Hvar varst þú þegar þú náðir 10.000 klst. af æfingum?

Ég persónulega man það ekki, enda gerðist ekkert sérstakt, það urðu engin sérstök vatnaskil í mínum ferli við þennan áfanga. Manst þú það?

Það leikur enginn vafi á því að íþróttafólk í fremstu röð hefur æft alveg geysilega mikið og undanfarna áratugi hefur verið mikil áhersla á að allir geti náð á toppinn, – bara ef maður leggur á sig þetta æfingamagn 10.000 klst. (sem er u.þ.b. 5 ársverk fólks í 8 tíma dagvinnu). Vandinn er sá að þetta er mikil einföldun á því flókna ferli sem á sér stað þegar byggja á upp afreksíþróttafólk.

Viðmiðið um 10.000 klst. til að verða sérfræðingur (e. expert) varð heimsþekkt eftir að bók Malcolms Gladwells Útlagar (Outliers) kom út. Hún byggði á rannsókn K.A. Ericsson og félaga frá 1993 þar var hugtakið kerfisbundnar æfingar (e. deliberate practice) kynnt til sögunnar. Þar er gerður greinarmunur á því að „bara æfa“ og því að æfa skipulega í langan tíma að sama markmiði, við góðar aðstæður og í umsjón hæfs þjálfara. Og ekki bara það, heldur líka að vera tilbúin að æfa þau atriði sem geta beinlínis verið leiðinleg, en mikilvæg.

Helstu ástæður þess að 10.000 klst. reglan gengur illa upp fyrir alla er sú að það eru fjölmargt íþróttafólk sem æfir í tilgreindan tíma og jafnvel mun lengur, en nær samt ekki þessum árangri sem reglan lofar. Á sama tíma eru til þó nokkuð mörg dæmi um einstaklinga sem hafa komist á Ólympíuleika í íþróttagrein aðeins með nokkur þúsund klst. á bakinu í viðkomandi grein. Þetta segir okkur að það getur skipt mikilu máli hver á í hlut, hvernig viðkomandi bregst við áreitinu og hver áhrifin verða.

Hættan við þá trú að miklar æfingar séu eina meðalið sem við þurfum til að ná á toppinn er að við ýtum undir snemmbæra sérhæfingu þar sem ein íþróttagrein er æfð af miklum krafti frá barnsaldri jafnvel árið um kring og aðrar íþróttir útilokaðar. Þessi áhersla kemur með aukinni hættu á brottfalli, óstöðuleika í frammistöðu, auknum meiðslum, aukinni hættu á kulnun og brottfalli frá íþróttinni. Þegar nefnilega aðeins þegar kynþroskinn fer að spila inn í vöxt og þroska að við það fer fyrst að koma í ljós hversu vel við íþróttamaðurinn mun geta mætt kröfum íþróttarinnar á fullorðinsaldri.

Það er líka slæmt, en algengt að við getum byggt upp óraunhæfar væntingar hjá hópi sem ekki eins vel til þess fallinn (áhugi og erfðir) að ná hámarksárangri og aðrir. Það hlítur nefnilega að vera súrt að æfa eina íþrótt frá 4 ára aldri, stefna á landsliðið og uppgötva svo 10 árum síðar að æfingarnar eru orðnar leiðinlegar, og hætta að æfa. Hvað þá? Við verðum að geta boðið upp á önnur markmið fyrir þjálfun ungra barna en að ætla í atvinnumennsku í íþróttinni.

Jákvæða hliðin við þessa áherslu á æfinguna (aukaæfinguna frægu) er þó að sjálfsögðu sú að þjálfun og æfingar er eitthvað sem við stjórnum mun betur heldur en hvernig erfðir birtast í vexti okkar og þroska. Við æfum vel og sjáum góðan árgangur, það er mikils virði og góð lexía fyrir aðra þætti í lífinu.

Það eru nokkur lykilatriði sem ég vill að þú takir með þér úr þessum stutta pistli. Það að æfa bara ótrúlega mikið, – er ekki nóg eitt og sér til að ná hæstu hæðum. Íþróttamaðurinn verður að elska íþróttina, að æfa og að keppa, og hafa þessa miklu innri áhugahvöt sem drífur þá áfram í æfingum. Kröfur íþróttarinnar verða að falla að styrkleikum íþróttamannisns að ákveðnu marki og því er mikilvægt að finna þá réttu með því að prófa og æfa fjölbreytt á barnsaldri. Sérhæfingu er svo hægt að hefja af fullum krafti í lok grunnskóla (á við flestar greinar). Fram að því skulum við nota tímann vel!

Það að ná hæstu hæðum er afskaplega erfitt og ekki fyrir alla, – því miður. Við hin fáum þó að dást að og styðja afreksíþróttafólkið okkar frá hliðarlínunni, – vitandi vits hvaða erfiði liggur þar að baki.

Sveinn Þorgeirsson
Aðjúnkt við Íþróttafræðideild HR