Hvað er ofþjálfun og hvernig kemurðu í veg fyrir það?

Langflest höfum við heyrt talað um ofþjálfun í íþróttum, jafnvel lent í því eða þekkjum einhvern sem hefur verið eða er að glíma við ofþjálfun. En hvað er ofþjálfun? Hvers vegna lendum við í ofþjálfun og hvað er það sem gerist í líkamanum þegar við förum í ofþjálfun?

Jafnvægi og ójafnvægi í líkamanum

Áður en við förum að greina nákvæmlega hvað ofþjálfun er, þá er gott að byrja á því að skoða hvað gerist í líkamanum við líkamlega áreynslu. Líkaminn okkar er forritaður til þess að finna leiðir til þess að viðhalda ákveðnu innra jafnvægi, kallað á ensku homeostasis. Þegar við æfum þá erum við að leita eftir því að koma líkamanum frá þessu jafnvægi yfir í ójafnvægi. Við hlaupum, hjólum, syndum, lyftum og komum þannig líkamanum í ójafnvægi, og eftir æfingar þá leitast líkaminn að því að finna aftur sitt innra jafnvægi. Þannig verðum við betri, þar sem við ýtum líkamanum í hærri hæðir með erfiðum æfingum og komum líkamanum í ójafnvægi, áður en tími er kominn fyrir hvíld og þá fer líkaminn strax í að vinna að því að finna jafnvægi á nýju stigi til þess að mæta meiri kröfum vegna æfinganna sem hafa verið sett á hann.

Þegar æfingaálag verður of mikið nær líkaminn ekki að fara í endurheimt og finna sitt jafnvægi aftur, sem leiðir til versnandi árangurs í æfingum og keppnum. Ef slíkt mynstur af æfingum, álagi og endurheimt heldur áfram í of langan tíma getur það leitt til ástands sem kallað er ofþjálfun. Það er auðvitað ekki bara þetta of mikla æfingaálag sem veldur ofþjálfun, heldur spila þar inn í önnur atriði sem hafa mikil áhrif á líkama okkar og sál, en eru oftar en ekki beintengd of miklu æfingaálagi. Þetta eru áhrifavaldar eins og mikill keppniskvíði, hræðsla við mistök eða hræðsla við að vera ekki fullkominn, óhóflega mikil pressa á árangur, lítil eða slæm tengs við þjálfara og æfingafélaga, takmarkað félagslíf, of einvíða fókus og margt fleira. Það er því ljóst að ýmis einkenni falla undir og spila inn í ofþjálfun hjá íþróttafólki.

Á þessari mynd sést hvernig líkaminn vinnur úr áreynslu og nær aftur jafnvægi (eða ójafnvægi ef áreynsla er of mikil í of langa tíma). Mynd tekin af Google.

Hvernig greinum við ofþjálfun?

Fyrir vísindafólk og lækna hefur lengi vel verið erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvort að það sé ofþjálfun sem hrjáir viðkomandi íþróttaeinstakling sem til þeirra leita, eða hvort að einstaklingurinn sé að glíma við einhver önnur vandamál með sambærileg einkenni. Þar að auki hefur verið stór vandi í íþróttasamfélaginu að það er ekki samþykkt að íþróttafólki láti vita af tilfinningum sínum og upplifunum sem gefa til kynna að kulnun eða ofþjálfun sé að eiga sér stað, þá sérstaklega við þjálfara sína og æfingarfélaga. Það gerir það að verkum að oft er erfitt að greina ofþjálfunina snemma eða grípa inn í áður en hún á sér stað. Því verður að of mikið af íþróttafólki fer í ofþjálfun í lengri tíma og oftar en ekki hættir í sinni íþrótt áður en það hefur náð sínum markmiðum.

Í dag eru þrjú greiningaratriði sem mest hafa verið notuð til þess að greina ofþjálfun; mikil þreyta (andleg og líkamleg), verri árangur í keppnum (sérstaklega til lengri tíma) og þungt skap (jafnvel klínískt þunglyndi eða kvíði). Það er því ljóst að þegar einstaklingur er í ofþjálfun glímir viðkomandi við bæði líkamleg og andleg vandamál. Einstaklingur er í of mikilli þjálfun og nær ekki endurheimt á milli æfinga. Það gerir það að verkum að viðkomandi verður þreyttari en ella, líkaminn nær ekki hærri jafnvægispunkti, æfingaárangur fer niður og að lokum keppnisárangur líka. Einstaklingur setur á sig óhóflega pressu til árangurs, hefur gífurlegar og óraunhæfar væntingar varaðandi árangur, glímir við miklar skapbreytingar, fjarlægist vinum og fjölskyldu og missir áhuga á öðrum hlutum í lífinu en íþróttinni.

Á þessari mynd sést að þreyta (e. fatigue) er hluti af því að verða betri, en þegar við hættum að geta náð endurheimt og jafnvægi í líkamanum eftir áreynslu eigum við hættu á að fara í ofþjálfun. Mynd tekin af Google.
Dæmi um einkenni sem geta gefið til kynna að um ofþjálfun sé að ræða. Því fleiri einkenni sem eiga við, því líklegra er að ofþjálfun sé skýringin þrátt fyrir að það sé ekki algilt. Mynd tekin af Google.

Íþróttafólk með mikinn hvata

Nú eru eflaust einhverjir að velta því fyrir sér hvort hægt sé að koma í veg fyrir ofþjálfun í íþróttum. Fylgir því að stunda íþróttir ekki mikil pressa, háar væntingar, upp- og niðurtúrar, erfiðar æfingar og fókus á íþróttina? Svarið við því er , öll þessi atriði fylgja því að stunda íþróttir. En þegar að pressan fer að vera það mikil að einstaklingur þróar með sér keppniskvíða, væntingarnar verða óraunhæfar og óeðlilegar, niðurtúrarnir fleiri og dýpri en áður og æfingar það miklar og erfiðar að einstaklingurinn getur ekki viðhaldið þeim þá erum við komin of langt. Við stundum íþróttir til þess að ná meiri árangri í keppnum og verða betra íþróttafólk, en ekki til þess að brjóta okkur niður andlega og líkamlega. Það er enginn að keppa um það hver sé bestur á æfingum, keyri sig mest út á hverjum einasta degi, eigi fæst áhugamál eða missir stjórn á skapi sínu. Eina keppnin sem skiptir máli er á keppnisdag, og þá vill maður að líkaminn og hausinn sé 100% tilbúin í verkefnið. Það er ekki hægt ef maður hefur brunnið allar brýr að baki sér með brjáluðum æfingum og óeðlilegum fókus.

Það þarf hugrekki til þess að virða sjálfan sig og líkama sinn með því að gefa kost á nauðsynlegri hvíld og öðrum áhugamálum. Það þarf að treysta því með öllu sínu hjarta að slíkt hafi árangursbætandi áhrif, því það gerir það svo sannarlega. Hvíld er lykilatriði.  

Hefur þú lent í ofþjálfun? Hvernig kemur þú í veg fyrir að þú lendir í ofþjálfun?

Guðlaug Edda Hannesdóttir
IG: @eddahannesd