Hvað gerist þegar við náum ekki markmiðunum okkar? Markmiðin sem ég er að fara tala um eru stóru markmiðin, ekki þessi litlu markmið sem maður setur sér fyrir daginn. Ég er að tala um stóru markmiðin sem hræða þig, sem sumum finnst hlægileg og sem þú hugsar stanslaust um.

Markmið er það sem ýtir okkur áfram til að ná árangri í því sem við höfum á ástríðu fyrir.

Hvað gerist þegar við fylgjum öllum reglum, fórnum tíma með fjölskyldu og vinum og gerum allt sem við getum til að reyna ná þessu eina markmiði?

Þetta er spurning sem ég er búinn að pæla mikið í núna í eltingaleik mínum við Ólympíu lágmarkið. Þessar spurningar koma alltaf upp í hugann þegar nær dregur að stórmótum. „Hvað ef ég vinn ekki?“ „Hvað ef ég bæti ekki tímann minn“ „Hvað ef ég næ ekki lágmarkinu“ „Hvað munu aðrir halda…?“

Þetta eru spurningar sem flestum finnst mjög erfitt að tala um. Það er sagt að maður eigi ekki að hugsa svona, þú átt að hugsa jákvætt! Sem er rétt, en það breytir því ekki að þessar spurningar koma hvort sem maður sé jákvæður eða ekki. Eins mikið og þú reynir að hugsa ekki um þessar spurningar þá koma þær alltaf aftur upp.

Ég hef verið að æfa mig í sjálfstali síðan 2018. Að segja að þú sért að fara ná lágmarkinu í staðinn fyrir að reyna. Banna sjálfum þér að segja „Ég get ekki“. Þessar æfingar og aðferðir virka rosalega vel fyrir mig og ég hef náð miklum árangri með því að nota þessa aðferð.

En… Spurningarnar koma þrátt fyrir allt jákvætt sjálfstal.

Árið 2019 bætti ég mig ekki um 0.01 sekúndu. Náði ekki lágmarkinu fyrir HM50. Tapaði gulli með 0.01 á smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi. Bætti ekki Íslandsmetið mitt í 50m skriðsundi í 25m laug. Í heilt ár náði ég ekki einu einasta markmið á móti.

Og hvað?

Þetta ár sýndi mér að svörin við öllum þessum spurningum var einfaldlega „Áfram Gakk!“ Við náum ekki alltaf markmiðunum okkar og það er í lagi. Það þarf að skilja, læra og áfram gakk! Við megum ekki vera hrædd við að ná ekki okkar markmiðum. Markmiðið er að ná markmiðinu en markmið er bara það… markmið. Orð eða hugmynd um hvert okkur langar að ná.

Markmiðið mitt er að ná A-lágmarki á Ólympíuleikana í sundi.
Og ef ég næ ekki lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana 2021…
Hvað þá?

Dadó Fenrir

Afreksmaður í sundi

This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :