Gagnleg hugsun

Mér áskotnaðist bók um daginn. Bókina fékk ég gefins frá fjölskyldunni sem ég gisti hjá í síðasta mótinu í Ástralíu og mér þótti hún ansi áhugaverð, allar 95 blaðsíðurnar. Bókin heitir „Useful Belief – Because it‘s better than positive thinking og er eftir Chris Helder.

Hver hefur ekki heyrt „já það er bara að vera jákvæð/ur, hugsa jákvætt!“ Og svo reynir maður að vera jákvæð/ur og hugsa jákvætt en það hjálpar ekki. Ef eitthvað er pirrar það mann enn meira þegar einhver segir þetta við mann, því heldur sú manneskja virkilega að maður hafi ekki reynt það? Maður spyr sig.

Ef ég tek dæmi úr bókinni um þetta;

 Þú hefur gengið í gegnum erfiðasta ár lífs þíns. Flestallt hefur einhvern veginn verið stöngin út, markmiðunum ekki náð, misstir vinnuna eða fjölskyldumeðlim. (Bara hvað sem er, enginn tengir við það sama og einhver annar og raunveruleiki hvers og eins er mismunandi). Félagi þinn eða fjölskyldumeðlimur kemur upp að þér og segir „Hey, þú hefur átt slæmt ár. Ekki hafa áhyggjur maður. Hugsaðu bara jákvætt.“

Hver væri ykkar fyrsta hugsun? Líklega ekkert mjög jákvæð er það?

En hins vegar ef sá hinn sami hefði sagt „Allt í lagi, árið hefur verið erfitt. Þú ert á núllpunkti. Spurningin núna er sú, hvað er best fyrir þig að gera til að koma þér af núllpunkti og upp eitt þrep? Hvaða atriði myndu helst gagnast þér til að komast af þrepi eitt upp á þriðja þrep í átt að betra lífi?“

Viðbrögð ykkar við þessu svari yrðu eflaust öðruvísi en eftir „jákvæðis peppið“.
Þetta kallast gagnleg hugsun.

Bókin skiptist upp í þrjá meginkafla. Gagnleg fortíð, gagnleg nútíð og gagnleg framtíð. Ég ætla nú ekki að skrifa alla kaflana upp fyrir ykkur en ætla leyfa mér að stikla á stóru punktunum.

Gagnleg fortíð:

Þú átt þá foreldra sem þú áttir að eignast. Satt? Eflaust hugsa einhverjir núna um að það getur ekki verið, þá hefði ég eignast foreldra sem væru ríkari, tuða ekki jafn mikið, ekki svona afskiptasöm, bla bla bla. Allir (hafa) upplifa? hugsanir á borð við þessar. EN það sem skiptir máli hér er sú staðreynd að við værum ekki þau sem við erum í dag ef ekki væri fyrir foreldra okkar. Sama hversu góða eða slæma reynslu við höfum af þeim að þá er það staðreynd. Ef þú kýst að trúa því að þú hafir eignast þá foreldra sem þú áttir að eignast þá verður auðveldara að taka frá þeim þann lærdóm sem þau gáfu okkur. Kannski fannst þér foreldrar þínir ekki eyða nægum tíma með þér þegar þú varst yngri og þú ætlar svo sannarlega að eyða meiri tíma með börnunum þínum þegar/ef þú eignast börn. Þetta lærðir þú af foreldrum þínum. Þú lærir af foreldrum þínum hvers konar manneskja þú vilt eða vilt ekki verða.

Gagnleg nútíð:

Þessi upplifun (fundur, skólatími, íþróttamót, o.sv.fr) er að bresta á þannig að hvað er gagnlegasta hugarfarið sem ég get farið inní upplifunina með?
Tökum dæmi með golfmót; ef þú ferð inn í mótið með því hugarfari að þú munir ekki standa þig vel þá munt þú ekki standa þig vel. Vindurinn er svo mikill og þá verður svo erfitt að spila golf. Jú það er vissulega erfiðara að spila í miklum vindi því það krefst fjölbreytilegri högga og meiri stjórn á boltafluginu. En hvað ef þú ákveður að nota vindinn þér í hag? Spila með vindinum en ekki á móti honum. Fá hann með þér í lið. Þú myndir líklega ná betri árangri en ef þú ákveður að spila á móti honum. Þetta er gagnleg hugsun.
Sama gildir með fundi og skólatíma, ef þú ákveður fyrirfram að fundurinn eða kennslustundin sé tímasóun þá mun hún verða það. En ef þú ákveður fyrirfram að þú getir lært af þessum fundi/kennslustund þá munt þú ganga af fundinum ánægðari og betur upplýst/ur.

Gagnleg framtíð:

Búðu til þitt „fullkomna líf“ eftir 12 mánuði, 2 ár og 55 ár. Þetta eru markmið (og plön) sem þú vilt ná á þessum tíma. Hvað þarf að gerast til þess að þetta verði að raunveruleika? Svarið við þeirri spurningu er upphafið að því sem þú getur gert til að ná þessum áföngum. Ef þú ætlar að verða best/ur í þinni íþrótt, hvaða skref þarftu að taka til þess að ná því? Hvað þarftu að bæta? Hverju þarftu að fórna? Það byrjar núna!

Það sem er svo skemmtilegt við þessa bók er að þú getur notað þessa hugsun á allt í lífinu hvort sem þú ert íþróttamaður/kona, í viðskiptalífinu (farið yfir hvernig á að ná til og stjórna mismunandi kynslóðum með sem bestum árangri) eða bara hverju sem er. Allt til að bæta lífsgæði og hugarfar. Hún er ekki nema 95 blaðsíður en hún gæti breytt ykkar sýn á lífinu og hjálpað ykkur að ná markmiðum ykkar.

Ég held með ykkur!

Valdís Þóra
IG @valdisthora