Rann­sókn­ir sýna fram á mik­il­vægi ástríðu þegar kem­ur að því að skara fram úr. Þegar við skoðuðum nokkra af fremstu ein­stak­ling­um í heim­in­um á sínu sviði fund­um við út að bak við gíf­ur­lega mikla vinnu/þ​jálf­un á sviðinu voru nokkr­ir þætt­ir sem er hægt að kalla sál­fræðilega hæfi­leika (e. resources).

Þætt­irn­ir voru ástríða, þraut­seigja (e. grit) og grósku­hug­ar­far (e. growth mind­set). Þar fyr­ir utan var góður leiðbein­andi, eða „mentor“, mik­il­væg­ur.

Ástríðan hef­ur áhrif á stefnu okk­ar í líf­inu, það er að segja á hvaða sviðum hún ligg­ur og hvert við vilj­um stefna. Í þessu sam­hengi get­ur maður sagt að við sem for­eldr­ar, kenn­ar­ar, þjálf­ar­ar, afar og ömm­ur eig­um að kveikja elda í stað þess að fylla á körf­ur. Þraut­seigj­an er síðan lyk­ilþátt­ur við að kalla fram þá miklu vinnu/þ​jálf­un sem þarf til að verða framúrsk­ar­andi.

Í því sam­bandi er mik­il­vægt að þú sem ein­stak­ling­ur búir yfir hug­ar­fari sem ein­kenn­ist af grósku, það er að þú haf­ir sterka trú á því að þú get­ir haft áhrif á þína eig­in þróun. Ef ein­stak­ling­ur með grósku­hug­ar­far er spurður hvort hann sé góður að spila á gít­ar, þá svar­ar hann: „Ekki enn þá en ég ætla mér það.“ Eða hann er spurður hvað hann viti um nó­bels­skáldið Hall­dór Kilj­an Lax­ness? „Ekki mikið enn þá en ég ætla að fræðast meira um hann.“

Gott dæmi um framúrsk­ar­andi ein­stak­ling er Char­les Darw­in. Darw­in er tal­inn vera einn af mik­il­væg­ustu vís­inda­mönn­um í heim­in­um, sem með þró­un­ar­kenn­ing­unni koll­varpaði öll­um hug­mynd­um manna um þróun. Það eru kannski færri sem vita að Darw­in kunni ekki vel við sig í skóla en hann hafði ríka ástríðu og áhuga á fugla- og dýra­rík­inu frá unga aldri. Hann átti til dæm­is stórt safn af bjöll­um. Hann elskaði að veiða á stöng og að fara á smá­fugla­veiðar. Ró­bert, pabbi Darw­ins, vildi að hann yrði lækn­ir eða prest­ur en Darw­in fylgdi hjart­anu og vann allt sitt líf með nátt­úru­fræði. Hans mikla ástríða fyr­ir og reynsla af nátt­úru­skoðun er tal­in einn af lyk­ilþátt­um fyr­ir þróun á hans kenn­ingu.

Ann­ar framúrsk­ar­andi ein­stak­ling­ur er söng­kon­an Björk. Hún er annað dæmi um mik­il­vægi þess að fylgja hjart­anu. Ástríða Bjark­ar inn­an tón­list­ar og henn­ar mikla reynsla frá barns­aldri hef­ur gert hana að þeim tón­list­ar­manni sem hún er. Darw­in og Björk eru gott dæmi um ein­stak­linga sem hafa náð frá­bær­um ár­angri á sínu sviði. Það má segja að þetta séu ein­stak­ling­ar sem gerðu hluti á sinn hátt.

Okk­ar rann­sókn á tengsl­um ástríðu og þraut­seigju sýn­ir sterkt sam­band á milli þess­ara þátta sem styrk­ir sýn­ina á að ástríða sé mik­il­væg fyr­ir þraut­seigju að öf­ugt. Í þessu sam­hengi er brýnt að hugsa: Ég vil, ég skal og ég get.

Virkj­um okk­ar ástríðu, kveikj­um elda.


Hermundur Sigmundsson

Prófessor við Háskólann í Reykjavík og Norska tækni – og vísindaháskólanum í Þrándheimi.
Email: hs@ru.is

Her­mund­ur Sig­munds­son er pró­fess­or í lífeðlis­legri sál­fræði við Há­skól­ann í Þránd­heimi og Há­skól­ann í Reykja­vík og skrif­ar pistla um vís­indi og sam­fé­lag. Pist­ill­inn birt­ist fyrst í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins 5. janú­ar 2019.

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :