sem ræður hverjir öðlast keppnisrétt. Kári hefur tekið þátt í 22 alþjóðlegum mótum á árinu og hefur hann náð að vinna sig mikið upp heimslistann. Þegar hann tók ákvörðun um að ætla á Ólympíuleikana var hann í 523. sæti heimslistans í einliðaleik en hann er núna í 144. sæti listans. Listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna. Kári er búsettur í Danmörku og núna í nóvember tók hann þá ákvörðun að þiggja boð í Center of Excellence sem er á vegum Badminton Europe og er staðsett í Holbæk í Danmörku. Þar býr og æfir Kári undir handleiðslu þjálfara á vegum Badminton Europe.