Byrjaði að kasta kringlu fyrir tilviljun

Hvernig ég byrjaði í frjálsum er frekar skemmtileg saga. Hafði aðeins æft frjálsar sem lítill gutti en þegar ég var á mínu fyrsta ári í menntaskóla var mjög góður vinur minn að æfa stangarstökk, var í landsliðinu í fjálsum og var mjög oft erlendis að keppa. Við vorum mikið saman á þessum tíma og ræddum það oft að fara til útlanda saman sem var ekki beint á færi námsmanna í menntaskóla. Fengum þá frábæra hugmynd um að ég myndi byrja að æfa kúluvarp og kasta mig inn í landsliðið og komast þannig saman í keppnisferðir. Ég hafði nú kastað kúlu í leikfimi í grunnskóla lengra en Íslandsmetið í mínum aldursflokki á sínum tíma. Við héldum reyndar að ástæðan fyrir þessu afrekskasti hafi líklega verið of létt kúla, stoppaði nú ekki lengi við þá hugsun. Hugmyndin að byrja að æfa kúluvarp var svo geggjuð að okkar mati.

Ríó 2016.

Kúluvarpið hentaði mér nokkuð vel og náði ég að komast á norðurlandamót unglinga U19 en rétt fyrir það mót hafði ég prófað að kasta kringlu og lá það vel fyrir mér. Á norðurlandamótinu keppti ég líka í kringlukasti og náði að kasta lengra en 50m (múrinn) og eftir það mót byrjaði ég að einbeita mér meira og meira af kringlukastinu sem endaði með því að ég keppti á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Sturlað skjótt ferðalag sem hófst á allt öðrum forsendum.

Það sem er fyndið við þetta allt saman er að eftir að ég byrjaði að æfa frjálsar hef ég farið í ótalmargar ferðir en ekki eina einustu með vini mínum eins og við höfðum planað á menntaskólaárunum.

Allt gerðist þetta mjög hratt og hér má sjá mig 2014 nýbyrjaðan að kasta kringlu.

Nýbyrjaður að kasta kringlu – 2014.

Hér má sjá myndband frá Ríó, töluverður munur sést á köstunum aðeins á þessum 2 árum.

ÓL kast í Ríó 2016.

Ef einhver vill deila með mér skemmtilegum sögum um hvernig þið byrjuðu að æfa ykkar íþrótt þá megið þið endilega tagga mig á InstaStory með þær.

Guðni Valur
IG: @gudnigudna