Hugarfar er lykillinn

You have power over your mind – not outside events. Realize this, and you will find strength.” – Marcus Aurelius (Rómverskur keisari), Meditations 

Hættu að afsaka þig

Maður heyrir oft fólk kvarta yfir því að það spilar ekki eins vel á æfingum og á mótum. Ég var einu sinni þannig, og er kannski ekki alveg laus við það ennþá. En eftir að ég ákvað að taka stökkið yfir í atvinnumennskuna og fór að keppa á hæsta plani erlendis, áttaði ég mig á því hvað hausinn er rosalega mikilvægur þegar maður er að keppa. Í gegnum árin hef ég tapað mörgum leikjum á móti andstæðingum sem mér hefur fundist vera miklu lakari en ég. Mér hefur fundist þeir vera með ljóta tækni, ófríðan stíl og bara almennt frekar óhæfileikaríkir badmintonspilarar. Þar að auki upplifir maður það þegar maður keppir úti í heimi að aðstæður eru ekki alltaf alveg eins og maður er vanur heima hjá sér; loftslag, hitastig og raki hefur áhrif á það hvernig boltinn flýgur. Umhverfið í höllinni hefur áhrif á tilfinningunni sem þú hefur á vellinum; td. stærðin á höllinni, loftkælingarkerfi og hvernig ljósin eru sett upp. 

Ef andstæðingurinn er með ljóta tækni eða asnalegan stíl þá hefur það lítil áhrif á það hvað þú þarft að gera þegar þú labbar inn á völlinn. Jú, maður þarf auðvitað að vera meðvitaður um hvernig umhverfið er – td. ef boltarnir eru hraðari en maður er vanur þá getur það haft áhrif á hvernig er best að spila – en það hefur samt sem áður engin áhrif á hverkonar hugarfar þú þarft að hafa. Á endanum eru allar þessar afsakanir lítils virði. Hvernig maður metur og dæmir sjálfan sig og umhverfið sem maður er í – og hvernig maður ákveður að bregðast við því – skiptir rosalega miklu máli. Sjálfstraust er mikilvægt en á hinn bóginn er líka auðvelt að verða fyrir vonbrigðum ef maður hefur of háar væntingar. Og í íþrótt eins og badminton þar sem hvert stig telur þá er ekki mikill tími til að vera að svekkja sig yfir fortíðinni.

Leyfðu sjálfum þér að gera mistök og treystu ferlinu

Við erum öll misjöfn og því er engin lausn sem gildir fyrir alla. Heldur snýst þetta um að læra að stilla sig þannig að maður nái sem bestum árangri. Ég er fæddur með smá fullkomnunaráráttu og hef átt erfitt með að sætta mig við mistök og “lélegu” spili. Það hefur verið lykilatriði í mínum leik að stilla væntingarnar mínar (td. að geta sætt mig við mistök í leik). Ég spjallaði einu sinni við íþróttasálfræðing og sagði honum frá því hvað ég gat verið dómharður gagnvart sjálfum mér. Það er tvennt sem ég hef gert til þess að bæta mig í þessu. Í fyrsta lagi er það að minnka fókus á útkomur en að einbeita mér meira að ferlinu (process). Í öðru lagi er það að vera meðvitaður um það hvernig ég met og dæmi sjálfan mig. Að meta eigin getu á hlutlausan hátt er nauðsynlegt ef maður ætlar að bæta sig. Hugmyndin með að leggja meiri áherslu á ferlið er að besta leiðin til að ná góðum úrslitum er að vera minna upptekinn af þeim. Hið fræga mantra “trust the process” tengist þessum hugsunarhætti. Á ensku er talað um result vs. process orientation. Útgangspunkturinn er sá að hugsa alltaf til langs tíma; hugsa leikinn sem heild og þróun langtímamarkmiða. Almennt þýðir langtímaáherslan að maður býr sér til ákveðinn hugtök um það hvernig ég verð betri badmintonspilari og svo vinnur maður með skipulögðum hætti að því að bæta sig á þeim sviðum. Þetta kallast vísvitandi þjálfun, eða deliberate practice á ensku. Samkvæmt ferils-áherslunni er það sem skiptir mestu máli í leik að búa til leikjaplan út frá þeim hugtökum sem maður hefur þróað. Það fylgir ferils-hugsunarhættinum að hugsa “mistök” ekki sem “villur”, “klúður” eða eitthvað sem maður hefur gert “vitlaust”, heldur að hugsa “mistök” sem tilraunir sem maður gerir í framkvæmd á leikjaplaninu. Það sem skiptir máli er að reyna að framkvæma planið eins vel og maður getur. 

Ég man eftir að hafa heyrt Toni Nadal – frændi og þjálfari tennishetjunar Rafael Nadal – segja frá því þegar Rafa átti að spila einn af sínum epískum úrslitaleikjum við Roger Federer. Rafa spurði Toni hvernig hann meti leikinn og Toni sagði við hann “úff, Rafa, þetta verður erfitt – Roger hefur miklu betri uppgjöf en þú, forhöndinn hans er nákvæmari og það er töluvert meiri kraftur í bakhöndinni hans”. Rafa horfir á hann og segir “úff, Toni frændi, þetta er svoldið erfitt að heyra”. Þá segir Toni við hann “það sem við getum gert er að spila hvert einasta stig eftir fullri getu og sýna gott hugarfar”. Rafael vann leikinn. Lærdómurinn er náttúrulega að vera góður að meta eigin getu og svo berjast fyrir hverju einasta stigi með góðu hugarfari. 

Einblíntu á því sem þú getur stjórnað

Það getur verið hamlandi að einblína of fast á úrslit og útkomu – sérstaklega ef maður á það til með að vera mjög harður við sjálfan sig, eins og margir íþróttamenn eru – en þess vegna hefur mér fundist það gefa mér ákveðið frelsi að læra að leggja meiri áheyrslu á planið og heildina í ferlinu sem ég er í. Það felst frelsi í því að færa áhersluna frá því sem er í umhverfinu manns og það sem aðrir eru að gera yfir á sjálfan sig og það sem maður getur gert sjálfur til að ná bestum árangri. Stóiskir heimspekingar á Grikklandi og í Róm voru búnir að fatta það fyrir löngu síðan en þeir bentu einfaldlega á að “some things are up to us and some things are not up to us”. Besti árangurinn kemur þegar maður lærir að greina þar á milli og einbeita sér að þeim hlutum sem maður getur stjórnað sjálfur. Hugarfarið er einn af þeim hlutum. 

Ef þið hafið spurningar eða eitthvað sem þið viljið benda mér á þá megið þið senda mér skilaboð á Instagram, Facebook eða í tölvupósti!

Takk kærlega fyrir að lesa!
Kári Gunnarsson
IG: Karigunnars
FB: Kári Gunnarsson Badminton
Email: kagun1991@gmail.com

Bækur sem ég mæli með: